
Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar fær ábendingar og tillögur vegna fjárhagsáætlunar
Anna Guðrún, Áskell og Jóhanna
Fyrir skömmu setti sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar texta á heimasíðu sína þar sem þess var getið að hafin væri; „vinna við gerð fjárhagsáætlunar Hvalfjarðarsveitar fyrir árin 2026–2029“ og er íbúum Hvalfjarðarsveitar gefinn kostur á að senda inn ábendingar og tillögur í tengslum við þá vinnu. Fram kom í textanum að; „Allar tillögur og ábendingar verða teknar til skoðunar við gerð fjárhagsáætlunar. Ábendingar geta t.d. snúið að nýjum verkefnum, tillögum til hagræðingar í starfsemi Hvalfjarðarsveitar, verkefnum sem leggja þarf áherslu á eða annað sem íbúar telja mikilvægt að taka til skoðunar.“
Við undirrituð fögnuðum þessu framtaki sveitarstjórnar sem er í góðu samræmi við það sem sumir núverandi meðlima sveitarstjórnar sögðu fyrir síðustu kosningar. Auk þess sem þetta bréf fer til sveitarstjórnar verður beðið um birtingu á því í Skessuhorni. Þá fer það einnig á Facebook. Ástæðan er einfaldlega sú að við trúum á almenna umræðu og að opinber birting bréfsins geti stuðlað að því að fólk í sveitarfélaginu velti málum sveitarfélagsins meira fyrir sér. Þar vitum við að sveitarstjórn er okkur sammála.
MIKILVÆG VERKEFNI
Nr. 1.
Lagning vegar milli Melahverfis og skólans/íþróttahúsins. Líklega má finna tillögu um svona veg í opinberum plöggum en eftir að nýtt íþróttahús kemur til sögunnar mun umferð að því aukast. Ekki síst verður þetta fólk sem býr í Melahverfinu enda gert ráð fyrir að byggja allnokkurn fjölda íbúðarhúsa í Melahverfi á næstu árum. Börn og fullorðnir munu án efa hjóla á milli Melahverfsins og skólans ef vegur verður lagður þarna á milli. Þetta var rætt fyrir nokkrum árum í sveitarstjórn en síðan er eins og umræðan hafi lognast útaf. Hefur sveitarstjórn t.d. rætt málið við Vegagerðina um svona vegarlagningu?
Nr. 2.
Útkeyrsla frá Melahverfi er síður en svo nógu örugg. Bílar koma úr báðum áttum á mikilli ferð og það verður að laga aðkomuna að Melahverfi. Vel má vera að opinberir aðilar s.s. Vegagerðin hafi gert tillögur um breytta aðkomu, en skorti fjármagn í verkið. Spurning hvort Hvalfjarðarsveit geti lánað Ríkinu peninga á þokkalegum vöxtum svo hægt sé að laga þessa slysagildru. Það er óskiljanlegt að ekki hafi orðið stórslys nú þegar á þessum gatnamótum. Líklega hangir þessi útkeyrsla á framtíðarskipulagi Vesturlandsvegar – en slysagildran er slík að það þarf gera eitthvað áður en skaðinn er skeður.
Nr. 3.
Tengivegur /stígur á milli Álfholtsskógar og Melahverfis. Vegurinn þarf að liggja undir þjóðveginn. Tilgangurinn er að gera íbúum kleift að fara gangandi, hjólandi og með barnavagna á milli þéttbýlisins og skógarins. Hugsanlega má vinna þetta verk samhliða betri og hættulausri inn-/útkeyrslu í Melahverfið.
Nr. 4.
Bílastæði fyrir þá sem vilja taka almenningsvagn til höfuðborgarinnar. Slíkt stæði gæti verið hjá gatnamótun Melahverfis og Vesturlandsvegar.
Nr. 5.
Hver er staðan varðandi byggingu leikskóla í Krosslandinu?
Nr. 6.
