Sveitarstjórnarmenn þurfa að girða sig í brók í sorpmálum

Sigurður, Guðmundur og Þorkell skrifa

Þriðjudaginn 12. mars síðastliðinn efndi Sorpurðun Vesturlands til kynningarfundar í Félagsheimilinu Lyngbrekku. Hrefna B Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Sorpurðunar Vesturlands hf., og Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur hjá UMÍS ehf. Environice, kynntu þar áform Sorpurðunar Vesturlands hf. um að fá að auka heimild til þess að urða sorp í landi Fíflholta úr 15.000 tonnum í 25.000 tonn á ári. Einnig sátu fundinn núverandi starfsmenn Sorpurðunar Vesturlands, þeir Þorsteinn Eyþórsson og Benjamín L Fjeldsted. Á fundinum sýndi Jón Guðbrandsson nokkrar myndir sem teknar voru umhverfis urðunarsvæðið. Fundurinn var vel sóttur af nágrönnum Fíflholta, en vakti lítinn áhuga hjá þeim sem búa lengra frá.

Mikil óánægja kom fram hjá fundarmönnum um það ástand sem er og verið hefur undanfarið, á og við urðunarstaðinn. Gríðarlega mikið af rusli hefur fokið og dreifist um allar jarðir umhverfis urðunarsvæðið. Einnig sækir mikið af fugli að urðunarstaðnum, sem gerir mikinn skaða á heyrúllum bænda í nágrenninu. Nágrannar hafa jafnframt miklar áhyggjur af því hvað fast er sótt í að koma sorpi af öðrum svæðum til urðunar í Fíflholtum. Má þar nefna að sorp af Vestfjörðum kemur í Fíflholt og hefur komið þangað síðustu átta árin síðan sorpbrennslustöð á Ísafirði var lokað og hlaupið var tímabundið undir ruslabagga frá Vestfirðingum. Ekki bólar mikið á aðgerðum þar á bæ til þess að verða sjálfum sér nógir í förgun á sorpi.

Heyrst hefur að Sunnlendingar séu líka farnir að renna hýru auga til Fíflholta, með að losna við sinn úrgang. Mun hafa verið tekið við einhverju af þeirra rusli, svona til að redda þeim aðeins.

Svo virðist vera sem að sveitarstjórnarmenn á svæði Sorpurðunar Vesturlands hf. séu algerlega metnaðarlausir hvað meðferð á sorpi viðkemur. Flokkun og endurnýting í algerum ólestri. Segja bara við Vestfirðinga og bráðum Sunnlendinga: „Við skulum taka við öllu ykkar drasli. Þið borgið fyrir, það lækkar urðunarkosnaðinn hjá okkur, komið með það í Fíflholt, og látum það fjúka yfir Mýramenn.  Fitum Krumma og Rebba og ekki sakar að kvikni í öðru hverju og reykjarbrælan kæfi nágrannana, það eykur plássið svo að það er hægt að taka við rusli af stærra svæði.“

Við Mýramenn mótmælum því algerlega að aukið sé það magn sem urðað er í Fíflholtum. Sveitarstjórnarmönnum á svæði frá Hvalfirði í suðri og til Gilsfjarðar í norðri, er fjandans nær að girða sig í brók og koma flokkun á sorpi í sínum sveitarfélögum í viðunandi horf, og hætta að taka við ruslinu annars staðar frá.

Það er líka forkastanlegt að ríkisstjórn sem hefur ungan og kraftmikinn umhverfisráðherra innanborðs, skuli ekki taka á sorpmálum af meiri festu, með því að hefja undirbúning á að byggja nýja og fullkomna sorpbrennslustöð. Þar sem hægt er að nýta alla orku úr óendurnýtanlegu sorpi, til raforkuframleiðslu og húshitunar.

