Svarbréf til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar

Ólafur Óskarsson

Björgum sveitinni

Ég vil í upphafi þakka fyrir svör og söguskýringar, ég verð þó að viðurkenna að það er mörgum spurningum ósvarað og ýmislegt sem enn þarf að útskýra. Eins og fram kemur í svarbréfi sveitarstjórnar varðandi ný Hvalfjarðargöng þarf að sjálfsögðu að liggja fyrir hvaða valmöguleikar eru fyrir legu þjóðvegar 1 um sveitarfélagið. Þá er mjög slæmt að vera búið að útiloka veg fyrir Grunnafjörðinn. Ef þau verða samsíða núverandi göngum þá liggur þessi leið beinast við. Að mínu mati er það skynsamlegasta leiðin, þá liggur beint við að um einstefnu er að ræða í báðum göngunum, öryggisgöng gætu verið á milli þeirra og því hámarksöryggi vegfaranda tryggt.  Ég held það sé rétt munað hjá mér að teikningar af þessum hugmyndum eru til, Vegagerðin hafi fengið þær í hendur frá Speli þegar Spölur afhenti Vegagerðinni göngin. Aðrar hugmyndir um staðsetningu ganganna kalla á nýja nálgun og ýmsa óvissuþætti t.d. hvort um tvístefnuakstur verður að ræða í báðum göngunum, engin öryggisgöng á milli ganganna (mun minna öryggi vegfaranda) og ýmsar viðbótar vegalagningar þeim samfara.

Það liggur ljóst fyrir í svarbréfi sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar að þeir telja ekki heimilt að leggja veg fyrir mynni Grunnafjarðar. Það er sú skoðun sem haldið hefur verið á lofti af sveitarstjórninni all lengi, leiðréttið mig ef það er rangt. Kannski af þeim sökum hafa nágrannasveitarfélögin ekki verið nógu dugleg að hamra á sínum hagsmunum, einkum þar sem skipulagsvaldið er ekki í þeirra höndum. Ég vil taka það fram hér að það eru þau svör sem bæjarfulltrúar á Akranesi og væntanlega aðrir sveitarstjórnarmenn á Vesturlandi hafa gefið kjósendum sínum, að þeir gætu ekki skipt sér af því. Þetta er að mínu viti alveg út úr kortinu því þessir aðilar eiga að koma hagsmunum síns sveitarfélags á framfæri við hvert tækifæri, mér finnst þau ekki hafa gert það nægjanlega. Hér má geta þess að þessi sömu sveitarfélög ásamt Hvalfjarðarsveit hafa verið með áskoranir til Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar um úrbætur á Kjalarnesinu og lagningar Sundabrautar.

Helstu markmið friðunar Grunnafjarðar er verndun á hinum ýmsu tegundum lífríkis svo og votlendi. Við samþykkt síðasta aðalskipulags fyrir Hvalfjarðarsveit var, að mig minnir, þá inn á skipulagi Leirár- og Melahrepps teiknuð veglína að Grunnafirði en ekki á móti hinum megin í Skilamannahreppnum og að þetta hafi verið ein af ástæðunum fyrir því að ráðherra gat ekki samþykkt skipulagið óbreytt. Bendi einnig á það að ráðherra hafði engar forsendur á þeim tíma til þess að meta hvort af vegalagningu gæti orðið. Það kemur ekkert fram í samningnum um friðun fjarðarins að ekki megi leggja veg fyrir fjörðinn. Ef það hefur verið samþykkt einhvern tímann síðar þá þarf sveitarfélagið að svara þeirri spurningu; hvenær, hvar og af hverjum, hvort gerðar hafa verið einhverjar rannsóknir þar að lútandi og þá af hverjum. Mér vitanlega hefur aðeins verið gerð ein skýrsla um hugsanlega veglagningu þarna yfir. Sú skýrsla var gerð af VSÓ fyrir Vegagerðina árið 2009 eða um 15 árum eftir að fjörðurinn var friðaður. Vegagerðin hefur því væntanlega á þeim tíma talið að þessi leið væri heimil. Niðurstöður þessarar skýrslu var eins og flestir vita á þann veg að þetta væri vel framkvæmanlegt án þess að það kæmi niður á friðun fjarðarins.

Þegar verið er að vernda eitt svæði þá getur það varla orðið með þeim hætti að nærumhverfi friðaða svæðisins verði fyrir stórfelldu tjóni af þeim sökum, þá er tilganginum með verndun svæða ekki náð. Ég vil benda á það sem stendur í svarbréfi sveitarstjórnar að þeim beri skylda að fylgja eftir umhverfisvernd, það hlýtur að gilda alls staðar. Ég tel að tjónið á umhverfinu með þeim hugmyndum um vegarlagninguna sem kynntar hafa verið, verði margfalt á við það sem er verið að vernda og að það nái ekki nokkurri átt.

Það má geta þess að gerðar hafa verið arðsemisútreikningar á Grunnafjarðarleiðinni, það var á þeim tíma er Sturla Böðvarsson var samgönguráðherra. Niðurstaðan var að þetta væri arðsöm framkvæmd. Það sem breyst hefur síðan er að umferð hefur stóraukist og arðsemin mun meiri en þá var. Þá má vitna í svör núverandi samgönguráðherra við fyrirspurn á Alþingi frá Guðjóni Brjánssyni 2020, sem voru á sömu leið, Grunnafjarðarleiðin áhugaverð og arðbær framkvæmd sem vert væri að skoða áfram. Það kom reyndar einnig fram í svari ráðherra að einhver fyrirstaða væri hjá Hvalfjarðarsveit. Vegagerðin hafði óskað eftir að veglína yfir Grunnafjörð yrði sett inn en sveitarfélagið treysti sér ekki á þeim tíma að setja hana inn, bar fyrir sig tímaskorti. Síðan eru liðin 12-13 ár. Margt annað áhugavert kemur fram í svari ráðherra.

Niðurstaða þessara hugleiðinga kallar á frekari skýringar og svör vegna uppbyggingar þjóðvegar eitt á þessu viðkvæma og fallega svæði. Það hljóta allir kostir að þurfa að vera inni. Það verður að horfa á framkvæmdina án þess að einkahagsmunir ráði för, þar sem verið er að byggja upp til langrar framtíðar. Mikil uppbygging er væntanlega framundan á öllu svæðinu, alveg frá Hvalfjarðargöngum og upp í Borgarfjörð og vestur á Snæfellsnes.  Þá á umferðin norður í land einnig eftir að aukast verulega og því er stórmál að vel takist til. Þetta er m.a. öryggismál og skiptir alla vegfarendur máli. Ég velti fyrir mér; þetta eru stórar ákvarðanir sem þetta litla sveitarfélag þarf að taka. Ef það ræður ekki við verkefnið, skoðar ekki alla kosti til hlítar, hvar er þá málið statt? Gæti íbúakynning og kosning í framhaldinu, hjálpað til?  Þarf Vegagerðin að koma að málinu? Skipulagsstofnun? Eða jafnvel ráðherra, spyr sá sem ekki veit?

Svör óskast og einnig birt á sama vettvangi.

 

Með kveðju.

Ólafur Óskarsson, fyrir hönd eiganda sumarhúsasvæðis í landi Beitistaða