Svar við grein Jóns Péturssonar um Grímshúsið

Sigursteinn Sigurðsson

Í næstsíðasta blaði Skessuhornsins birtist aðsend grein með fyrirsögninni „Eru Borgnesingar ginkeyptir?“ Þar sem ég var bæði hönnuðurinn að sýningarhúsi fyrir Grímshússfélagið og verðandi hönnuður Martin Miller’s Gins gestastofunnar er ég knúinn að koma með svar við þessari grein.

Fyrst er rétt að leiðrétta smá rangfærslu. Það mun aldrei koma safn í Grímshúsið. Safn er mikið magn muna, gripa og/eða skjala sem er geymt og varðveitt eins og t.d. Þjóðminjasafn, Þjóðskjalasafn og Safnahús Borgfirðinga ef því er að skipta. Aftur á móti var talað um að setja upp sýningu í Grímshúsinu á munum úr safni, t.d. Safnahússins, m.ö.o. átti það að að verða sýningarhús. Annað sem ég vil líka leiðrétta í greininni. Þar segir að hópur manna hafi stofnað Grímshúsfélagið en í þeim hóp voru svo sannarlega framsýnar konur líka.

Ég var fenginn til að koma með tillögu um nýtingu hússins í samvinnu við Grímshúsfélagið árið 2014, með þeirri hugsjón að þar yrði sett upp sýning um útgerðarsögu staðarins. Það var ljóst frá upphafi að húsið átti að standa undir sér og vera sjálfbært í rekstri. Það síðasta sem sveitarfélagið og við sem samfélag þurfum er enn einn kostnaðarliðurinn í rekstri fasteigna. Nógu erfitt er og miklu nær reyndar að finna hlutverk þeim fjölmörgu félagsheimilum sem Borgarbyggð hefur í sínu eignasafni. Þannig að frá upphafi var talað um að vera með einhvers skonar rekstur í húsinu meðfram sýningunni með þeim markmiðum að reksturinn yrði sjálfbær.

Það er hægara sagt en gert að fá þannig aðila – einhvern sem er til í að byggja upp rekstur af eigin hugsjón en vera skyldugur til að vera með svo sérhæfða sýningu. En það gerðist samt þegar forsvarsmenn Martin Miller’s Gin komu til landsins og sáu Grímshúsið með eigin augum og þær hugmyndir sem þegar höfðu komið fram. Það vill til að útlitslega gengur framleiðsla Martin Miller’s Gins þetta afar vel við hugmyndafræði Grímshússfélagsins. Þar sem markmiðunum var mætt var félagið tilbúið að gefa húsið frá sér eins og alltaf var áætlað, eins og kom fram í fundargerð byggðarráðs Borgarbyggðar 26. september sl.

Verði hugmyndir Martin Miller’s Gin að veruleika má sjá í hendi sér frábæra viðbót við atvinnulífið á svæðinu og eflingu upplifunar þeirra gesta sem sækja bæinn heim. Það er staðreynd að þjónusta fer minnkandi á svæðinu, samanber lokun umboðsstofu VÍS í bænum og hætta á að aðrar stofnanir fylgi í kjölfarið. Svona uppbygging er því afar mikilvæg fyrir samfélagið, annars eigum við á hættu á að verða draugabær. Svo er spennandi að sjá hvaða áhrif þetta mun hafa á Brákarey, en ég er sammála að hefur séð sinn fífil fegurri. Maður getur látið sig dreyma um að sláturhúsið verði gert upp í anda Marshallhússins í Reykjavík. Eyjan væri spennandi suðupottur menningar og iðnaðar, jafnvel íbúða ef einhver hefur áhuga á að búa þar – svona eins og Grandinn umhverfis áðurnefnt Marshallhús í Reykjavík er orðinn í dag. Þær hugmyndir sem nú eru komnar fram ganga út á að varðveita húsið í núverandi mynd og bera virðingu fyrir sögu þess. Þá er áætlunin að reisa viðbyggingu við húsið sem mun hýsa framleiðslu fyrirtækisins sem viðbót við starfsemina. Rétt er að taka fram að auðvitað verða byggingarnar látnar tóna við gamla Grímshúsið. Þegar þetta er ritað er áætlað að starfsemin í Grímshúsinu verði þríþætt, það er sýning í anda Grímshúsfélagsins, veitingasala og svo framleiðsla þannig framtíð byggingarinnar er svo sannarlega björt.

Ég er náttúrulega að skrifa hér sem hagsmunaaðili fyrir þessari uppbyggingu en ég er jafnframt hagsmunaaðili á öðru sviði – sem íbúi í Borgarnesi. Ég vil búa í bæ sem er framsýnn, opinn fyrir uppbyggingu, nútímalegur og framúrstefnulegur – en beri á sama tíma virðingu fyrir sögu sinni og menningu. Þannig bær er eftirsóknarverður staður til að búa á. Ég held að við getum öll verið sammála um að við viljum sjá uppbyggingu á svæðinu og eflingu í menningar, atvinnu og um leið mannlífi á staðnum. Til þess að svo gæti orðið verðum við að vera opin fyrir nýjungum og ferskum hugmyndum. Annars horfum við fram á stöðnun. Borgarbyggð á helling inni og tækifærin eru til staðar. Nýtum þau!

 

Sigursteinn Sigurðsson.

 

 

 

 

Fleiri aðsendar greinar