Stundum málefnalega stjórnsýslu í Borgarbyggð

Guðveig Eyglóardóttir

Á síðasta fundi sveitarstjórnar Borgarbyggðar lagði ég fram bókun í tengslum við samning meirihluta samfylkingar- og sjálfstæðismanna við Hús og Lóðir ehf. Fyrirtækið hefur sem kunnugt er þegar hafið framkvæmdir á lóðinni Borgarbraut 57 og 59 í miðbæ Borgarness. Fyrirhugað er að á lóðinni rísi íbúðir fyrir eldri borgara, hótel og þjónustu- og verslunarrými.

Í bókuninni geri ég athugasemdir við nýgerðan samning við lóðarhafa en lóðinni var úthlutað fyrir um ári síðan en þá án nokkurra skuldbindinga af hálfu sveitarfélagsins. Athugasemdir mínar beinast einkum að starfsskyldum, siðferði og hæfi sveitarstjórnarfulltrúa.

Í samningnum koma fram veigamiklar fjárhagslegar skuldbindingar af hálfu sveitarfélagsins tengdar leigu eða kaupum á íbúðum, afslátt af gatnagerðargjöldum og viljayfirlýsing um að kanna að flytja ákveðna starfsemi þess í þjónustuhluta húsnæðisins. Þessi ákvæði samningsins komu mér verulega á óvart þar sem þetta var ekki í samræmi við umræður í sveitarstjórn og engin stefna liggur fyrir um flutning á starfsemi sveitarfélagsins í annað húsnæði. Þá er ekki gert ráð fyrir fjárútlátum vegna ákvæða samningsins í fjögurra ára áætlun og ekki hefur verið gerður viðauki við fjárhagsáætlun sem þó er lagaskylda. Á byggðaráðsfundi þar sem samningurinn var tekinn fyrir kom fram hjá formanni byggðaráðs að ekki lægju fyrir neinar ákvarðanir um flutning á starfsemi sveitarfélagsins í annað húsnæði en mikilvægt væri fyrir framkvæmdaaðila að viljayfirlýsingin frá sveitarfélaginu væri í samningnum þar sem hún gæti haft jákvæð áhrif fyrir hann í samskiptum hans við bankann. Erfitt er að greina annað en að í þessum ummælum felist þátttaka í blekkingum. Það að styðja við að framkvæmdaraðili geti nýtt sér óljósar hugmyndir sveitarfélagsins í samskiptum við bankann er að mínu mati mjög ómálefnaleg og vafasöm stjórnsýsla. Í bókun minni lagði ég til að fram færi ítarleg skoðun á allri meðferð málsins og aðkomu sveitarstjórnarfulltrúa.

Í upphafi þegar lóðunum var úthlutað fyrir um ári síðan þá fylgdi þeirri úthlutun ekki nein skuldbinding af hálfu sveitarfélagsins. Miklar viðræður hafi hinsvegar verið í gangi við lóðarhafa síðan þar sem þeir hafa sóst eftir aðkomu sveitarfélagsins að framkvæmdinni.

Í mínum huga, til að tryggja jafnræði, þ.e. að allir aðilar í sömu stöðu standi sömu hlutir til boða, þá hefði þurft að auglýsa lóðina upp á nýtt með öðrum forsendum ef það var vilji meirihlutans að skuldbinda sveitafélagið fjárhagslega með þeim hætti sem kemur fram í samningnum.

Í siðareglum kjörinna fulltrúa Borgarbyggðar er að finna ákveðið leiðarljós. Þar er m.a. kveðið á um að kjörnir fulltrúar skuli hafa í heiðri ýtrustu kröfur um heiðarleika og réttlæti í störfum sínum fyrir sveitarfélagið, gæta þess að fara ekki út fyrir umboð sitt í störfum sínum, nýta ekki stöðu sína í þágu einkahagsmuna eða annarra sem þeim eru tengdir og ennfremur virða fjárhagsáætlun og grundvallarreglur um fjármálastjórn til að tryggja réttlæta og ábyrga meðferð á almannafé.

Mikil umræða hefur átt sér stað í samfélaginu okkar um aukið gagnsæi og heiðarleika stjórnmálamanna. Það er ábyrgð okkar sem störfum í stjórnmálum í dag að byggja upp traust á milli stjórnmálamanna og kjósenda. Sveitarstjórn var frá upphafi sammála um mikilvægi þess að byggja upp á Borgarbraut 57 og 59.  Framkvæmdir fyrir á þriðja milljarð skipta miklu máli. Það réttlætir hinsvegar ekki vafasama stjórnsýslu og óvönduð vinnubrögð.

 

Guðveig Eyglóardóttir.

Höf. er oddviti framsóknarmanna í Borgarbyggð.

Fleiri aðsendar greinar