Stórsókn í samgöngumálum – nýr Baldur og Sundabraut strax!

Bergþór Ólason

Mikilvægi góðra vega hefur aldrei verið mönnum ljósara en nú. Hægt hefur gengið undanfarinn rúman áratug að koma nýframkvæmdum áfram, vegna skorts á fjármagni í sumum tilvikum og vegna skipulagsmála í öðrum.

Hér á Vesturlandi blasa við okkur verkefni sem eru þeirrar gerðar að þau munu gjörbylta lífsgæðum íbúa og stórauka möguleika til verðmætasköpunar.

Fremst í þeirri röð er breikkun hringvegarins frá Hvalfjarðargöngum upp í Borgarnes, þar sem rétt er að bera saman veglínu austan og vestan megin við Akrafjall. Stórátak hvað malarvegi í sveitum varðar og nýr vegur um Uxahryggi, sem mun tengja saman Suðurland og Vesturland og opna þannig fyrir nýjar hringtengingar ferðaþjónustuaðila. Staða Skógarstrandarvegar er með þeim hætti að skömm er að, enda um stofnveg að ræða.

Staða Sundabrautar er mikið áhyggjuefni, enda segir formaður skipulagsráðs Reykjavíkurborgar að engin ákvörðun verði tekin í þeim efnum fyrr en svokölluð félagshagfræðingreining liggur fyrir, það er því ljóst að síðasta minnisblað samgönguráðherra og borgarstjóra var enn einn tafaleikurinn. Við viljum Sundabraut strax og enga frekari tafaleiki, enda er Sundabrautin arðsamasta vegaframkvæmdin sem okkur stendur til boða.

Miðflokkurinn leggur til að við færum vegakerfið til nútímans og það strax. Við gerum það með því að nýta það vaxtaumhverfi sem ríkissjóður býr nú við til fjármögnunar innviðaframkvæmda. Við ætlum að fara í 150 milljarða króna skuldsettan framkvæmdapakka í vegamálum. Þannig komumst við áfram.

Með því að flýta nýframkvæmdum í vegamálum með svo afgerandi hætti næst fram mikill sparnaður því slysum á vegunum fækkar, tjón ökutækja dregst saman og umferðin flæðir betur ásamt því að bætt vegakerfi hefur jákvæð áhrif á þróun loftslagsmála.

Fjármögnun yrði í gegnum samgönguáætlun sem samþykkt er á Alþingi – rétt eins og gert hefur verið í tilviki samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Stjórnvöld þurfa þá að útfæra endurgreiðslu með sem haganlegustum hætti, hvort sem um væri að ræða skuggagjöld sem miða út frá sparnaði annars staðar í opinbera kerfinu, beinum framlögum af samgönguáætlun eða með sérstakri fjármögnun með umbreytingu ríkiseigna í verðmæta eign í vegakerfinu.

Nýr Baldur

Hrakfarir Breiðfjarðarferjunnar Baldurs á kjörtímabilinu hafa verið með þeim hætti að ekki er forsvaranlegt annað en að ganga til þess verks að kaupa nýtt skip. Miðflokkurinn leggur þunga áherslu á að það verði gert strax við upphaf nýs kjörtímabils, enda þarfnast það góðs undirbúnings, þannig að nýtt skip sé tilbúið í síðasta lagi þegar núverandi samningur um Breiðfjarðarsiglingar rennur út og mögulega fyrr með það í huga að skipta út núverandi skipi með sérstöku samkomulagi við rekstraraðila þess.

 

Bergþór Ólason

Höf. er alþingismaður og oddviti Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi.

Fleiri aðsendar greinar