Stúdentspróf eru gömul arfleifð elítunnar

Þorgrímur Einar Guðbjartsson

Stúdentsprófið er gömul arfleifð embættismanna elítunnar. Allt framhaldsskólanám á að vega jafnt við umsókn um háskólanám árið 2019.

Í flestum löndum er nám í hávegum haft. Það á einnig við um hér á Íslandi. Hér byrjar námið við ca tveggja ára aldur, með leikskóla. Leikskólanámi lýkur vorið sem einstaklingurinn er við sex ára aldurinn. Hann er gjaldfrjáls að hluta hjá einhverjum sveitarfélögum, enda ekki um skyldunám að ræða, annars greiddur af foreldrun/forráðamönnum barns.

Þá tekur við grunnskóli, sem er skyldunám og því gjaldfrjáls að fullu. Það er tíu ára skyldunám og lýkur að jafnaði árið sem einstaklingur er 16 ára.

Eftir skyldunám tekur við framhaldsskólanám. Þá breytist aðeins kúrsinn og námsvalið fer að verða meira val og um leið gengisfelling á frekara námi í háskóla, nema valið sé að fara í það sem kallað er á Íslandi stúdentspróf. Velji aðili að fara í framhaldsskóla, með það að markmiði að ljúka stúdentsprófi, þá getur hann farið í háskólanám, strax að því loknu, við 19 ára aldurinn.

Velji neminn að fara í iðnnám, sem lýkur með sveinsprófi, almennt við 19 ára aldurinn, kemst hann ekki í framhaldsnám á háskólastigi, nema bæta við sig námi á framhaldsskólastigi, til loka stúdenstprófs.

Af þessu leiðir að langflest ungmenni kjósa, eða eru látin fara í framhaldskóla, til að ljúka stúdentsprófi, vegna þess að eftir það eru þeim allir vegir færir í námsvali. Þá geta þau valið að fara aftur í framhaldskóla og læra þá iðngrein sem þau langaði til í upphafi, en geta einnig farið í háskólanám seinna meir, eða strax, kjósi þau svo.

Framhaldsskólanám er að hluta til gjaldfrjálst, en nemandinn þarf að keppa við fólk á almennum leigumarkaði um húsnæði til að búa í, nema í þeim skólum úti um land sem reka heimavist, en dvöl þar er misjafnlega dýr (þetta er efni í aðra grein).

Háskólanámið sem síðan hefst að loknu stúdentsprófi, er svo misjafnlega dýrt, eftir því hvaða háskóla er farið í.

Nú er verið að ræða það í alvöru að heimila háskólum að taka inn nemendur sem ekki hafi lokið stúdentsprófi, enda fari þeir umsækjendur í gegnum nokkurs konar raunfærnismat. Það er gott og vel, en af hverju þetta vesen? Af hverju lýkur ekki þriggja ára framhaldsskólanámi, með stúdentsprófi / framhaldsskólaprófi, sem gildir til háskólanáms?

Við lifum á árinu 2019! Ennþá er við lýði snobbnámið / prófið, stúdentspróf! Nám sem ekki allir eiga að ljúka, eða það var andinn fyrir hundrað árum, en í dag viljum við ekki hafa þetta svona! Við tölum um það á hátíðisdögum hve nám er mikilvægt, en samt sorterum við úr nemendur á bóknámsbrautum, frá nemum á iðnbrautum. Allir nemar sem leggja stund á framhaldsskólanám, eiga að öðlast sama rétt til náms í háskóla, óháð því hvort þeir hafi lokið stúdentsnámi á bóknámsbraut, eða stúdentsnámi á iðnbraut (það er líka til stúdentspróf á íþróttafræðibraut / listabraut, en sé það iðnnám, þá gildir það ekki til stúdentsprófs).

Hættið að gera þetta svona mikið mál fyrir unga fólkið okkar. Breytið lögunum á þann veg að allt framhaldsskólanám veiti inngöngu í háskóla. Síðan er það bara háskólanna að meta hvort að píparinn fái inngöngu í lækninn eða verkfræðinginn.

 

Þorgrímur Einar Guðbjartsson

Fleiri aðsendar greinar