Taktu þátt!

Rakel Óskarsdóttir

Nú líður senn að sveitastjórnarkosningum og þá lita stjórnmálin umræðuna í samfélaginu meira en ella. Margir kjósendur vilja komast nær þeim sem eru í framboði og fá fram skoðanir þeirra á ýmsum málum og hvernig þeir hyggjast taka á þeim fjölmörgu áskorunum sem framundan eru. Við sem kosin erum í bæjarstjórn hverju sinni höfum það hlutverk að hlusta á raddir bæjarbúa og fögnum því þegar íbúar deila með okkur sinni sýn. Samtal við kjósendur er okkur frambjóðendum afar dýrmætt því þá fáum við fram ábendingar um það sem betur má fara, nýjar hugmyndir og hrós fyrir það sem vel er gert.

 

Að hafa áhuga

Stjórnmálin eins og þau blasa við okkur í fjölmiðlum og athugasemdakerfum þeirra er ekki sú birtingarmynd sem við bæjarfulltrúar á Akranesi búum við í störfum okkar fyrir samfélagið hér á Skaga. Því miður litar neikvæð umræða og ásakanir allt umtal um pólitík og þar af leiðandi kemur ekkert á óvart þegar maður tekur sumt fólk tali um bæjarmálin að maður fái svarið, æ ég hef engan áhuga á pólitík. En þá er gott að spyrja, hvað er pólitík? Að hafa skoðanir á skólastarfi barnanna sinni, uppbyggingu íþróttamannvirkja, umhirðu nærliggjandi umhverfis og svo margt, margt fleira tengist allt pólitík með einum eða öðrum hætti.

 

Opnir málefnafundir

Nú í aðdraganda sveitastjórnarkosninga eru framboð að setja saman málefnaskrá sem listar upp þær áherslur sem leggja skal af stað með í komandi kosningabaráttu. Sjálfstæðisflokkurinn á Akranesi mun í ár líkt og fyrir síðustu sveitastjórnarkosningar standa fyrir opnum málefnafundum nú í apríl. Á þessum fundum munum við taka fyrir mörg af þeim málum sem brenna á okkur bæjarbúum fyrir komandi kosningar og reyna að skyggnast inn í framtíðina. Fundirnir verða alls sjö og hver fundur með sérstakt þema. Þar gefst íbúum tækifæri á að koma sinni sýn á framtíðina í ólíkum málaflokkum auðveldlega á framfæri við okkur frambjóðendur.

Sjálfstæðisflokkurinn á Akranesi vill hvetja alla bæjarbúa að mæta á málefnafundina og taka þátt í því að gera Akranes að betra samfélagi, við getum alltaf bætt okkur. Þú þarft ekki að hafa áhuga á „pólitík“ einungis áhuga á að efla samfélagið Akranes.

Fundirnir fara fram á kosningaskrifstofu okkar að Kirkjubraut 8 og verða þeir auglýstir sérstaklega. Einnig má benda áhugasömum íbúum, sem einhverjar spurningar hafa um framboð okkar að hafa samband í gegnum fésbókarsíðu framboðsins, undir nafninu Sjálfstæðisflokkurinn á Akranesi.

 

Rakel Óskarsdóttir.

Höf. er bæjarfulltrúi og oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akranesi.

Fleiri aðsendar greinar