Það má benda þessu fólki sem gefið hefur kost á sér til þess að stjórna fyrir okkur hin, hvort sem er á landsvísu eða á sveitastjórnarstigi, að lesa grein sem Hörður Kristjánsson ritstjóri Bændablaðsins birti í Bændablaðinu 14. febrúar síðastliðinn. Þar sem hann segir m.a: „Sorp í miklu magni er óhjákvæmileg afleiðing neyslusamfélagsins. Í hugum margra er það líka stórkostlegt vandamál sem erfitt er að takast á við. Aðrir líta á sorp allt öðrum augum, nefnilega að í því felist mikil og verðmæt hráefni sem hægt sé að umbreyta á ný í nýtanlegar og eftirsóttar afurðir.“

Hörður segir þarna frá glæsilegri sorpbrennslustöð, sem Danir hafa nýverið tekið í notkun í Kaupmannahöfn, þar sem öllum úrgangi er breytt á ný, í nýtanlegar afurðir. Auk þess að gegna hlutverki skíðabrekku og klifurveggs, enda ekki mikið um háar skíðabrekkur í Danmörku. Einnig talar hann um ýmsar aðrar útfærslur á sorpvinnslu, í ýmsum stærðum, sem verið er að þróa, til dæmi í Kína. Sem myndu kannski passa betur hér á landi.

Lausnirnar eru til og með ólíkindum að þeir sem með völdin fara, sjái enga aðra leið en að grafa holu, sturta verðmætunum ofaní og moka mold yfir, með tilheyrandi mengun og óþrifnaði.

Í nýrri umhverfisstefnu ríkisstjórnar virðist aðeins horft á innkaupapoka og dísilbíla. Leggja skatt á dísilbíla. Þeir geta borgað sem búa á landsbyggðinni og þurfa að keyra margar ferðir, eftir ónýtum vegum, með börnin sín í skóla, á íþróttaæfingar og aðrar uppákomur sem þarf til þess að koma börnum til manns nú til dags. Okkur ber jú skylda til, að skila landinu hreinu, en ekki fullu af drasli til næstu kynslóða, og ekki síður íslensku búfjárkynjunum heilbrigðunum.

Látum fylgja með ályktun sem samþykkt var á fyrrnefndum fundi.

Sigurður Jóhannsson, Kálfalæk

Guðmundur Þorgilsson, Skiphyl

Þorkell Guðbrandsson, Furumel.

 

Ályktun þar sem m.a. auknu sorpmagni er mótmælt

Kynningarfundur Sorpurðunar Vesturlands haldinn í Lyngbrekku 12. mars 2019, samþykkir svohljóðandi ályktun:

„Fundurinn krefst þess að við endurnýjun starfsleyfis urðunar í Fíflholtum verði gerðar auknar kröfur um verklag við urðunina.

  • Sett verði net umhverfis svæðið sem urðað er hverju sinni, eins og gert var í upphafi til að hefta fok af svæðinu.
  • Tekin verði sýni reglulega úr frárennsli frá svæðinu og gerðar viðeigandi ráðstafanir til úrbóta standist sýnin ekki kröfur um innihald mengandi efna í frárennslinu.
  • Unnið verði skipulega að því að halda vargfugli frá svæðinu.

Fundurinn mótmælir harðlega áformum um að auka það magn sorps sem urðað sé í Fíflholtum, með því að taka til urðunar sorp frá öðrum svæðum.

Fundurinn skorar á umhverfisráðherra og ráðherra um málefni barna, að þeir beiti sér fyrir því í ríkisstjórn, að gerð verði ný og framsækin áætlun um endurvinnslu og eyðingu á sorpi. Þar sem unnið sé að markvissri flokkun og endurnýtingu, jafnframt því sem reistar verði fullkomnar sorpbrennslustöðvar ein eða fleiri. Þar sem öll orka sem til fellur verði nýtt til húshitunar eða annarra nota og allar mengunarvarnir eru í fullkomnu lagi.

Stefnt sé að því að hætta allri urðun á sorpi, eins fljótt og hægt er.“

Fleiri aðsendar greinar