Tákn um trú á framtíðina

Guðveig Lind Eyglóardóttir

Í dag er fagnað mikilvægum áfanga í uppbyggingu á fjölnota knatthúsi í Borgarnesi. Reisugildi nýs íþróttamannvirkis.

Ákvörðun um stórframkvæmd og fjárfestingu í íþróttamannvirki af þessu tagi eru tákn um trú á framtíðina og á vöxt sveitarfélagsins. Um er að ræða uppbyggingaráform sem endurspegla vilja og ákall íbúa til margra ára um innviði sem stuðla að heilbrigðum lífsstíl, félagslegri þátttöku, samveru og fjölbreyttum tækifærum til þátttöku fyrir alla aldurshópa.

Fjárfesting í framtíðinni

Stefnt er að því að taka húsið í notkun haustið 2026. Markmið með uppbyggingu íþróttamannvirkja er ekki aðeins að koma til móts við brýna þörf á stækkun vegna fjölda iðkenda og greina. Um er að ræða fjárfestingu í heilsu barna okkar, í félagslegri velferð og heilbrigði samfélagsins. Að baki öllu íþróttastarfi skapast vettvangur þar sem börn og ungmenni fá tækifæri til að læra mikilvægi samvinnu, úthalds og virðingar í gegnum leik og íþróttastarf. Í húsinu munu jafnframt fullorðnir og eldri íbúar geta viðhaldið virkni, vellíðan og eflt félagsleg tengsl allt árið um kring.

Athöfnin í dag markar mikilvægt áfangaskref í uppbyggingu mannvirkisins sem á vafalaust eftir að verða eitt af stóru „líffærunum“ á þessu svæði.  Þau sem hafa farið um svæðið sjá að þar rís íþróttamannvirkið nú hratt og örugglega í nálægð við grunnskólann og íþróttamiðstöðina. Samlegðaráhrifin verða því á margan hátt jákvæð. Ekki síst fyrir tækifærin sem skapast með frekari samstarfi grunnskóla, frístundar og íþróttafélaganna til að skapa samfellu í dagsskipulagi grunnskólabarna.

Hrós til framkvæmdaraðila

Það er ekki hægt að láta hjá líða að hrósa Ístak og Eflu sem hafa séð um framkvæmdir, verkstjórn og eftirlit. Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá hve faglega hefur verið staðið að allri umgjörð, öryggi og skipulagi á svæðinu.  Þá ber ekki síst að þakka öllum þeim sem lagt hafa hönd á plóg; hönnuðum, verktökum, starfsmönnum og samstarfsaðilum sveitarfélagsins sem nú leggja grunn að mannvirki sem mun þjóna samfélaginu okkar um ókomin ár.

Undirbúningur að frekari uppbyggingu á svæðinu

Samhliða byggingu á fjölnota knatthúsi hefur verið unnið að þarfagreining með hagaðilum vegna undirbúnings að hönnun á parkethúsi og endurskipulagningu á núverandi íþróttahúsi og mannvirki sem mun tengja þessar byggingar saman. Framkvæmdaáætlun sveitarfélagsins gerir ráð fyrir áframhaldandi vinnu við undirbúning og hönnun að því verkefni á næsta ár.

Reisugildið markar þannig ekki aðeins framvindu í byggingarferlinu, heldur einnig táknrænan og langþráðann áfanga í uppbyggingu íþróttamannvirkja fyrir íbúa.

 

Guðveig Lind Eyglóardóttir

Höfundur er forseti sveitarstjórnar í Borgarbyggð