Tækifærin í Norðvesturkjördæmi

Álfhildur Leifsdóttir og fleiri

Norðvesturkjördæmi er einstakt, þar sem stórbrotin náttúra, rík saga og menning mætast. Til að byggja upp öflugt samfélag og skapa jákvæðar framtíðarhorfur, verðum við að nýta þau tækifæri er hér felast. Við í Vinstri grænum leggjum áherslu á vel mannaða heilsugæslu, bættar samgöngur, fjölbreytta atvinnu og verndun náttúrunnar, því þannig leggjum við grunninn að öflugu samfélagi til langframa.

Hornsteinn heilbrigðs samfélags

Öflug heilsugæsla er undirstaða velferðar. Íbúar í Norðvesturkjördæmi standa víða frammi fyrir skertu aðgengi að heilbrigðisþjónustu, þar sem farandlæknar koma aðeins um stundarsakir og hjúkrunarfræðingar halda starfsemi uppi undir miklu álagi. Þetta er óásættanlegt. Við verðum að auka fjárfestingu í heilsugæslu, tryggja fleira heilbrigðisstarfsfólk út á land með endurgreiðslu námslána og nýta tæknilausnir svo sem fjarheilbrigðisþjónustu. Þá leggjum við sérstaka áherslu á geðheilbrigðismál, til að tryggja stuðning fyrir öll sem þess þurfa.

Samgöngur – lífæð kjördæmisins

Öflugar samgöngur eru grundvöllur uppbyggingar og lífvænleika kjördæmisins. Í Norðvesturkjördæmi er brýnt að bæta bæði vegakerfið og almenningssamgöngur, því samgöngur eru stórt byggðarmál. Fyrirtæki treysta á skilvirkar samgöngur til að flytja framleiðslu af landsbyggðinni til markaða og íbúar reiða sig á flutning nauðsynjavara inn á svæðin. En samgöngur snúast ekki einungis um flutning verðmæta eða nauðsynjavara; þær snúast um öryggi og búsetuskilyrði almennings!

Góðar samgöngur tengja saman ólík byggðarlög um landið allt og auka tækifæri fólks til fjölbreyttari atvinnu. Þær bæta aðgengi að menntun og heilbrigðisþjónustu, auk þess sem börn sækja afþreyingu milli byggðarkjarna og ættu ekki að búa við óviðunandi samgöngur í ferðum sínum til og frá skóla í dreifðari byggðum.

Grænn kraftur framtíðarinnar

Landbúnaður er hjartsláttur Norðvesturkjördæmis. Hann er ekki einungis mikilvægur atvinnuvegur, heldur einnig hornsteinn menningar og sjálfbærni. Með því að styðja við bændur og sjálfbæra matvælaframleiðslu getum við skapað fjölbreyttari störf og aukið verðmætasköpun í heimabyggð.

Það er brýn nauðsyn að tryggja bændum réttlát starfsskilyrði, koma á afleysingaþjónustu og efla nýsköpun í greininni með aðgangi að þolinmóðu og sanngjörnu fjármagni. Stuðningur við fullvinnslu afurða, þar sem bændur selja vörur beint til neytenda, getur bæði styrkt samfélagið og dregið úr kolefnisspori. Það þarf að tryggja grænmetisbændum aðgang að orku á sanngjörnu verði til að styðja við sjálfbæra framleiðslu og efla grænmetisrækt

Bændur hafa sýnt mikinn metnað og frumkvæði í náttúruvernd og endurheimt landgæða. Þetta þarf að endurspeglast í stuðningskerfi landbúnaðarins og fjölga verður tekjumögleikum bænda í þessu samhengi svo sem með stuðningi meðal annars til náttúruverndar og endurheimtar votlendis.

Náttúran – dýrmætasta auðlindin

Norðvesturkjördæmi státar af ómetanlegri náttúru, frá ósnortnum víðernum hálendis Vestfjarða til einstaks lífríkis Breiðafjarðar. Við leggjum ríka áherslu á að vernda þessar náttúruperlur með stofnun þjóðgarða á þessum svæðum og tryggja vernd viðkvæmra vistkerfa um allt kjördæmið.

Með því að gera hálendi Vestfjarða og Breiðafjörð að þjóðgörðum getum við tryggt verndun þessara svæða fyrir komandi kynslóðir. Þetta mun ekki einungis stuðla að náttúruvernd, heldur einnig styrkja byggð og atvinnulíf á svæðinu. Þjóðgarðar skapa ný tækifæri í ferðaþjónustu, menningu og fræðslu, auk þess að efla sjálfsmynd okkar og tengsl við náttúruna.

Við megum ekki láta skammtímahagsmuni grafa undan framtíð okkar. Á meðan aðrir stjórnmálaflokkar hyggjast stórauka orkuöflun á kostnað náttúrunnar, stöndum við vörð um landið okkar. Verndun náttúrunnar er ekki hindrun, heldur lykill að sjálfbærri framtíð og blómlegu samfélagi. Að fækka friðlýstum svæðum fyrir orkuöflun er hættuleg vegferð, sem enginn sannur náttúruunnandi ætti að samþykkja.

Lykillinn að framtíðarvexti

Nýsköpun er lykillinn að því að Norðvesturkjördæmi verði hérað sem laðar til sín ungt fólk og skapar spennandi atvinnutækifæri. Með því að styðja við nýsköpun í öllum greinum, hvort sem er í heilbrigðisþjónustu, landbúnaði, sjávarútvegi, ferðaþjónustu eða hátæknigeiranum, getum við lagt grunn að sjálfbæru atvinnulífi og aukið líkurnar á að unga fólkið komi aftur heim.

Framtíðin er í okkar höndum

Tækifærin í Norðvesturkjördæmi eru fjölmörg, en það krefst framsýni og samstöðu að nýta þau til fulls. Með því að leggja áherslu á öfluga innviði og sókn fyrir kjördæmið allt, getum við skapað samfélag þar sem allir íbúar, óháð búsetu, hafa tækifæri til að blómstra.

Við þurfum að standa saman og þrýsta á raunhæfar lausnir. Aðeins þannig tryggjum við að farsæla framtíð kjördæmisins.

Við bjóðum okkur fram í ykkar þjónustu.

Álfhildur Leifsdóttir 1. sæti á lista VG í Norðvesturkjördæmi
Bjarki Hjörleifsson 2. sæti á lista VG í Norðvesturkjördæmi
Sigríður Gísladóttir 3. sæti á lista VG í Norðvesturkjördæmi