Talað í hringi

Magnús Smári Snorrason

Í grein sem bar heitið Sjúddirarí – rei, sem oddviti Framsóknarflokksins í Borgarbyggð birti í Skessuhorni, tekst henni að tala sjálfa sig í heilhring. Hún gagnrýnir harðlega að farið sé í framkvæmdir en leggur í sömu grein til að stórum framkvæmdum sé forgangsraðað fyrr.

Skuldir sveitasjóðs hækka um 30 milljónir á tímabilinu 2022-2024 eða 0,01%

Kostnaður við fræðslumál er gagnrýndur að hann sé of hár sem hlutfall af skatttekjum án þess þó að geta þess að tekjur hafa lækkað eða staðið í stað á sama tíma og laun hafa hækkað. Talað er um að með því að taka lán fyrir framkvæmdum sé von á snjóhengju skulda hjá sveitarfélaginu eftir tvö ár þegar ljóst er að á árunum 22-24 er gert ráð fyrir skuldabyrði sveitarfélagsins aukist um einungis 30 milljónir eða 0,01% þar sem á sama tíma verða greiddar niður skuldir um 871 milljónir.  Áfram er gert ráð fyrir stórum afborgunum á lánum á árunum á eftir sem lækkar greiðslubyrði. Skuldahlutfall er langt undir viðmiðum eftirlistnefndar og vaxtakjör einstaklega hagstæð. Auk þess sem virðisaukaskattur af vinnu fæst endurgreiddur á árinu 2021. Það má því í raun segja að það væri ákveðið ábyrgðarleysi að halda ekki áfram að fjárfesta þó svo það krefjist lántöku.

Álagning fasteignaskatts óbreytt

Sú fjárhagsáætlun sem nú var samþykkt fyrir árið 2021 krefst þess ekki að álagning fasteignaskatta verði aukin, áfram verður fjárfest í mikilvægum innviðum, reksturinn verður rýndur og aðlagaður breyttum veruleika en Covid 19 hefur haft mikil áhrif á reksturinn þó svo að Framsókn í Borgarbyggð haldi því fram að Borgarbyggð sé eina sveitarfélagið sem ekki hefur orðið fyrir áhrifum af heimsfaraldrinum.

Börn og starfsfólk í heilnæmt húsnæði eða hreppapólitík

Í umræddri grein er farið fögrum orðum um nauðsyn þess að börn og ungmenni í sveitarfélaginu fái að eflast og þroskast í öflugu félagslegu umhverfi með bestu aðstöðu til tómstunda og heilsueflingar. Að okkur beri skylda til að tryggja að allt skólahúsnæði verði eins gott og kostur er en á sama tíma fjargviðrast yfir því að útbúa eigi sparkvöll við Kleppjárnsreyki þar sem nú hefur risið leikskóli og framundan nauðsynlegar endurbætur á skólahúsnæði. Þarna erum við þó sammála. En svo er talað um hreppapólitík en með því að ýja að því að fulltrúar í sveitarstjórn séu eingöngu að gæta hagsmuna nágranna sinna er einmitt verið að gera tilraun til draga umræðuna á slíkt plan. Allar þær greiningar sem gerðar hafa verið á skólahúsnæði styðja það að nauðsynlegt sé að fara í miklar endurbætur á húsnæðinu á Kleppjárnsreykjum vegna rakavandamála og mikils skorts á viðhaldi og alveg ljóst að þar verður framtíðarsvæði skóla.

Sveitarfélagið Borgarbyggð hefur á undanförnum árum verið vel rekið og verður það áfram, þrátt fyrir tímabundnar áskoranir.  Möguleikar til vaxtar eru miklir og nauðsynlegt að þær innviðaskuldir sem höfðu safnast upp verði greiddar. Meirihluti sveitarstjórnar í Borgarbyggð lagði á það áherslu í sínum samstarfssamningi að bæta aðstöðu nemenda og starfsfólks skóla, við það verður staðið. En það verður líka hafin vinna við heildarhönnun á íþróttasvæðinu í Borgarnesi þar sem gert verður ráð fyrir nýjum íþróttamannvirkjum og eru áætlaðar í það 96 milljónir króna strax á árinu 2022, fyrr en nokkur hefði þorað að vona. Vandséð er að hægt hefði verið að byrja fyrr á því verkefni þar sem undirbúa þarf byggingarsvæðið og leysa ýmis hönnunarmál.

Það er full ástæða til að vera bjartsýnn á að áfram verði hægt að efla Borgarbyggð sem sveitarfélag og bæta búsetuskilyrði í öllu sveitarfélaginu.

 

Magnús Smári Snorrason

Höfundur er oddviti Samfylkingarinnar í Borgarbyggð.