Svik að standa ekki við gefin loforð í vegamálum

Jón Bjarnason

Löngu er tímabært að fella niður gjaldheimtuna um Hvalfjarðargöng og að þau verði hluti af almennu þjóðvegakerfi landsins.

Gjaldheimtan hefur reynst ein mesta töf fyrir umferð á álagstímum og takmarkað umferðarafköst ganganna. Fráleitt er að fela einkaaðilum að maka áfram krókinn á rekstri ganganna eða öðrum hliðstæðum samgöngumannvirkjum. Ríkið hefur innheimt virðisaukaskatt af veggjöldunum án þess að bera nokkurn kostnað af rekstri ganganna. Þar eru nokkrir milljarðar sem gætu þegar nýst í að tvöfalda veginn um Kjalarnes eins og lofað var fyrir síðustu kosningar af öllum stjórnmálaflokkum.

Eða fara milljarða ríkistekjurnar af vegfarendum Hvalfjarðarganga til að greiða óráðssíuna við gerð Vaðlaheiðarganga sem ekki sér fyrir endann á, göng sem aldrei voru á samgönguáætlun?

Ekki er hægt að bera við fjárskorti til að standa ekki við loforðin sem allir flokkar gáfu á sl. ári í samgöngumálum, því að síðan þá hafa tekjur ríkissjóðs aukist um tugi milljarða.

Ferðaþjónustan, sem m.a. nýtir þessa vegi, skilar 535 milljörðum króna í gjaldeyristekjur til þjóðarbúsins á sl. ári.

Það er bein veruleikafirring og alvarleg svik af hálfu Alþingis og þerra sem þar ráða ferð að standa ekki við gefin loforð í vegamálum.

 

Jón Bjarnason, fv. ráðherra.