Tækifæri í Borgarbyggð

Silja Eyrún Steingrímsdóttir

Þegar leitað var til mín um að skipa annað sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Borgarbyggð fyrir sveitastjórnarkosningarnar í vor kom strax upp í huga minn að um stóra ákvörðun er að ræða.  Jafnframt kom upp í hugann að það er einnig stór ákvörðun að segja nei og sitja hjá.  Ég ákvað að taka þessu góða boði enda frábært tækifæri fyrir konu með brennandi áhuga á samfélagsmálum í héraðinu. Ég hef búið í Borgarnesi síðan 2006, er gift Pálma Þór Sævarssyni og eigum við saman fjögur börn.

Ég tel að sú menntun sem ég hef muni nýtast vel í þágu Borgarbyggðar.  BA í heimspeki, hagfræði, stjórnmálafræði og M.P.A í opinberri stjórnsýslu snertir flesta þætti samfélagsins og þar vil ég leggja mitt af mörkum.

Borgarbyggð er sannarlega sveitarfélag tækifæranna. Fjölbreytni og náttúrufegurð er aðdráttarafl sem þarf að virkja í auknum mæli. Ferðaþjónustan sem og nýting lands undir hverskonar afþreyingu er vaxandi atvinnugrein og nú hyllir undir að vegtollur verði aflagður milli Reykjavíkur og Vesturlands. Við það skapast markaðstækifæri sem við eigum að nýta okkur vel. Við eigum að standa okkur í samkeppninni um atvinnutækifærin hér á þeim hluta landsins sem oft er kallað atvinnusvæði höfuðborgarinnar. Samhliða þeirri sókn viljum við hlúa að því atvinnulífi sem nú stendur undir velferð héraðsins. Þróun landbúnaðar í héraðinu er visst áhyggjuefni og þar munu aðgerðir hins opinbera ráða miklu

Í Borgarbyggð er gott að búa. Rekstur sveitarfélagsins er traustur og því hægt að byggja áfram á því góða starfi sem unnið hefur verið.  Hér höfum við fjölbreytta búsetukosti hvort sem fólk vill búa í þéttbýli eða sveit og allt þar á milli.  Við þurfum að halda áfram að byggja upp þetta sérkenni með því að bjóða fjölbreyttari tegundir lóða sem henta enn fleiri markhópum til dæmis minni lóðir fyrir eldra fólk sem vill minnka við sig og fleiri fjölbýlishúsalóðir til að mæta skorti á litlu og meðalstóru íbúðarhúsnæði í Borgarnesi. Þróa verður skipulagsmál í Borgarnesi með opnum huga þannig að Borgarnes sem helsti þéttbýliskjarni sveitarfélagsins byggist áfram upp með sem bestum og fegurstum hætti. Það mætti til dæmis efla alla íbúa saman í umhverfisátak með aðkomu sveitarfélagsins. Mikið vantar uppá að samgöngur í sveitarfélaginu séu með ásættanlegum hætti og því hljótum við að gera kröfu um að hlutur okkar verði réttur við nú þegar stórátak er boðað í vegamálum. Samhliða því þarf einnig að huga að öryggi innanbæjar með fleiri göngu- og hjólastígum og að tryggja öryggi gangandi vegfarenda við þjóðveginn sem liggur í gegn um bæinn. Þá hyllir einnig undir að netþjónusta verði stórbætt og því ber að fagna.

Starf sveitarstjórna í ekki stærra sveitarfélagi en Borgarbyggð er í eðli sínu ekki flokkspólitískt. Þar eiga allir að leggjast á eitt og vinna saman að því markmiði að bæta samfélagið fyrir alla íbúa sveitafélagsins. Í þeim anda mun ég starfa.

 

Silja Eyrún Steingrímsdóttir.

Höfundur skipar annað sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Borgarbyggð í komandi sveitastjórnarkosningum.