Tækifæri fyrir húsnæði HVE í Borgarnesi

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir

Heilsugæslan í Borgarnesi er ein elsta heilsugæsla landsins og er undirstofnun hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands (HVE). Staðan á heilsugæslunni hefur verið mikið til umræðu undanfarin ár. Aðbúnaður hefur ekki þótt nægilega góður og mannekla hefur skapað sérstakar aðstæður sem bitnað hafa á bæði starfsfólki og íbúum. Svæðið sem heilsugæslan sinnir er mjög víðfeðmt, en mikið er um dulda búsetu á svæðinu vegna fjölda sumarhúsa í Borgarfirði. Húsið, sem heilsugæslan er í, hefur fengið takmarkað viðhald síðustu ár, en ítrekað hefur verið kallað eftir úrbótum.

Sem íbúi á svæðinu og notandi heilsugæslunnar hefur þetta ekki farið framhjá mér og hef ég mikinn áhuga á að finna lausn á þeim vandamálum sem komið hafa upp. Í sumar kom í huga mér hvort hægt væri að nýta þær byggingar sem fyrirhugað er að byggja á sama reit og heilsugæslan stendur á. Þar á að byggja hús sem munu hýsa íbúðir fyrir eldri borgara á vegum Brákarhlíðar og nemendagarða Menntaskóla Borgarfjarðar. Velta má fyrir sér hvort við séum með óvenju gott tækifæri til samvinnu vegna þeirra áforma. Ef hægt væri að nýta rými í þeim byggingum til þess að hýsa heilsugæsluna á meðan húsnæði heilsugæslunnar yrði gert upp þá þyrfti starfsemi heilsugæslunnar ekki að stöðvast á meðan framkvæmdir eiga sér stað.

Með því að færa heilsugæsluna í heild í takmarkaðan tíma væri hægt að fara í allar þær framkvæmdir sem nauðsynlegt er að ráðast í, sem og að gera heilsugæsluna okkar nútímalegri og að betri vinnuaðstöðu á styttri tíma.

Áform um að byggja á þessum reit hafa verið í gangi í töluverðan tíma. Ef farið væri í undirbúning á flutningi heilsugæslunnar núna gæti kostnaðaráætlun og hönnun á heilsugæslunni verið tilbúin þegar framkvæmdum lýkur á nýbyggingu Brákarhlíðar og MB. Því væri hægt að innrétta rými í nýbyggingunni eins og hentaði heilsugæslunni. Þegar framkvæmdum á heilsugæslunni er lokið og hún flutt til baka væri hægt að breyta rými nýbyggingarinnar í það sem upphaflega stóð til og þar með klára það hús.

Í sumar hef ég rætt við starfsfólk og stjórnendur hjá HVE, Brákarhlíð, sveitarstjórnarfulltrúa, íbúa og aðra, til þess að kanna vilja og áhuga á þessu. Hugmyndin er þó ennþá einungis á byrjunarstigi enda augljóst að margir þurfa að koma að verkefninu og því mikilvægt að vilji sé til þess að fara í framkvæmdirnar. Mögulega er til hentugri leið – en svona tækifæri eru ekki oft í boði. Því er mikilvægt að skoða þennan kost alvarlega því þörfin á að bæta stöðuna á heilsugæslunni í Borgarnesi er mikil.

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir

Höf. er alþingismaður Framsóknarflokks í NV kjördæmi.