Strandveiðar styrkja dreifðar byggðir

Auður Kjartansdóttir

Íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið byggist að meginreglunni til á aflamarkskerfi, með framseljanlegum aflaheimildum. Markmið kerfisins var að sporna gegn ofveiði og er því verið að tryggja sjálfbærni og hámörkun verðmæta úr auðlindinni. Það hefur tekist virkilega vel og er litið til þessa fyrirkomulags utan landsteinanna. Strandveiðar eru undantekning frá þessari meginreglu kerfisins.

Aukið hlutfall strandveiða

Hlutfall strandveiða af ráðlögðum þorskafla hvers árs hefur farið hækkandi síðustu ár, við upphaf strandveiða, fiskveiðiárið 2008/2009 var það 1,8% en á síðasta fiskveiðiári var það um 5,7% eða 12.000 tonn eftir viðbótarúthlutun matvælaráðherra. Hlutfallið hefur því margfaldast síðustu ár og hefur hlutfallið aldrei verið hærra.

Strandveiðar verða þó að lúta sömu lögmálum og aðrar veiðar þar á meðal um aukningar eða skerðingar aflaheimilda. Varast skal að auka hlutfall strandveiða, m.a. út frá jafnræðissjónarmiði, enda þarf þá að taka aflaheimildir af öðrum, sem einnig skapa miklar tekjur og fjölda starfa um allt land.

Strandveiðar hafa reynst mikilvægar, sérstaklega fyrir dreifðari byggðir og er mikilvægt að halda úti slíkum veiðum. Það eru tækifæri til að betrumbæta þær reglur sem gilda um strandveiðar.

Aukið aðgengi með strandveiðum

Markmiðið með strandveiðum var auka aðgengi að fiskveiðum í atvinnuskyni og að mögulegt yrði að stunda takmarkaðar veiðar með ströndinni á sjálfbæran og ábyrgan hátt. Var þannig opnað fyrir handfæraveiðar allra báta sem uppfylla skilyrði sem gerð eru um fiskiskip sem hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni. Það er skilyrði að einungis er hægt að veita hverri útgerð, eiganda, einstaklingi eða lögaðila leyfi til strandveiða fyrir eitt fiskiskip. Það þarf að taka á því að einstaka aðilar séu að gera út fleiri en einn bát í strandveiðikerfinu enda fer það gegn tilgangs kerfisins og verður minna til skiptanna úr pottinum fyrir aðra.

Skýrara fyrirkomulag

Einnig þarf að endurskoða fyrirkomulag veiðanna og setja upp skýrara og fyrirsjáanlegra fyrirkomulag, bæði fyrir þá sem sækja strandveiðar, fiskkaupendur og þjónustuaðila. Það þarf að skoða hvort taka eigi upp svæðaskiptingu aftur þar sem pottinum yrði skipt hlutfallslega milli svæða eftir fjölda báta, sem var ekki áður gert. Þannig má tryggja að bátar geti sótt góðan og hagstæðan afla á strandveiðitímabilinu um allt land og koma í veg fyrir að potturinn klárist á einu svæði áður en veiði hefst á öðrum svæðum.

Sátt þarf að nást

Mikilvægt er að sem mest sátt sé um stjórnun fiskveiða til lengri tima. Sú sátt hefur ekki verið til staðar í strandveiðum. Með áðurnefndum hugmyndum gætum við tekið skref í þá átt.

 

Auður Kjartansdóttir

Höf. skipar 3. sæti lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi