Styrkjum liðið í NV-kjördæmi!

Magnús Ólafs Hansson

Góðu vinir mínir í (fyrrum) Alþýðuflokknum í Norðvesturkjördæmi, nú Samfylkingunni. Ég verð að játa mig sigraðan, af hálfu fyrrum félaga minna í Samfylkingunni í Norðvesturkjördæmi eftir alla þá vinnu sem unnin var, af hálfu samgöngunefndar Fjórðungssambands Vestfirðinga til fjölda ára, er leit að samgöngum á landi, láði og legi, heima á Vestfjörðum.

Nú er kominn á framboðslista Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi, maður sem alla sína stuttu ábúðartíð á Vestfjörðum, Ingimar Ingimarsson búsettur á Reykhólum, en hann skipar sjöunda sæti listans. Hann hefur beitt sér fyrir samgönguleysi áfram á svæðinu. Hann hefur verið á móti öllu er lýtur að samgöngum á svæðinu. Í framhaldi af þessu, og til að salta enn frekar í sárin, ætlar Samfylkingin að segja upp nýgerðum samningi ríkis og kirkju. Sannarlega er það í andstöðu við núgildandi stjórnarskrá, en Samfylkingunni virðist slétt sama um það. Þjóðin kaus í rauninni að sérstakt ákvæði skyldi vera um þjóðkirkjuna. Svo virðist sem alls ekki eigi að virða þá niðurstöðu af forystu Samfylkingarinnar. Nú virðist sem ákveðið lífsskoðunarfélag sem kennir sig við siðmennt ráði för í Samfylkingunni.

Ég hefi ákveðið, og gerði það reyndar fyrir margt löngu, þegar ég varð þessa var, að styðja alls ekki Samfylkinguna, fyrir komandi alþingiskosningar. Í rauninni skammast ég mín. Það virðist enginn áhugi á að virða stjórnarskrá eða þjóðarvilja. Í framhaldi af framansögðu hef ég ákveðið og reyndar fjölmargir Vestfirðingar sem studdu Samfylkinguna, að segja NEI TAKK, þetta viljum við ekki.

Sjálfur hef ég ákveðið að styðja Viðreisn í Norðvesturkjördæmi og skipa þar þrettánda sæti á lista. Ég verð að benda ykkur á dreng sem skipar fyrsta sæti á lista Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar. Í æsku lærði hann aldrei að segja ósatt og fékk oft bágt fyrir á uppeldisárum sínum. Hann hefur ekki lært það enn, og tel ég hann heiðarlegasta, traustasta og í rauninni frambærilegasta frambjóðandann í kjördæminu fyrir komandi kosningar í septembermánuði. Þetta er drengur sem ég tel mig eiga nokkuð mikið í. Hann heitir Guðmundur Gunnarsson, afar kærleiksríkur drengur og er fæddur og uppalinn Bolvíkingur og ég veit að hjarta hans slær í kjördæminu.

Ágætu vinir mínir, í fyrrum Samfylkingu og aðrir góðir vinir mínir í Norðvesturkjördæmi. Ég biðla til ykkar að setja X við C við næstu alþingiskosningar í september mánuði nk. Guðmundur Gunnarsson er drengurinn sem við öll þurfum á að halda í framtíðinni. Eins og við vitum öll þá er kærleikurinn langlyndur, hann er góðviljaður, kærleikurinn öfundar ekki, kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp, kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.

En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt, en þeirra er kærleikurinn mestur. Góðar kveðjur til ykkar allra með þökk fyrir góðar stundir, hér eftir sem og fyrrum.

 

Magnús Ólafs Hansson

Höf. skipar 13. sæti á lista Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi.

Fleiri aðsendar greinar