Sundabraut strax. Enga tafaleiki!

Bergþór Ólason

Áform um lagningu Sundabrautar hafa verið ein mesta sorgarsaga samgöngumála á Íslandi um árabil. Meirihluti borgarstjórnar í Reykjavík virðist á köflum hatast við verkefnið.  Með öllum ráðum er þvælst fyrir að það geti orðið að veruleika. Smáhýsi eru byggð í veglínu brautarinnar, bíllaust hverfi í jaðri hennar, landinu undir heppilegustu tengingu brautarinnar við Sæbraut var úthlutað til verktaka og svo mætti lengi telja. Steininn tók svo úr þegar borgarstjóra tókst að plata samgönguráðherra til að undirrita enn eina viljayfirlýsinguna um að tefja framgang málsins. Ráðherrann áttaði sig ekki á því að hann hefði verið plataður fyrr en Pawel Bartoszek, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar, borgarfulltrúi Viðreisnar (flokkur sem á hátíðisdögum segist vera fylgjandi lagningu Sundabrautar) sagði allsendis óvíst hvort af Sundabraut yrði, sú ákvörðun yrði ekki tekin fyrr en að aflokinni „félagshagfræðilegri“ greiningu sem einhver Borgarlínusérfræðingurinn verður eflaust látinn framkvæma.  Málið er semsagt í harðafrosti undir forystu formanns Framsóknarflokksins.

En það er til leið til að færa verkefnið inn á braut framkvæmda. Sundabrautin er nátengd samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, þó að hún sé ekki hluti af framkvæmdaáætlun sáttmálans, þá segir í sáttmálanum að; „Við útfærslu verkefna framkvæmdaáætlunarinnar verði sérstaklega hugað að greiðri tengingu aðliggjandi stofnbrauta svo sem Sundabrautar inn á stofnbrautir höfuðborgarsvæðisins.“  Í framhaldsnefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar, þegar heimild var veitt til að stofna opinbert hlutafélag sem fékk nafnið Betri samgöngur ohf. segir síðan: „Hvað tengingu við Sundabraut varðar þarf að vinna skipulag hennar og Sæbrautarstokks í samhengi, enda má líta á Sæbrautarstokk sem fyrsta áfanga Sundabrautar.“ Og áfram í framhaldsnefndarálitinu: „Nauðsynlegt er að hafa það í huga að heildar-samkomulagið verður því að ganga upp til að markmið samkomulagsins náist. Allar úrbætur og aðkoma ríkis og sveitarfélaga eru því samvinnuverkefni og framgangur samningsins byggist á að greiða leið framkvæmda.“ Það er því ljóst að sýn löggjafans er sú að heildarverkefnið verði að ganga upp. Reykjavíkurborg geti ekki valið úr þau verkefni sem meirihlutanum þar hugnast að hleypa áfram.

Fjárveitingar til verksins eru því bundnar þeirri forsendu að heildarsýnin gangi upp.  Í dag er Reykjavíkurborg ekki að standa við sinn hluta af verkefninu.  Á meðan sú er staðan blasir við að aðrir þættir samgöngusáttmálans, svo sem Borgarlínuævintýrið, verða að bíða.

Í málefnum Sundabrautar þarf að nálgast Reykjavíkurborg eins og erlendu kröfuhafana við uppgjör slitabúanna.  Með kylfu og gulrót.

 

Bergþór Ólason

Höf. er oddviti Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi.