Strandhögg innrásarvíkinga

Gunnlaugur A Júlíusson

..að standa í stafni,

stýra dýrum knerri.

Halda svo til hafnar,

höggva mann og annan.

Það var ekki örgrannt við að kvæði Egils Skallagrímssonar kæmi upp í hugann á kynningarfundi um fyrirætlanir um uppbyggingu vindorkuvera sem haldinn var í Borgarnesi undir lok september sl. Kvæði Egils á náttúrulega sérstaklega vel við þá þeim slóðum.

Hér fyrir nokkrum árum voru íslenskir útrásarvíkingar á allra vörum. Þeir gerðu strandhögg á erlendum mörkuðum og fóru mikinn. Flestum ætti að vera í fersku minni hvernig það endaði allt saman. Nú virðist dæmið hafa snúist við. Óvígur her innrásarvíkinga leitar fanga um allt Ísland í þeim tilgangi að reisa risavaxin vindorkuver á hálsum og heiðum.

Andi vakningarsamkomu

Sú tilfinning gerði vart við sig að andi vakningarsamkomu svifi yfir fundinum í Borgarnesi. Í upphafi var fluttur fyrirlestur af fyrrverandi rektor á Bifröst. Hann fór mörgum orðum um þá framtíð sem biði Íslendinga ef ekki væri hafist handa, eigi síðar en strax, við uppbyggingu tuga vindorkuvera í Borgarfirði. Framtíðarsýnin var að reist yrðu um 1000 vindorkuver um land allt. Allur heimurinn væri að vinna að kolefnishlutleysi og uppbygging vindorkuvera væru ein af meginforsendum þess að ná þessu markmiði svo jörðinni væri forðað frá logum helvítis. Þar á eftir vitnuðu nokkrir hagsmunaaðilar um hve reiðubúnir þeir væru til að bjarga Vestlendingum frá þeim örlögum sem fylgdu athafnaleysi í þessum efnum. Reyndar kom fram á fundinum að ef Borgfirðingar leggðu kollhúfur yfir gylliboðum innrásarvíkinganna þá yrði farið með allt heila galleríið og allan ábatann norður í Skagafjörð í náðarfaðm KS. Að hika væri því sama og að tapa.

Gríðarlegar virkjanaframkvæmdir framundan eða hvað?

Fram kom á fundinum að árið 2020 voru framleiddar 19.127 GWst af raforku á Íslandi. Fyrsta rafstöðin á Íslandi var reist árið 1904. Það hefur því tekið um 120 ár að ná því markmiði að framleiða þessar 19,127 GWst af rafmagni. Á fundinum kom fram að raforkuþörfin árið 2040 yrði 43.127 GWst. Það þurfi því að virkja um 24.000 GWst á næstu 17 árum. Það þarf því meira en tvöfalda raforkuframleiðslu á landinu á næstu 17 árum til að uppfylla hin „metnaðarfullu“ markmið stjórnvalda í loftslagsmálum.

Það er ekkert annað. Það er eins gott að þetta liggi fyrir svart á hvítu. Vegna markmiðssetningar stjórnvalda varðandi orkuskipti bíða erlendir vindorkurisar í röðum, óþreyjufullir að hefja framkvæmdir. Á sama tíma liggur ekkert heildarskipulag fyrir í þessum efnum af hálfu stjórnvalda né nokkurt annað regluverk.

Hefur í þessu sambandi nokkuð verið talað um afleiðingagreiningu (konskvensanalyse)? Hvaða áhrif mun fyrrgreind stefna stjórnvalda um metnaðarfull markmið í loftslagsmálum og afleiðingar hennar hafa á ásýnd landsins og efnahag þess til skemmri og lengri tíma svo dæmi séu nefnd? Hvaða áhrif mun hún hafa á atvinnulíf landsins, byggðir og búsetuskilyrði? Er hið eina sem skiptir máli í þessu sambandi að uppfylla þau markmið stjórnvalda að stika stórum skrefum á undan öðrum nálægum ríkjum í þessu efni?

Í því sambandi er einnig eðlilegt að spyrja hvað rak íslensk stjórnvöld til að setja metnaðarfyllri markmið í loftslagsmálum en sett hafa verið í flestum öðrum löndum sem við berum okkur gjarna við og þótt víðar væri leitað? Hver var þörfin? Hver eru rökin?

Sérstaða Íslands og mikilvægi ferðaþjónustu

Ísland er í algerrri og mjög öfundsverðri sérstöðu hvað varðar orkumál og raforkuframleiðslu. Því sem nær öll hús á Íslandi eru hituð upp með náttúrulegum orkugjöfum, heitu vatni og rafmagni. Rafmagn er framleitt á umhverfisvænasta máta sem um getur, vatnsorku og gufuorku. Hérlendis eru kol, gas eða kjarnorka ekki notaðir sem orkugjafar. Varla valda þessar staðreyndir því að íslensk stjórnvöld séu, að því virðist, að taka ákvarðanir um orkuskipti í óðagoti og án þess að að hafa lagt niður fyrir sér eða almenningi í landinu hvaða afleiðingar muni hafa.

Ég hef átt því láni að fagna að hafa fylgt erlendu ferðafólki um landið á liðnum misserum. Í því sambandi má minna á að ferðaþjónusta var orðin ein af þremur meginatvinnuvegum á Íslandi fyrir Covid. Þegar pestinni sleppti virðist ferðaþjónustan ná sömu stöðu og fyrir hana á undraskömmum tíma. Það er mjög áhugavert að upplifa landið í gegnum augu ferðafólks. Uppistöðulón vatnsaflsvirkjana eru eins og hver önnur fjallavötn í augum þeirra. Gufan frá gufuaflsvirkjunum er eins og hver önnur gufa frá gufuhverum. Pípurnar sem liggja á jörðinni nálægt þeim vekja engin viðbrögð. Aftur á móti eru viðbrögð erlends ferðafólks mikil þegar minnst er á hvað gæti verið framundan með uppbyggingu vindorkuvera á heiðum og hálsum um land allt. Það getur ekki ímyndað sér að það muni ganga eftir. Ásýnd Íslands sé svo einstök.

Ábati nærsamfélagsins?

Á Borgarnesfundinum umrædda var mikið gert úr þeim ábata sem samfélagið og sveitarfélögin hefðu af uppbyggingu tuga vindorkuvera víðs vegar um Borgarfjörð. Sérstök áhersla var lögð á að ábatinn af uppbyggingu vindorkuvera myndi skila sér inn í nærsamfélagið. Það vita allir sem það vilja vita að slíkar fullyrðingar eru eins og hvert annað tal út í loftið. Þessi fyrirtæki eru ekki í góðgerðarstarfsemi. Þau hafa eðlilega einungis eitt rekstrarlegt markmið en það er að hámarka arðsemi sína. Það verður ekki gert með að útiloka arðbærustu möguleika á sölu raforkunnar. Mögulegt væri að einhverjir molar myndu falla á borð nærsamfélagsins á uppbyggingartíma en hvað tekur svo við? Mjög ólíklegt er aftur á móti að fyrirtæki sem annast viðhald og stjórnun þessara mannvirkja verði staðsett í litlum og fámennum samfélögum víða um land.  Ég kannaði reglur fyrir álagningu fasteignaskatta á vindorkuver. Samkvæmt úrskurði Yfirfasteignamatsnefndar nr. 6/2017 er neðsta rými mastranna ætlað fyrir ýmsan stjórnunar- og tæknibúnað. Hæð þess er 5,56 metrar. Því skuli lagður fasteignaskattur á þann hluta mastranna en annar hluti vindorkuveranna telst því vera rafveita í skilningi 3. tl. 36. gr. laga nr. 6/2002 og því undanþeginn fasteignamati. Ekki er þar fleginn feitur göltur.

