Súrsætar þorrahefðir og kraftaverkaberin

Geir Konráð Theódórsson

Á föstudegi í 13. viku vetrar hefst mánuðurinn Þorri og þá hefjast líka bragðgóðu þorrablótin sem gleðja margan manninn, en hræða kannski einhver matvönd börnin – sem og erlenda ferðamanninn sem komst inn til landsins þrátt fyrir Covid og starir núna á hákarlsbitann á tannstönglinum.

Í heimildum frá miðöldum kemur Þorri fram sem einhverskonar persónugervingur vetrar og þar er einnig minnst á þorrablót. Við vitum ekki nákvæmlega hvernig þessi blót fóru fram, en lýsingarnar gefa til kynna miklar veislur og að menn hafi gert vel við sig í mat og drykk. Það má vel vera að fólk hér á landi, sem og einhversstaðar á Norðurlöndunum, hafi haldið einhverskonar þorrablót fyrir heimilisfólkið á bænum fyrr á öldum, en þessi tegund veislublóta sem við þekkjum í dag eru tæknilega séð ekki einhver aldagömul hefð – heldur í raun bara form af skemmtun sem var búin til rétt undir lok 19. aldar.

Í bókinni Íslenskar gátur, skemmtanir, víkivakar og þulur sem Hið íslenska bókmenntafélag sendi frá sér á árunum 1889 til 1903, skrifaði Ólafur Davíðsson eftirfarandi:

„Þorrablótin eiga upptök sín að rekja til íslenskra stúdenta í Kaupmannahöfn, eða að minnsta kosti héldu þeir þorrablót 1873. Ég hef heyrt sagt, að doktor Björn Ólsen hafi gengist mest fyrir því og eftir hann er veislukvæðið, Full Þórs. 1880 mun Fornleifafélagið í Reykjavík hafa haldið þorrablót, þótt ég hafi ekki rekið mig á skýrslur um það í blöðunum. Aftur hélt það stóreflis þorrablót 21. janúar 1881. Veislusalurinn var búinn fornum voðum, skjaldarmerkjum og öndvegissúlum. Langeldar brunnu á gólfinu. Samsætið byrjaði með griðasetningu að fornum sið og var ekki mælt meira undir samsætinu. Við samdrykkjuna á eftir var guðanna minnst, Óðins alföður, Þórs, Freys og Njarðar til ársældar, Braga og Freyju o.s.frv. Ekki hef ég rekið mig á skýrslur um önnur þorrablót í blöðunum, en það er vonandi að þau leggist ekki niður. Það má ekki minna vera en gömlu guðanna sé minnst einstöku sinnum í þakklætisskyni fyrir fornöldina.“

Það gleður mig að þessi von Ólafs rættist því Þorrablótin hafa ekki lagst niður, heldur þvert á móti eru þau orðin rótgróinn partur af íslenskri menningu. Til sönnur á því þá hef ég lesið síðustu daga í fréttum að það stefnir í metsölu á þorramat þó að fá séu haldin blótin – og að út af Covid takmörkunum þá er líklegt að þessi unga/gamla hefð muni aðeins breytast og verða fyrir marga einhverskonar stafræn skemmtun. Hvað persónugervingur vetrar mun segja þegar honum er blótað af einstaklingi sem situr í spariskyrtu að ofan en bara nærbuxum að neðan, einsamall fyrir framan tölvuskjá og nartandi í súran pung upp úr fötu, syngjandi með hópnum sínum á Zoom – tja, hvað Þorri mun segja við þessu veit ég ekki, en þetta fær mig til að brosa. Hvort sem að hefðin er gömul eða ný þá finnst mér allt í góðu þó að hlutirnir þróist og breytist, meginatriðið er að gleðjast og njóta stundarinnar.

Ég er að vísu með uppástungu fyrir smá breytingar varðandi þorramatinn. Árið 1725 var franskur landkönnuður Reynaud Des Marchais að ferðast um Vestur-Afríku í leit að framandi ávöxtum og matjurtum til að koma með aftur heim til Frakklands, og vonandi heilla kóngafólkið og efri stéttirnar. Þau ykkar sem lásuð pistilinn minn um hvernig aðalsfólk í Evrópu borgaði fúlgur til að leigja ananas, til þess eins að monta sig í veislum, þið skiljið betur af hverju þessi landkönnuður var að standa í þessu ferðalagi. Eitt af því sem Reynaud Des Marchais fann og kom með til baka voru rauð ber af plöntunni Synsepalum dulcificum, í heimalöndunum voru þessi ber kölluð agbayun, taami, asaa eða ledidi, en í Evrópu fengu berin einfaldlega nafnið miracle berries eða kraftaverkaber.

Kraftaverkaberin slógu í gegn hjá franska aðalsfólkinu því þau höfðu þann eiginleika að ef maður beit í ber, og lét það leysast upp á tungunni, þá varð það til þess að í stutta stund snérist bragðskynið á hvolf. Allt sem venjulega bragðaðist súrt varð sætt, og fólk gat borðað margar sítrónur eða drukkið edik, allt með bestu lyst því súra bragðið kom fram sem sæta. Við vitum í dag að þessi ber innihalda prótein sem bindast tímabundið við bragðskynjara á tungunni og valda því að heilinn upplifir súrt bragð sem sætt, og sætan getur verið milljón sinnum sterkari en til dæmis gervisykurinn aspartam.

Vandinn við kraftaverkaberin var að þessi prótein brotnuðu niður hratt eftir að ávöxturinn var tíndur af plöntunni og virkilega erfitt var að rækta þessar plöntur í Evrópu. Þetta olli því að í um það bil 300 ár hefur þessi súrsæta kraftaverka upplifun bara verið í boði fyrir ríkt fólk sem hafði efni á að kaupa ferska sendingu frá Afríku. En einnig átti fólk erfitt með að átta sig á hvað gæti væri nytsamlegt með þessari upplifun. En þetta breyttist allt fyrir nokkrum árum síðan, prufað var að reyna að rækta plöntuna í öðrum löndum og heppnaðist það vel meðal annars í Taívan, svo kom það í ljós að með því að frostþurrka berin margfaldaðist geymslutíminn án þess að próteinið brotnaði niður. Núna má kaupa samanþjappaðar töflur af frostþurrkuðum kraftaverkjaberjum í gegnum vefverslanir á netinu. Þetta framboð kom aðallega til vegna þess að þetta varð um tíma vinsælt sem einhverskonar megrunarkúr þar sem fólk gat étið yfir sig af hitaeiningasnauðum mat sem drekkt var í sítrónusafa, en maturinn bragðaðist eins og sælgæti, þökk sé kraftaverkatöflunum.

Þú veist líklegast hvert ég er að fara með þetta. Eina matarhefðin sem ég veit um í heiminum sem einkennist af súru bragði er auðvitað íslenski þorramaturinn – og já, ég prófaði að leysa upp svona töflu á tungunni og borða svo þorramat. Upplifunin er mjög sérstök, bragðið kemur eins og af einhverskonar virkilega góðum eftirrétti, en áferðin undirstrikar þó ákveðin furðulegheit. Ég prófaði þetta með vinahópnum og það sem mér þótti magnaðast af öllu var að þeir sem hötuðu þorramat gátu þarna með góðri lyst hámað í sig súra punga, lundabagga, slátur, og skolað þessu niður með mysu. Þetta var auðvitað tekið upp og ykkur er velkomið að horfa á tilraunina okkar á Youtube, það þarf bara að leita að “Gráa svæðið – *HJÁLPARTÆKI SÚRMATSLÍFSINS *” og þá ætti myndbandið að koma upp.

Þannig að þetta er mín uppástunga til ykkar, að prófa nýja upplifun á gömlu/nýju þorrahefðina, svona fyrst að allt virðist hvort sem er öðruvísi á þessum covid tímum. En ég endurtek að fyrir mér er meginatriðið bara að gleðjast og njóta stundarinnar. Gleðilegan Þorra öllsömul.

 

Geir Konráð Theódórsson