Takk fyrir traustið

Haraldur Benediktsson

Kærar þakkir fyrir það mikla traust sem þið sýnduð framboði Sjálfstæðisflokksins í alþingiskosningum 29. október sl.  Markmið okkar um að fá þrjá þingmenn kjörna náðist. Slíku takmarki er ekki auðvelt að ná í kjördæmi sem aðeins hefur átta þingmenn og mörg framboð.  En niðurstaðan er skýr, góður sigur framboðsins.

Sigrinum fylgir ábyrgð. Við lofuðum að vinna þjóðinni allt það gagn sem við gætum og kjördæminu okkar. Við lögðum sérstaka áherslu á ýmis úrbótamál sem þarf að vinna að.  Þau eru mörg og breytileg í okkar víðfeðma kjördæmi.  En þau eru öll mál sem þið í þeim byggðum leggið áherslu á.  Þannig á okkar starf að vera, vinna með fólkinu að betra samfélagi.

Við þökkum góðar móttökur í fyrirtækjum og stofnunum. Að þessu sinni náðist ekki að fara eins víða og æskilegt er. Baráttan var stutt og tíminn af skornum skammti. Það er einstaklega ánægjulegt að upplifa nú, þær miklu breytingar sem hafa orðið frá því að við kusum 2013. Nú ríkti bjartsýni og kraftur.  Mikilvægast af öllu er að varðveita það.

Sjálfstæðimenn um allt kjördæmið lögðu sig alla fram í þessari baráttu. Þeirra er sigurinn og þeirra er þessi árangur. Það er ekki sjálfgefið að svo margt hæfileikaríkt fólk leggi svo hart að sér í sjálfboðavinnu. En einmitt þannig látum við hvert og eitt verkin tala. Við viljum öll vinna samfélögum okkar gagn og standa með þeim.

Frambjóðendum annarra flokka sendum við okkar bestu kveðjur. Sú mikla vinna og álag sem fylgir ferðalögum og kosningabaráttu í NV kjördæmi er líka mikill skóli. Þann skóla höfum við allir frambjóðendur tekið og þakka ég drengilega og skemmtilega baráttu sem aldrei bar skugga á.

Nú liggur fyrir að mynda sterka ríksstjórn.  Það er í mínum huga einboðið að Sjálfstæðisflokkurinn eigi þar aðild og formaður okkar Bjarni Benediktsson leiði þá stjórn.  Enda er ein niðurstaða kosninganna að engin stjórnmálaleiðtogi nýtur jafn mikils trausts.

Kærar þakkir fyrir skemmtilega októberdaga.

 

Haraldur Benediktsson.

Höf er 1. þingmaður Norvesturkjördæmis og oddviti Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu.

Fleiri aðsendar greinar