Göngustígur við Eiðisvatn. Það sem lagt var í sumar ber þeim gott vitni sem unnu verkið. Yfirborð þess sem gert var í sumar er annað og betra en fyrri parturinn. Spurning hvort sveitarstjórn geti ekki séð til þess yfirborð vegarins verði allt jafn gott? Hvað gerir áætlun sveitarfélagsins ráð fyrir að þessi vegur verði langur þegar upp er staðið og hvenær lýkur verkinu? Mun sveitarstjórn sjá til þess að sett verði upp skilti þar sem kemur að vegurinn hjá Eiðisvatni sé ekki ætlaður hestamönnum á reiðskjótum sínum?
FUNDIR SVEITARSTJÓRNAR MEÐ ÍBÚUM
Nr. 7.
Íbúafundir í febrúar og september. Íbúar vilja heyra í fulltrúum sínum í sveitarstjórn – bæði um mál sem eru í vinnslu og mál sem munu koma á borð sveitarstjórnar. Hér er hvatt til almenns fundar um fjárhagsáætlun Hvalfjarðarsveitar sem fyrst og síðan almennan fund í febrúar.
Í áætluninni er – samkvæmt orðsins hljóðan – fjallað um framtíðina og fjárhag Hvalfjarðarsveitar. Það gæti verið áhugavert að heyra forsvarsmenn helstu nefnda ræða málin út frá sjónarhóli nefndanna en fá svo oddvita til að horfa á heildina og taka saman umræðuna. Nefndir á vegum sveitarfélaga eiga sér flestar – ef ekki allar – óskalista. Það væri áhugavert að fá að heyra af þessum óskalistum!
Fundir með íbúum Hvalfjarðarsveitar eru síður en svo tímasóun og málin sem brenna á fólki skipta samfélagið máli.
Opin stjórnsýsla og íbúafundir geta gert ótal margt gott fyrir sveitarfélagið. Ef kjörnir fulltrúar segja frá því sem er framundan og eiga uppbyggjandi skoðanaskipti við fólkið sem kom þeim í embættin, má ætla að hlutirnir gangi mun betur en ella.
25% ÍBÚA
Nr. 8.
Hluti af virku íbúalýðræði er að íbúarnir geti haft áhrif á gjörðir – eða aðgerðarleysi – sveitarstjórnar. Mikilvægt er að 25% kosningabærra manna geti krafist atkvæðagreiðslu um mikilvæg og umdeild málefni. Ákvæði af þessu tagi ætti að vera í málefnasamningi sveitarstjórnar – jafn þeirrar sem nú situr og þeirrar sem verður kosin næsta vor. Íbúar verða að eiga þann möguleika að stíga á bremsurnar ef þeim sýnist að á því sé þörf.
MIKILVÆGT AÐ TAKA TIL SKOÐUNAR
Nr. 9.
Fréttabréf sveitarstjórnar koma ekki í staðinn fyrir íbúafundi. Formenn nefnda hafa fram til þessa ekki nýtt sér vettvanginn, fréttabréfið, til að fjalla um sínar nefndir sem sannarlega gegna mikilvægu hlutverki.
Fundargerðir sveitarstjórnar. Ef fólk vill fylgjast með störfum sveitarstjórnar fer það eðlilega í fundargerðir og kannar málið. Vandinn er hins vegar sá að í Hvalfjarðarsveit tíðkast að hafa þær svo fáorðar að þær gagnast lítið nema innvígðum sem vita allt um málin hvort sem er. Við leggjum til að fundargerðir sveitarfélagsins verði gerðar efnismeiri; umræður raktar og upplýsandi efni sem nefndir fengu um mál séu tengd fundargerðunum. Innihaldsrýrar fundargerðir eru kjósendum ekki til nokkurs gagns. Þá þarf að taka upp fundi sveitarstjórnar og setja á netið svo hægt sé að hlusta á umræður.
Þegar litið er á það sem sagt var fyrir síðustu kosningar er ljóst að núverandi sveitarstjórnarmenn eru sammála því að gott samtal kjörinna fulltrúa og íbúa skiptir miklu máli. Í kosningabaráttunni 2022 lofuðu margir frambjóðendur samstarfi og samtali við íbúana. Betur má ef duga skal.
Nr. 10.
Ekki er til húsnæði í sveitarfélaginu fyrir sýningar og aðra menningarstarfsemi. Starfsemi af þessu tagi er hornsteinn hvers sveitarfélags. Hægt er að samtvinna aðstöðu eldri borgara og góðan sýningarsal en íþróttahús og listsýningar – svo dæmi sé tekið – eiga ekki samleið.
Ef ekki er hægt að hýsa listsköpun Hvalfirðinga (og gesta þeirra) á fullsæmandi hátt í nýja húsinu verður að skoða önnur úrræði. Og við eigum hús. Annars vegar Hlaðir og hin vegar leikskólann í Melahverfi. Bæði húsin eru hluti af sögu og menningu Hvalfjarðarsveitar sem ber að virða.
Nr. 11.
Í upphafi var fulltrúum eldri borgara í Öldungaráði lofað að þeir fengju að sjá teikningar af nýja húsinu og leggja sitt af mörkum til skipulags. Enginn fundur hefur enn verið haldinn um hugsanlega aðstöðu eldri borgara í húsinu.
Þegar fréttist að byggja ætti nýjan leikskóla í Melahverfi fór stjórn Félags eldri borgara fram á það að fá núverandi húsnæði skólans þegar það losnaði. Svarið við því var þvert nei, þar sem þarna ætti að rísa íbúðarhúsnæði og eldri borgarar mundu fá pláss í nýja íþróttahúsinu.
Tómstundahúsnæði fyrir eldri borgara er annað og meira en einn salur með borðum og stólum. Þetta verður að vera húsnæði þar sem eldri borgarar ráða ríkjum og geta sett upp tæki og tól fyrir handverk og föndur. Verkfæri og það sem unnið er með þarf að fá að vera í friði og alltaf aðgengilegt. Sem dæmi um glæsilega aðstöðu eldri borgara er hús sem þeir hafa út af fyrir sig í Ólafsvík.
Nr. 12.
Hér er lagt til að íbúar sveitarinnar fái aftur húsnæðið á Hlöðum. Hlaðir eru á margan hátt mun betri fyrir samkomuhald íbúa Hvalfjarðarsveitar en Miðgarður.
Nr. 13.
Vatnsleikfimi eldri borgara í Heiðarborg liggur niðri allt sumarið en eldra fólk þarfnast reglulegrar hreyfingar allt árið. Sundlaugin á Hlöðum nýtist ekki eldra fólki enda full af börnum og ferðafólki allt sumarið. Sundlaugin í Heiðarborg þarf að vera opin allt árið.
Sveitarfélagið ætti að bjóða eldri borgurum frístundastyrk – rétt eins og yngri kynslóðum. Þar með gætu þeir sem eldri eru sótt námskeið innan sem utan sveitarfélagsins.
Nr. 14.
Álfholtsskógur er einn fallegasti útivistarskógur landsins. Framsýni og dugnaður þeirra sem hófu verkið á liðinni öld er aðdáunarvert og þeir sem tóku við kyndlinum þegar leið á öldina ræktuðu skóg sem vekur athygli fyrir vandaða vinnu. Hér er minnst á Álfholtsskóg vegna þess að skógurinn er með dýrmætustu perlum sveitarinnar.
Nr. 15.
Það hefur vakið athygli margra að farsímasamband inni í Miðgarði er ekkert. Gott símasamband er öryggisatriði.
Hvalfjarðarsveit 29. september 2025,
Anna Guðrún Torfadóttir
Áskell Þórisson
Jóhanna Harðardóttir