
Takk fyrir okkur Vesturland!
María Rut Kristinsdóttir
Vetur konungur fer brátt að kveðja þó að snjó kyngi enn niður og hylur holur í vegum víða um land. Við urðum þess vör í liðinni viku þegar nýr og stærri þingflokkur Viðreisnar lagði land undir fót í rútu um Norðvesturkjördæmi. Við höfðum það að leiðarljósi að hlusta á landsmenn, eiga samtal í augnhæð og kynnast því sem liggur fólki á hjarta.
Norðvesturkjördæmi er stórt og fjölbreytt svæði og það gefur því auga leið að hagsmunir eru ólíkir á milli svæða. Þó er margt sem við heyrðum endurtekið sama hvar við drápum niður fæti, hvort sem það var á Hvammstanga, Laugarbakka, í Skagafirði, Dölunum, á Snæfellsnesi, Akranesi eða Borgarnesi. Vegamál, innviðaskuld, orkumál, landbúnaður, sjávarútvegur og hvernig við fáum fólkið okkar aftur heim.
Við hófum kjördæmaviku á Akranesi. Þar boðuðum við til opins fundar sem gaf okkur góða innsýn í málefni svæðisins. Það er ekki sjálfgefið að fólk gefi sér tíma á mánudagsmorgni til að hitta þingmenn. Það þótti okkur því mjög vænt um. Takk. Að þeim fundi loknum heimsóttum við Heilbrigðisstofnun Vesturlands og fengum mjög góða yfirferð á starfsemi stofnunarinnar. Það var ánægjulegt að sjá að starfsemin gangi vel þrátt fyrir skort á mannafla, en það er mikið áhyggjuefni að ekki sé hvatakerfi til staðar sem kemur heilbrigðismenntuðum út á land. Því ætlum við að huga að.
Þar á eftir lá leið okkar á Hvanneyri í Landbúnaðarháskólann. Þar fengum við að kynnast fjölbreyttu starfi, snæða dýrindis hádegisverð og kíkja í fjósið. Ef þið hafið ekki kíkt í fjósið til þeirra áður getur þingflokkur Viðreisnar í það minnsta mælt með því. Virkilega fróðlegt og ekki skemmir fyrir að þar eru kálfar, hvolpur og kettir til að klappa.
Í Búðardal heimsótti þingflokkur Viðreisnar Mjólkursamsöluna og Vegagerðina og fékk fylgd frá Bjarka, sveitarstjóra, um svæðið. Það var vægast sagt sláandi að heimsækja Vegagerðina í Búðardal. Þar vinna menn alla daga ársins við það að tryggja öryggi vegfarenda eftir bestu getu, í slæmum aðstæðum þar sem þeir leggja líf sitt að veði. Áskoranir þeirra eru margar og það er forgangsatriði Viðreisnar að vegakerfið á Vesturlandi skuli ekki sæta áframhaldandi vanrækslu.
Heimsókninni í Dalina lauk síðan á bragðgóðri lambakjötsveislu í Dalahyttum þar sem við áttum gott samtal við sveitarstjórnarfulltrúa um forgangsröðun vegaframkvæmda, stöðu löggæslumála, orkuöryggi, húsnæðisuppbyggingu og svo lengi mætti telja. Það er mikilvægt fyrir okkur sem starfa á Alþingi að eiga samtal við sveitarstjórnir víða um land sem er í beinni tengingu við þarfir íbúa og fyrir það þökkum við.
Á Snæfellsnesi fórum við víða, þar á meðal á fund sveitarstjórnar í Stykkishólmi, hittum Kristinn, bæjarstjóra í Snæfellsbæ, og Björgu, bæjarstjóra Grundarfjarðar. Í Stykkishólmi buðum við íbúum svæðisins á opinn fund þar sem við lögðum við hlustir. Það lá fólki mikið á hjarta, þar með talið vegamálin, utanríkismál og innviðaskuld. Þessi samtöl í augnhæð gefa okkur dýrmætt veganesti inn í þingveturinn og við þökkum þeim kærlega sem mættu til okkar og tjáðu sinn hug. Við lukum svo heimsókninni í Hólminn með viðkomu í Þórsnesi og kynntumst þar þeim tækifærum og áskorunum sem blasa við rekstri sjávarútvegsfyrirtækis á þessu mikilvæga svæði.
Í Grundarfirði fengum við að kynnast málefnum hafnarsvæðisins, kíktum til systkinanna í G.RUN og á fjölskylduna í Ragnari og Ásgeiri. Það skiptir okkur máli að kynnast þeirri atvinnustarfsemi sem er til staðar á svæðinu og heyra hvað liggur þeim á hjarta – þannig getum við betur unnið að því að tryggja áframhaldandi farsæla starfsemi þeirra.
Við lukum heimsókn okkar í Norðvesturkjördæmi á opnum fundi í Borgarnesi. Þar mætti fjöldi fólks til þess að eiga við okkur samtal. Þar bar helst á umræðu um landbúnað, enda var atvinnuvegaráðherra með í för. Sum hver höfðu einnig mætt á opinn fund okkar á Laugarbakka og það var ánægjulegt að sjá að fólki væri annt um að á þau væri hlustað. Og trúið mér, við hlustum. Við viljum styðja áfram við landbúnað og að hann verði á forsendum bænda en ekki afurðastöðva. Við trúum því að tækifærin séu víða í þeim málaflokki og hlökkum til að halda samtalinu áfram. Kærar þakkir til ykkar sem mættu og leyfðu okkur að hlusta.
Takk fyrir okkur Vesturland, þangað til næst.
María Rut Kristinsdóttir
Höf. er þingmaður Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi

Þingmenn í Hvanneyrarfjósinu ásamt Ragnheiði I Þórarinsdóttur rektor LbhÍ.