Á Borgarnesfundinum var kynnt hver yrði samanlagður ábati ríkis og sveitarfélaga væri af verkefnum sem þessum á næstu þrjátíu árum. Um það er að segja að það veit enginn hvað gerist á næstu þrjátíu árum í þessum efnum. Því eru það hreinir loftkastalar að bera slíkt á borð. Síðan var náttúrulega ekkert minnst á hvaða kostnaður gæti og muni falla þar á móti. Slíkir útreikningar fengju ekki háa einkunn í þeim skólum sem hefðu lágmarks metnað hvað varðar fagmennsku.

Umhverfisáhrif vindorkuvera

Á fundinum var spurst fyrir um förgun vindmylluvængja að endingartíma loknum. Fullyrt var að mengun af þeim væri engin og þeir væru endurunnir. M.a. var það upplýst að vængir ónýtra raforkuvera úr Þykkvabæ hefðu verið fluttir til Danmerkur í þessu skyni.

Eftir fundinn leitaði ég fyrir mér á netinu vegna ýmissa þeirra upplýsinga og fullyrðinga sem komu fram á fundinum. Það þurfti ekki að leita lengi til að finna samþykkt Norðurlandaráðs frá því í fyrra (2021) þar sem hvatt er til að þau hinna norrænu ríkja, sem hafi mikinn fjölda vindorkuvera innan sinnar lögsögu, vinni saman að því að leita lausna á þeim sívaxandi vanda sem snýr að förgun vængja af vindorkuverum og er óleystur. Síðan má ekki gleyma þeirri mengun sem byggist upp í nærumhverfinu af því örplasti sem veðrast af vængjunum. Um það mál er fljótlegt að finna nokkrar skýrslur á netinu. Í þessu sambandi má t.d. minna á að í Borgarfirðinum er að finna nokkrar gjöfulustu og verðmætustu laxveiðiár landsins.

Ekki má í þessu sambandi gleyma þeim gríðarlegu jarðvegsframkvæmdum sem nauðsynlegar eru við uppbyggingu 250 – 300 metra háa vindorkuvera. Vængir þeirra eru 70-80 metra langir. Þeir eru hver og einn tugir tonna að þungd. Vængirnir eru fluttir í heilu lagi á byggingarstað. Það þarf því að leggja í gríðarlega vegagerð svo það verði mögulegt. Það er því ekki að ástæðulausu að mikil andstaða vegna óendurkræfra umhverfisáhrifa, sem fylgir uppbyggingu vindorkuvera, hefur byggst upp í Noregi.

Að lokum

Undir lok fundarins var spurst fyrir um hvort ætti að selja rafmagnið í væntanlegum vindorkuverum úr landi í gegnum sæstreng. Allir fulltrúar innrásarvíkinganna sögðust andvígir því. Hver trúir svona löguðum fullyrðingum? Í fyrsta lagi munu þeir ekkert hafa um það að segja þegar sú stund rennur upp. Í öðru lagi vaknar sú spurning hvers vegna sé svo gríðarleg ásókn í að reisa vindorkuver í landi þar sem er langlægsta raforkuverð í Evrópu? Spyr sá sem ekki veit.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta mál að sinni. Miðað við þann anda sem sveif yfir Borgarnesfundinum, sem haldinn var þann 19. september sl., þá þætti mér við hæfi að næsti fundur yrði auglýstur á eftirfarandi hátt, kannski með smá staðfæringum:

Jón Kristófer, kadett í Hernum!

í kvöld verður samkoma háð,

og Lautenant Valgerður vitnar

um veginn að Drottins náð.

Og svo verður sungið og spilað

á sítar og mandólín tvö.

Ó, komdu og höndlaðu Herrann,

það hefst klukkan rúmlega sjö.

 

Gunnlaugur A Júlíusson, hagfræðingur