Sveitaball verður í Röðli næstkomandi laugardag

Þorgrímur Einar Guðbjartsson

Gjörningur í minningu Hreins Friðfinnssonar listamanns

Í ár eru liðin 60 ár frá því starfsferill Hreins Friðfinnssonar, sem listamanns, hófst fyrir alvöru. Hreinn lést fyrr á þessu ári, 81 árs að aldri. Hann var frá Bæ í Miðdölum í Dalasýslu, fæddur árið 1943. Ungur lærði hann myndlist og hafði í sex áratugi unnið að listsköpun sinni í Amsterdam í Hollandi, eða allt frá árinu 1971. Á þessum 60 árum hefur hann verið óhræddur við að fara nýjar slóðir í listsköpun sinni og fyrir vikið hlotið mikla athygli og verðskuldað lof fyrir mörg verka sinna. Það sést best á því hve víða honum hefur verið boðið að sýna verk sín og þar á meðal á mörgum af hinum virtustu galleríum um víða veröld.

Í tilefni af þessum tímamótum hófum við Helga að undirbúa þrjá gjörninga sem okkur langaði að framkvæma, honum til heiðurs og höfðum við samband við hann á síðasta ári til að ræða við hann hvort að við fengjum hans leyfi fyrir því, sem svo var auðsótt. Við skoðuðum aðeins uppruna Hreins, en hann er fæddur og upp alinn hér í Miðdölum og sem ungur maður starfaði hann tvö sumur sem girðingarvörður með mæðuveikisgirðingunni milli Dala-, Mýra- og Hnappadalssýslna. Þessu verki sinnti hann fótgangandi, annan hvern dag um það bil 45-50 kílómetra leið. Ákváðum við strax að við skyldum efna til göngu um Jónsmessuleyti og freista þess að ganga þennan spotta á einum degi.

Gangan fór fram umræddan dag í þoku og votviðri, en af þeim sökum var einungis gengið frá Bröttubrekku að Sópandaskarði og göngufólk ferjað þaðan niður að bæjum í Hörðudal, af félögum í björgunarsveitinni Ósk. Alls tóku 18 manns þátt í þessum gjörningi.

Þá var númer tvö að standa fyrir lítilli sýningu á einhverjum verka hans í Sælukotinu Árbliki. Tók hann einnig strax vel í þá hugmynd og setti vinnu af stað meðal síns samstarfsfólks um val á verkum og fleira því tengdu. Sýningin á að standa frá 7. júlí til 18 ágúst.

Um 60 manns komu á opnun sýningarinnar og þó nokkrir hafa gert sér ferð í Dali vestur til að sjá þessa sýingu, en hér eru m.a. ljósmynda verk og vídeóverk.

Þriðji gjörningurinn er svo hugmynd sem kom frá Hreini sjálfum. Hann hafði sett upp drög að verkinu Sveitaballi, sem átti að framkvæma á listahátíð í Reykjavík 1972, en varð ekki af. Allar götur síðan hefur hann verið með þennan gjörning á vinnuborðinu hjá sér og hugsað sér að koma honum í framkvæmd við tækifæri.

Gripum við þessa hugmynd strax á lofti og ræddum við útfærslu á honum í nokkrum samtölum, en einna erfiðast var að finna honum viðeigandi stað til framkvæmdar.

Sveitaball er eins og við þekkjum samkoma þar sem fólk kemur saman, tekur sporið, sýpur á, en umfram allt skemmtir sér saman. Eftir þó nokkra leit fundum við húsnæði, sem er einmitt sérstaklega byggt fyrir svona samkomur, þar sem fólk kom saman, skemmti sér og svo var skellt í ball.

Gjörningurinn Sveitaball er endurgerð á þeirri stemningu sem skapaðist með einu hljóðfæri í litlum sal á árunum milli stríða og fram eftir tuttugustu öldinni. Því var ljóst að ekki kæmi til greina að reyna að framkvæma hann í félagsheimilum nútímans og því var leitað í öllum heystökkum að nál, sem loksins fannst svo á Skarðsströnd í Dölum.

Skarðsstrendingar byggðu samkomuhús um 1940 að Hvalgröfum, sem liggja um miðja sveit og kallaðist húsið Röðull. Þar voru haldnir fundir og samkomur og um nokkurra ára skeið var þar haldið réttarball. Síðasta ballið var þar haustið 1964, en það var réttarball.

Höfðum við samband við umsjónaraðila hússins og var strax samþykkt að við mættum nota það fyrir gjörninginn. Niðurstaðan er því sú að laugardaginn 17. ágúst nk. verður haldið töðugjaldaball á Röðli, þar sem nokkrir félagar úr harmonikkufélaginu Nikkólínu munu skiptast á að spila fyrir dansi. Ballið hefst klukkan 21 og lýkur kl. 23. Markmiðið er eins og áður segir að skapa tækifæri fyrir fólk að koma saman, eiga glaða stund, stíga nokkur dansspor og upplifa hina einu sönnu ágústnótt. En ágústkvöldin eru oft hin fallegustu við Breiðafjörð og þar kvikna oft ný tækifæri hjá mörgum, þegar samdráttur sumarsins nær hámarki og ungir elskendur geta loksins farið að fela sig í myrkrinu og njóta sinna sælustu stunda áður en haustverkin og kaldur veturinn húmar að.

 

Þorgrímur Einar Guðbjartsson á Erpsstöðum

Félagsheimilið Röðull.