Strompaðu þetta!

Tinna Steindórsdóttir

Í vikunni tók ég þátt í minni fyrstu íbúakosningu hér á Akranesi. Ég kaus um það hvort úr sér gengið steinsteypt mannvirki sem hefur ekki lengur notagildi fái að standa sem minnisvarði. Til hamingju bæjaryfirvöld – nú getur enginn sagt að ekki ríki íbúalýðræði á Akranesi!
Í síðustu viku fór ég líka í fjöruferð með litla drengnum mínum og ömmu hans í Krókalónið. Krókalónið sem bráðum verður ekki lengur lón. Sem bráðum verður fyllt upp í til þess að standa undir öðru steinsteyptu mannvirki sem mun um tíma hafa notagildi – þar til það hefur það ekki lengur.

Ætli þegar þar að kemur verði íbúakosning um hvort það mannvirki fái að standa áfram sem minnisvarði?

Það er alveg nóg af einstökum fjörum hérna á Akranesi til að skottast í. Við fjörulallarnir getum bara farið í Steinsvör eða Skarfavör á meðan þær fá að standa í friði.

Ég vil allavega bara fyrir mitt leyti koma því á framfæri að mér finnst algjör óþarfi að við íbúarnir kjósum um það hvort náttúrulegur hluti af strandlengjunni okkar fari undir óafturkræfa landfyllingu því það er svo borðleggjandi að það þarf ekki einu sinni að kjósa um það.

 

Tinna Steindórsdóttir

Höf. er íbúi á Akranesi.

Fleiri aðsendar greinar