Takk fyrir okkur Akranes!

Halla Tómasdóttir

Skaginn skartaði sínu fegursta þegar við Björn heimsóttum bæinn á mánudaginn. Vorbirtan var allsráðandi og aðeins farið að glitta í græna gróðurnál. Golan var ansi köld en hjartahlýja heimamanna bætti það margfaldlega upp. Það er svo gefandi að heimsækja byggðalög sem forsetaframbjóðandi. Að vera boðin velkomin á heimili og vinnustaði, fá að hitta fólk á sínum heimavelli og læra um það sem það er að gera. Sjá heiminn frá nýjum sjónarhóli. Við heimsóttum bæði unga sem aldna. Heimsóttum leikskólana Vallarsel, Akrasel, Teigasel og Garðasel og sáum hvað vel er að börnunum búið bæði hið ytra og innra. Þótt húsnæði og aðbúnaður hafi mikið að segja er það starfsfólkið sem mestu skiptir. Það axlar þá ábyrgð að móta þessar litlu manneskjur á svo næmu og viðkvæmu skeiði. Lengi býr að fyrstu gerð. Ég fylltist öryggiskennd að vita af börnunum í svona góðum höndum.

Við heimsóttum líka elstu borgarana á Höfða og litum við hjá FEBAN, félagsstarfi eldri borgara á Akranesi og nágrenni. Þar áttum við skemmtileg samtöl við hreinskiptið og hlýlegt fólk, sem hefur frá mörgu að segja. Ég hefði viljað hafa miklu lengri tíma til að spjalla við það.

Í hádeginu vorum við í suðupotti nýsköpunar, Breiðinni, þar sem Gísli Gíslason tók á móti okkur ásamt góðu fólki. Þvílíkt umhverfi! Þetta er eins og gróðurhús fyrir vaxtarsprota nýrra fyrirtækja og sköpunar. Aðstaðan er til fyrirmyndar, bæði rými þar sem er næði til að vinna og einbeita sér, sameiginleg fundarherbergi sem hægt er að taka frá og opin rými þar sem fólk getur hist, borðað saman og fundið félagsskap. Það er á svona stöðum sem nýjar hugmyndir verða til.

Klukkan sex vorum við svo með opinn fund í Samfylkingarsalnum, þar sem allir voru velkomnir. Þar mynduðust fjörugar samræður.

Ég þakka fyrir allar spurningarnar og hugmyndirnar sem þar komu fram. Það er mér ómetanlegt að fá að heyra hvers þið væntið af forseta Íslands og hvað hægt er að gera í krafti þess embættis til að gera gott land betra.

Við Björn þökkum fyrir þessar góðu móttökur, það var létt yfir fólki og horfum við með hlýju til Akraness og nágrennis.

 

Halla Tómasdóttir

Höf. er í framboði til embættis forseta Íslands