Sundabraut í forgang

Eyjólfur Ármannsson

Sundabraut er þjóðhagslega hagkvæmasta vegaframkvæmdin sem völ er á í dag. Hún hefur verið til umræðu áratugum saman. Sundabraut styttir akstur til miðborgar Reykjavíkur líklega um hálftíma. Fer eftir biðröðum á háannatímum. Það þýðir að ef 6.000 manns myndu aka Sundabraut á dag sparaði það 3000 vinnustundir á dag. Það felur í sér gríðarlega aukningu í þjóðhagslegri hagkvæmi á ársgrundvelli.

Sundabraut skiptir miklu máli fyrir íbúa NV-kjördæmis, ekki síst fyrir Akranes og Vesturland. Hún myndi styrkja verulega stöðu bæjarins sem hluta af atvinnusvæði höfuðborgarinnar. Lagning Sundabrautar er það mikilvæg vegaframkvæmd og þjóðhagslega hagkvæm að hana ætti að setja í algeran forgang.

Samgöngu- og innviðaframkvæmdir á fyrst og fremst að fjármagna með skattfé enda skattar á ökutæki háir. Ríkið gæti einnig gefið út skuldabréf (samgöngubréf) til að fjármagna vegaframkvæmdir. Hvati er til að kaupa hlutabréf og hann ætti að ná til ríkisskuldabréfa, sem eru áhættulaus og þetta væru skuldir ríkisins í eigin gjaldmiðli. Skortur er á fjárfestingakostum á Íslandi og þetta yrði góð viðbót. Hvalfjarðarmódelið mætti nota við fjármögnun ákveðinna vegaframkvæmda til að flýta þeim en þá þarf að vera valkostur á annarri leið. Það kæmi til greina við Sundabraut til að flýta framkvæmdum en þá með miklum afsláttarkjörum fyrir íbúa Vesturlands, til dæmis mætti hafa veggjaldaáskriftir frádráttarbærar frá skatti. Aðalatriðið er að Sundabraut þolir ekki meiri bið.

Með Sundabraut myndi byggð aukast á Kjalarnesi og færast í norður frá Reykjavík, þannig myndi Akranes færast enn nær atvinnusvæði höfuðborgarinnar.

Fyrir ferðamenn myndi aðgengi að Vesturlandi aukast til muna með Sundabraut. Í dag fara 80% erlendra ferðamanna sem koma til landsins til Suðurlands. Hlut Vesturlands í ferðmannaþjónustu þarf að auka stórlega og það er fyrst og fremst gert með bættum vegasamgöngum og auknu aðgengi ferðamanna. Auk Sundabrautar þarf malbikaðan veg um Uxahryggi til að fá ferðmannastraum á milli Þingvalla og sögustaða Borgarfjarðar. Hringur fyrir ferðmenn um Vesturland á að vera jafn vinsæll og Gullni hringurinn. Náttúrufegurð og sögustaðir Vesturlands hafa upp á allt að bjóða til að svo verði.

Sundabraut er eðlilegt framhald Hvalfjarðarganga og mikilvægt að tvöföldun Vesturlandsvegar að þeim ljúki sem fyrst. Áhrif Sundabrautar fyrir Akranes og Vesturland yrðu svipuð og tilkoma Hvalfjarðarganga var í samgöngum við höfuðborgarsvæðið. Sundabraut þarf að setja dagskrá af miklum krafti sem mikið hagsmuna mál fyrir Akranes, Vesturland og allt NV-kjördæmi.

 

Eyjólfur Ármannsson

Höfundur skipar 1. sæti F-lista Flokks fólksins í NV-kjördæmi.