„…sýnir stefnu Borgarbyggðar í náttúruvernd á friðlýstum svæðum í verki.“

Hilmar Már Arason

Sveitarstjórn Borgarbyggðar samþykkti á fundi sínum 14. maí síðastliðinn að auglýsa tillögu að breyttu aðalskipulagi Borgarbyggðar og tillögu að nýju deiliskipulagi til þess að koma fyrir skotæfingasvæði í landi Hamars. Auglýsingin er í lögbundnu ferli hjá Borgarbyggð og hægt er að nálgast gögn og upplýsingar á slóðinni https://borgarbyggd.is/thjonusta/umhverfis-og-skipulagssvid/skipulagsmal/

Þessi ákvörðun gamla meirihlutans var mjög umdeild og þegar lýsing á breytingatillögunni var kynnt bárust ábendingar og mótmæli frá 134 íbúum, stofnunum og félagasamtökum! Mótmæli hagsmunaaðila voru af ýmsum toga. Íbúar bentu á að tillagan samræmdist ekki aðalskipulagi Borgarbyggðar, uppbyggingu á fólkvanginum, öryggisþáttum og starfsemi sem er innan og við fólkvanginn. Einnig var vitnað til hljóðmengunar, öryggismála, náttúruupplifunar, stærðar sveitarfélagsins, til náttúru fólkvangsins og bent á hve stutt er í æskulýðsstarf, mannvirki og náttúrufyrirbrigði. Jafnframt bárust athugasemdir vegna nálægðar við atvinnustarfsemi. Íbúar í Lækjarkoti lýstu yfir andstöðu sinni, en í Lækjarkoti er rekin öflug ferðaþjónusta, listagallerí og járnsmiðja sem skapar fjölda starfa. Íbúar Lækjarkots lýstu því yfir að staðsetning skotæfingasvæðisins kippti fótunum undan rekstri þeirra, ef af þessari ákvörðun yrði þyrftu þau að bregða búi og flytja sig um set með starfsemi sína. Sveitarfélagið er skaðabótaskylt fyrir því tjóni sem þessi framkvæmd kann að kosta.

Skemmst er frá því að segja að athugasemdum var ekki svarað, ekki var tekið tillit til þeirra við breytingu á aðalskipulaginu né við gerð deiliskipulagsins og ekkert samráð var haft við hagsmunaaðila sem hafa nýtt svæðið í tugi eða hundruði ára! Ekki minnsta tilraun gerð til að leita sátta – þó er málið búið að vera í vinnslu hjá Borgarbyggð síðan 2013. Slík vinnubrögð kalla á óánægju og reiði íbúa sem kom fram í undanfara síðustu sveitarstjórnarkosninga í Borgarbyggð og úrslitum þeirra. Meirihluti Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks féll en myndaði nýjan meirihluta, með Vinstrihreyfingunni  – grænu framboði að kosningum loknum, sem ætlar sér að halda málinu til streitu.

Töluvert er búið að skrifa um þetta mál og hef ég reynt að halda utan um þau skrif á vefnum https://folkvangurinneinkunnir.weebly.com/. Það sem mestu máli skiptir í þeirri umræðu er að skotæfingasvæðið fer ekki saman við þá starfsemi sem fyrir er á svæðinu og hefur verið þar í tugi og/eða hundruði ára. Má þar nefna að það verða:

  •     150 m í fólkvanginn í Einkunnum (167,5 dB)
  •     400 m í næstu reið- og gönguleiðir (155 dB)
  •     800 m í Álatjörn sem er vinsæll útivistarstaður (135 dB)
  •    1000 m í skátaskála (125 dB)
  •    1300 m í Lækjarkot (95 dB)

Það kemur fram í deiliskipulagstillögunni að skothvellir verða allt að 175 dB (geti orðið meiri þegar skotið verður á öllum fimm riffilbrautunum í einu) og hljóðstyrkurinn lækkar um 5 dB við hverja 100 metra (tölur í sviga hér að ofan sýna þann hávaða sem reikna má að heyrist þegar hleypt verður af). Samkvæmt reglugerðarbreytingu B nr. 832 2016, þá eru sársaukamörk skilgreind við 140 dB þannig að þau sem verða á ferðinni í Einkunnum, eða verða á reið- eða gönguleiðinni og eru ekki með heyrnarhlífar, mega reikna með því að verða fyrir heyrnarskemmdum, samkvæmt sömu reglugerðarbreytingu!

Hljóðmælingaskýrslan sem deiliskipulagstillagan byggir á er ómarktæk þar sem ekki kemur fram gerð skotvopna sem notuð voru við prófanirnar, skotvopnin sem notuð voru við hljóðmælingarnar voru ekki hljóðmæld, ekki haft samráð við hagsmunaaðila við val á mælistöðum, fjarlægða frá mælistöðum að skotstað ekki getið, veðurskilyrði voru óhagstæð þegar mælingar fóru fram og hvorki var starfsmaður Borgarbyggðar né annar óvilhallur aðili fenginn til að vera viðstaddur þegar hleypt var af skotunum.

Að þessu sögðu hvet ég nýja sveitarstjórn Borgarbyggðar til að hverfa frá þessari framkvæmd og horfa fram á veginn. Nýta þau tækifæri sem eru falin í því að virkja náttúruna og auðlindir hennar á jákvæðan hátt t.d. með því að að byggja upp fleiri útivistarsvæði (t.d. í samstarfi við Skógræktarfélag Borgarfjarðar) þar sem hægt er að njóta náttúru, náttúruhljóða og kyrrðar, með því að koma upp fleiri friðlýstum svæðum líkt og Einkunnum. Dæmin hafa sýnt að þjóðgarðar og friðlýst svæði eru auðlindir framtíðarinnar sem færa nær samfélögum sínum góðar tekjur og ný atvinnutækifæri.

Það að setja skotæfingasvæði niður í 150 m fjarlægð frá eina fólkvangi Vesturlands og í 5 km fjarlægð frá Hvanneyri sem er friðlýst og hefur hlotið viðurkenningu sem Ramsarsvæði, alþjóðlegt búsvæði fugla – sýnir stefnu Borgarbyggðar í náttúruvernd á friðlýstum svæðum í verki. Þessi gjörningur rýrir mörg tækifæri fyrir sveitarfélagið, íbúa, stofnanir og fyrirtæki þess þegar til lengri tíma er litið, s.s. í umræðunni um staðsetningu Þjóðgarðastofnunar sem á eftir að ákveða hvar verður staðsett. Rétt er að geta góðrar greinar Höllu Signýjar Kristjánsdóttur, þingmanns Vesturlands, í Skessuhorni þann 5. desember sl., um málið.

Hvet ég alla þá sem skilað hafa inn athugasemdum að gera það aftur og þeim sem ekki hafa skilað inn athugasemdum er velkomið að ganga í mína smiðju og nota rök sem hafa komið fram í greinum mínum og eru á heimasíðu fólkvangsins. Athugasemdir og ábendingar skulu vera skriflegar og berast eigi síðar en mánudaginn 21. janúar 2019 í Ráðhús Borgarbyggðar, Borgarbraut 14, 310 Borgarnesi eða á netfangið borgarbyggd@borgarbyggd.is.

Að lokum óska ég Vestlendingum gleðilegs nýs árs og þakka samskiptin á liðnum árum.

 

Hilmar Már Arason.

Höf. er fyrrverandi formaður umsjónarnefndar fólkvangsins í Einkunnum.