Svar sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar við pistli Vilhjálms Birgissonar

Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar

Það kemur á óvart og eru veruleg vonbrigði að lesa pistil Vilhjálms Birgissonar, formanns Verkalýðsfélags Akraness, þar sem ekki er rétt farið með fjölda staðreynda og forsendur ýmissa verkefna og málefna Hvalfjarðarsveitar. Betra hefði verið að Vilhjálmur hefði haft réttar upplýsingar um þau málefni sem hann fjallar um í pistli sínum sem upphaflega birtist á fésbókarsíðu hans síðasta þriðjudag og frétt sem birtist í Skessuhorni í gær. Það er öllum til bóta að birtar séu réttar upplýsingar í stað þess að setja fram rangfærslur sem þarf nú að leiðrétta og er það tilgangurinn með þessum skrifum sem vonir standa til að rati nú til allra þeirra sem lesið hafa pistil Vilhjálms.

Í upphafi er rétt að árétta að Hvalfjarðarsveit hefur engan ásetning eða vilja til þess að vera ómagi eða þiggja ölmusu af Akraneskaupstað. Hvalfjarðarsveit lítur svo til að sveitarfélögin hafi, líkt og önnur sveitarfélög, með sér samstarf eða sameiginlega eignaraðild ef og þegar slíkt þykir til hagsbóta, hagræðingar og farsældar fyrir sveitarfélögin. Þannig hefur það verið í áranna rás og Hvalfjarðarsveit treystir og trúir því að svo verði áfram enda sýnir fortíðin að samstarf og samvinna hefur tekið breytingum eftir því sem þurfa hefur þótt.

Þá að skrifum Vilhjálms, á engum tíma er vilji Hvalfjarðarsveitar að ganga á hagsmuni Akraneskaupstaðar, þvert á móti er hugað að sameiginlegum hagsmunum, samstarfi og hvernig leysa megi verkefni með sameiginlegan ávinning beggja sveitarfélaga að leiðarljósi. Stundum getur verið hagkvæmara að reka eða standa að verkefnum í samstarfi og hafa þessi tvö sveitarfélög borið gæfu til að eiga í þess háttar samstarfi um langa hríð. Samstarf sveitarfélaga almennt er jafnframt alveg óháð stærð þeirra þyki hagkvæmni af samstarfinu og má þar vísa til samstarfs sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í ýmsum verkefnum.

Vilhjálmur telur upp samninga þar sem hann segir Akraneskaupstað taka að sér þjónustu fyrir íbúa Hvalfjarðarsveitar og í þeirri upptalningu eru nefndir samningar sem ekki eru lengur í gildi, s.s. um félagsþjónustu, íþróttastarf barna og ungmenna og málefni aldraðra. Það er nefnilega þannig að sveitarfélögin hafa átt í samstarfi sem ekki hefur verið framhaldið, líkt og í félags- og íþróttamálum, félagsstarfi aldraðra og félagsþjónustu, þar sem aðstæður breytast, hagsmunir eru endurskoðaðir og breytingar gerðar án þess að það leiði til breytinga á öðrum samningum, enda eðlilegt að líta á hvert verkefni fyrir sig sem einstakt og ótengt í þessu samhengi þar sem umhverfi sveitarfélaga er síbreytilegt og kallar á aðlögun og breytingar samhliða aðstæðum hverju sinni.

Greinarmun þarf að gera á því hvort um sé að ræða sameiginlegt eignarhald sveitarfélaganna eða samstarfssamninga um verkefni en sveitarfélögin eiga bæði í samstarfi um þjónustu auk þess að reka sameiginlega þjónustu. Samningar milli sveitarfélaganna eru nokkrir, ekki einn sameiginlegur samningur um öll verkefni, heldur sérstakur samningur fyrir hvert og eitt þeirra.

Sveitarfélögin eiga og reka saman Höfða, hjúkrunar- og dvalarheimili og Byggðasafnið í Görðum þar sem eignarhlutur Hvalfjarðarsveitar er 10% á móti 90% hjá Akraneskaupstað. Sérstakar skipulagsskrár eru til fyrir hvorutveggja. Sveitarfélögin bera því kostnað, hvort sem um er að ræða rekstur eða fjárfestingu, í hlutfalli við eignarhlut.

Samstarfssamningar eru síðan milli sveitarfélaganna vegna slökkviliðs og tónlistarskóla. Samningur sveitarfélaganna um rekstur slökkviliðs byggir á árlegum kostnaði við rekstur og fjárfestingu sem skipt er á milli sveitarfélaganna í hlutfalli við brunabótamat fasteigna í hvoru sveitarfélagi m.v. 31. desember ár hvert, hlutfall Hvalfjarðarsveitar undanfarin ár hefur verið 32-34%. Tónlistarskólasamningur er byggður á reiknilíkani þar sem nettó kostnaði er deilt milli sveitarfélaganna eftir vegnu meðaltali nemendafjölda hvors sveitarfélags auk þess sem reiknilíkanið tekur mið af öðrum stærðum s.s. tegund tónlistarnáms, kennslustað o.s.frv.

Hvað varðar íþróttastarf hefur Hvalfjarðarsveit verið með samstarfssamning við Íþróttabandalag Akraness þar sem markmið sveitarfélagsins hefur verið að styðja við öflugt íþrótta-, forvarna- og félagsstarf sem fram fer innan ÍA, hjá aðildarfélögum þess og tryggja þannig að íbúar í Hvalfjarðarsveit eigi kost á að stunda hvers kyns starf sem fram fer innan félagsins. Greiðslur Hvalfjarðarsveitar skv. samningnum eru tvíþættar, annars vegar er greitt á hvern íbúa sveitarfélagsins og hins vegar á hvern iðkanda með lögheimili í Hvalfjarðarsveit, fjárhæðir eru verðtryggðar og reiknaðar í janúar ár hvert. Þegar litið er til þróunar framlagsins er afar gleðilegt að greiðsla til ÍA, utan iðkendagjalda, fer hækkandi ár frá ári, sjá samantekt hér fyrir neðan. Að auki er árlegur frístundastyrkur Hvalfjarðarsveitar kr. 70.000 á hvert barn frá 0-18 ára sem rennur til þess starfs sem iðkandi stundar.

 

2022 2023 2024 2025
Greitt til ÍA 3.717.500 4.798.620 5.678.413 5.951.294

 

Þá að Grundartangasvæðinu, vissulega er rétt að fasteignaskattar af byggingum svæðisins renna til Hvalfjarðarsveitar en hins vegar er það svo að hlutfall starfsfólks er vinnur á svæðinu er um 73% frá Akraneskaupstað en aðeins um 5% úr Hvalfjarðarsveit auk þess eru um 22% frá Höfuðborgarsvæðinu og öðrum svæðum. Um er að ræða ca. 1.050 manns sem hafa starfsstöð á Grundartangasvæðinu og ætla má að önnur óbein og afleidd störf sem tengjast Grundartanga séu sami fjöldi og þannig eru störf samtals um 2.000 tengt svæðinu. Áætlaðar launatekjur til starfsfólks á Grundartanga voru áætlaðar um 12,4 milljarðar króna árið 2023 og áætlaðar útsvarstekjur um 1,7 milljarður skv. greiningu sem KPMG tók saman í nóvember 2024. Telja má því að hagsmunir Akraneskaupstaðar af Grundartangasvæðinu, hvort sem eru fjárhagslegir eða í atvinnulegu tilliti, séu ekki síðri en Hvalfjarðarsveitar. Það er auðvelt að setja fram hugsanir og skoðanir án þess að rökstuðningur fylgi en í þessu samhengi er nauðsynlegt fyrir alla að rökstuðningur fylgi um krónur og aura þannig að unnt sé að fjalla um málefnið á sanngjörnum grunni. Vilhjálmur staðfestir reyndar í skrifum sínum að hagsmunir Akraneskaupstaðar vegna atvinnuuppbyggingar og atvinnuöryggis á Grundartangasvæðinu séu gífurlegir en Hvalfjarðarsveit njóti allra tekna af svæðinu, sem eins og að ofan greinir er ekki rétt með farið. Vilhjálmur nefnir einnig að Hvalfjarðarsveit hafi allt skipulagsvald á svæðinu, sem er rétt enda fara sveitarfélög skv. lögum almennt með skipulagsvald í sínu sveitarfélagi. Þjónustukostnað þann sem Vilhjálmur segir Akraneskaupstað bera vegna Grundartanga greinir hann ekki frekar frá en sé hann að vísa til þjónustu skv. þeim samstarfssamningum sem í gildi eru milli sveitarfélaganna þá dæmir það sig sjálft í því ljósi að Hvalfjarðarsveit greiðir sinn hlut skv. þeim samningum sem í gildi eru og hér fyrir neðan má sjá greiðslur Hvalfjarðarsveitar vegna þeirra sl. fimm ár, sundurliðaðar.

Vilhjálmur nefnir að Hvalfjarðarsveit verði að standa sjálf undir öllum sínum innviðum og þjónustu, hverju nafni sem nefnist. Hvalfjarðarsveit hefur ekki hug á öðru og hefur sýnt það í sínum gjörðum, bæði í uppbyggingu þjónustu og innviða. Nú er til að mynda í byggingu nýtt íþróttahús og nýr leikskóli er á teikniborðinu, gatnagerð er áframhaldandi og til tryggingar góðri þjónustu hafa verið stofnaðar deildir innan stjórnsýslunnar, bæði Velferðar- og fræðsludeild sem og Umhverfis- og skipulagsdeild til að sinna stækkandi sveitarfélagi í takt við þróun samfélags og skyldur sem ber að sinna.

Ávallt hefur það verið trú og vilji Hvalfjarðarsveitar að samstarf og samvinna við Akraneskaupstað sé góð og á jafningjagrundvelli, með sameiginlega hagsmuni að leiðarljósi, þó vissulega sé verulegur munur á íbúafjölda sveitarfélaganna þar sem íbúar Hvalfjarðarsveitar eru rúmlega 800 en Akraneskaupstaðar um 8.500. Almennt væntir Hvalfjarðarsveit þess að samningar séu ekki gerðir nema sameiginlegir hagsmunir ráði för og að samningar séu ásættanlegir fyrir báða samningsaðila.

Hér eftir sem hingað til eru íbúar Akraneskaupstaðar, sem og landsmenn allir, velkomnir í Hvalfjarðarsveit til að njóta alls þess sem sveitarfélagið hefur upp á að bjóða, t.d. að njóta þjónustu og aðstöðu íþróttamiðstöðvarinnar Heiðarborgar, sem er gjaldfrjáls öllum, sundlaugarinnar að Hlöðum, Vinavallar, göngustíga, náttúru og næðis.

 

Verið öll velkomin í Hvalfjarðarsveit!

Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar