Tækifærin liggja í Borgarbyggð

Lilja Björg Ágústsdóttir

Sveitarfélagið Borgarbyggð ætlar að standa fyrir fyrirtækjaþingi í febrúar 2020 og eiga samtal við atvinnurekendur í sveitarfélaginu um það hvað þarf að vera til staðar í Borgarbyggð til þess að fjölbreyttur atvinnurekstur geti dafnað og vaxið enn frekar á svæðinu.

Á síðasta ári var álagningarhlutfall fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði lækkað tölvuvert, eða úr 1,55% niður í 1,39% en með því raðast sveitarfélagið í hóp fimm lægstu sveitarfélaganna á landinu miðað við álagningu á þann flokk húsnæðis. Auk þess var ákveðið að veita 50% afslátt af gatnagerðargjöldum, 100% afslátt af lóðargjöldum og ákveðið að minnka iðnaðarlóðirnar við Sólbakka til að gera þær hentugri fyrir minni atvinnurekstur og ná enn frekar niður gjöldum við byggingu á þeim. Einnig er búið að skipuleggja iðnaðarlóðir á Hvanneyri sem henta fjölbreyttri starfsemi.

Töluverð gróska hefur verið í fyrirtækjaflórunni í sveitarfélaginu að undanförnu, en dæmi um nýleg fyrirtæki í sveitarfélaginu eru B 59 hótel, verslunin FOK, Krauma, ísbúð Ömmu Gógó, Food station, Nes fasteignasala, Litla menntabúðin, opnun starfsstöðvar Eflu og fleiri.

En hvernig má stuðla að enn hagfeldara umhverfi fyrir fyrirtækjarekstur, nýsköpun starfa og fjölbreyttu atvinnulífi í sveitarfélögum úti á landi? Sveitarstjórn Borgarbyggðar hefur undanfarið leitað svara við þessari spurningu og fulltrúar velt fyrir sér með hvaða hætti sé hægt að koma enn betur til móts við þarfir atvinnurekenda og fyrirtækja í sveitarfélaginu. Ákveðið var á síðasta ári að stofna nýja fastanefnd í stjórnsýslu sveitarfélagsins sem ber heitið Atvinnu,- markaðs- og menningarmálanefnd. Hefur hún meðal annars það hlutverk að leita leiða til þess að efla samvinnu og samstarf sveitarfélagsins við atvinnurekendur í Borgarbyggð.

Það augljósa sem snýr að sveitarfélaginu er að til staðar þarf að vera góð þjónusta og samfélag sem eftirsóknarvert er að lifa og starfa í. Að álagning sé ekki íþyngjandi og nægt húsnæði í boði.  Við þannig aðstæður blómstrar atvinnulífið, nýir atvinnurekendur kjósa að reka fyrirtæki sín í sveitarfélaginu og hæft starfsfólk rífur upp rætur og flyst þangað búferlum.

Til þess að greina betur þarfir fyrirtækja í Borgarbyggð hefur sveitarfélagið, eins og áður hefur komið fram, ákveðið að standa fyrir fyrirtækjaþingi sem fer fram í febrúar á næsta ári. Verða þá fengnir að borðinu atvinnurekendur í sveitarfélaginu og leitast við að greina betur með hvaða hætti hægt sé að koma enn betur til móts við þennan hóp. Afraksturinn verður síðan nýttur í áframhaldandi vinnu og stefnumótun hjá sveitarfélaginu með það að markmiði að smyrja enn frekar hjól atvinnulífsins og auka samvinnu fyrirtækja á svæðinu.

Það er forsenda þess að samfélag vaxi og dafni að næg atvinna sé til staðar og fjölbreytileiki starfa sé með þeim hætti að sem flestir geti fengið störf við hæfi. Þá er ekki síður mikilvægt að fyrirtæki fái til starfa hæfa einstaklinga með menntun og reynslu til að inna af hendi þau störf sem kunna að falla til. Það verður áhugavert að sjá hvaða tillögur atvinnurekendur í sveitarfélaginu leggja til og hvaða sóknarfæri felast í auknu samstarfi sveitarfélagsins og fulltrúa atvinnulífsins í Borgarbyggð.

 

Lilja Björg Ágústsdóttir

Höf. er starfandi sveitarstjóri í Borgarbyggð