Stóriðjan og ábyrgð stjórnvalda

Guðjón S Brjánsson

Stóriðjan hefur verið líkt og heit kartafla undanfarin ár, m.a. í opinberri umræðu. Í vaxandi mæli hefur verið togast á um mengunarmál og loftslagsþáttinn en sérstaklega þó um orkuverð. Í því efni er engin spurning að landsmenn þurfa og eiga að krefjast eðlilegs verðs fyrir selda raforku. Þjóðarbúið þarf á því að halda.

Uppbygging á Grundartanga

Stóriðjan hefur haft gríðarlega mikil áhrif á íslenskum vinnumarkað, stuðlað að festu og atvinnuöryggi hjá þúsundum einstaklinga og víða haft úrslitaáhrif, skapað ný störf og verkefni, jafnvel í ólíkum greinum.

Á öflugu athafnasvæði á Grundartanga eru afar mikilvæg fyrirtæki, bæði í þjóðhagslegu tilliti og fyrir atvinnulíf á suðurhluta Vesturlands. Áhyggjur eru hins vegar uppi um að starfsemi þessara fyrirtækja sé ekki tryggð til framtíðar vegna minnkandi samkeppnishæfni orkusækins iðnaðar.

Græn og væn framtíð

Þróunarfélag Grundartanga var stofnað fyrir 5 árum en hlutverk þess er að stuðla að þróun og uppbyggingu á atvinnusvæðinu.  Á vegum félagsins er nú unnið hörðum höndum að ýmsum verkefnum í græna og umhverfisvæna átt. Dæmi um það er nýting á glatvarma til uppsetningar á hitaveitu eða jafnvel í raforkuframleiðslu. Sömuleiðis er unnið að þróun og vinnslu á svokölluðu rafeldsneyti til notkunar á bílum og skipum sem er áhugavert verkefni sem nýlega hlaut lítilsháttar fjárstuðning stjórnvalda.

Lykill að lausnum?

Á þessum sviðum geta leynst ýmis mikilvæg skref og jafnvel svör við loftslagsvanda Íslands sem verða stöðugt ágengara umfjöllunarefni.  Þetta gæti að auki skapað fjölmörg störf með lítið umhverfisspor. Mögulegt yrði ef vel tekst til að hita upp allt að 15.000 hús. Með föngun kolefnis úr útblæstri verksmiðjanna og með framleiðslu á kolefnishlutlausu eldsneyti væri þannig mögulegt að minnka kolefnisspor Íslands um jafnvel 12% eða u.þ.b. 450.000 tonn af koltvísýringi.

Það er því mikilvægt að stjórnvöld komi með öflugum hætti til móts við sprotastarfsemi og fyrirtæki sem vinna af kappi í þessa veru. Athafnasvæðið á Grundartanga er þarna kjörinn vettvangur, getur orðið fyrirmynd og tryggt starfsemina til langrar framtíðar í sátt við umhverfið.

Ábyrgð stjórnvalda

Óhreinu börnin hennar Evu og stóriðjan eru oft nefnd í sömu andránni, að stóriðjan sé tímaskekkja og þurfi að víkja hið fyrsta. Því skal haldið til haga að þessari mikilvægu starfsemi var komið á fót hér á sínum tíma með vilja stjórnvalda og jafnvel fyrir áeggjan og að frumkvæði þeirra. Ábyrgð stjórnvalda er því mikil og stjórnvöld verða að haga orðræðu sinni og athöfnum með það í huga, það er mikið í húfi. Við eigum hins vegar að vera einörð í kröfunni um loftslags- og umhverfisþættina.  Þar eru ófrávíkjanleg markmið sem vinna verður að, og mörg tækifæri eru enn ósótt.

Guðjón S. Brjánsson

Höf. er alþingismaður Samfylkingarinnar í NV kjördæmi.

Fleiri aðsendar greinar