
Svarbréf við lokasvari Hvalfjarðarsveitar
Ólafur Óskarsson
Björgum sveitinni
Sveitarstjórn Hvalfjarðar kýs að bæta litlu við af nýjum svörum við ítrekuðum fyrirspurnum okkar og ósk um valmöguleika um veg fyrir Grunnafjörð samhliða öðrum kostum sem kynntir hafa verið. Sveitarstjórnin lætur sem þetta komi ekki sveitarfélaginu við, það sé eingöngu mál Vegagerðarinnar. Furðulegt samt að grípa ekki tækifærið og samþykkja ágæta tillögu minnihluta sveitarstjórnar þeirra Elínar Óskar Gunnarsdóttur og Rögnu Ívarsdóttur um að bæta valkosti við um Grunnafjörð. Auk þess sem það eru einnig fleiri sem hafa óskað eftir að þeirri leið væri bætt við.
Við vorum búin að átta okkur á þessari skoðun sveitarstjórnar fyrir allnokkru síðan. Við undirrituð ásamt fleiri aðilum höfum því einnig verið í sambandi við fulltrúa Vegagerðarinnar, átt fundi með þeim bæði í Borgarnesi og einnig í höfuðstöðvum Vegagerðarinnar. Það er ánægjulegt að geta sagt frá því að á síðast fundi okkar þann 22. mars með Bergþóru Þorkelsdóttur vegamálastjóra og hennar samstarfsfólki þá kom skýrt fram að Vegagerðin mun bæta Grunnafjarðarleiðinni inn sem valkosti. Mjög ánægjuleg niðurstaða. Það er samt sem áður löng leið framundan þar til að endanlegar tillögur um vegalagninguna liggja fyrir. Mikil vinna við skýrslur, hönnun, kostnaðargreiningar, umhverfismat og margt fl. Að því loknu verða tillögur sendar meðal annars til sveitarstjórnar til umsagnar. Vonandi að þá verði vel tekið á móti tillögunum og þær afgreiddar málefnalega af þeirri sveitarstjórn sem þá verður við störf.
Eins og fram kemur í svari sveitarstjórnar þá er ekki fyrirhugðað að gefa bréfritara frekari svör eða veita frekari upplýsingar varðandi vegabæturnar. Ekki eru gerðar athugasemdir við það, enda augljóslega mun áhrifaríkara að ræða beint við starfsfólk Vegagerðarinnar. Undirritaður vonast samt sem áður eftir góðu samstarfi við sveitarfélagið um uppbyggingu í þessari fallegu sveit og að sveitarstjórnin svari þeim erindum sem þeim kunna að berast frá undirrituðum. Þó svo að allir möglegir kostir fyrir vegalagnigu verði skoðaðir, þá er mjög mikilvægt að sem flestir láti í sér heyra, sem gæti haft áhrif á loka niðurstöðuna, hvaða kostur verður valinn. Þá verður væntanlega ekki bara horft í krónur og aura heldur margir aðrir þættir teknir inn í jöfnuna. Einnig er mikilvægt að t.d. sveitarstjórnarmenn í nágranna sveitarfélögunum, núverandi og einnig þeir sem verða í framboði í vor, skoði málið vel og láti í sér heyra, það eru jú þeir sem eiga að vinna að hagsmunum okkar kjósenda. Mér finnst t.d. að hjá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi ætti að vera lögð mikil áhersla á að skoða þessi mál frá grunni. Það er t.d. ekki boðlegt, þar sem hagsmunirnir hljóta að vera mjög miklir eins og t.d. á Akranesi og í Borgarbyggð, að þá þegja sveitarstjórnarmenn bara þunnu hljóði. Það má líka ítreka að umferðarmannvirki koma öllum vegfarendum við, líka þau sem eru í öðrum sveitarfélögum.
Með vinsemd og virðingu.
Ólafur Óskarsson
Fyrir hönd eigenda sumarhúsasvæðis í land Beitistaða