Stöndum meðan stætt er

Steinunn Inga Óttarsdóttir

Kennsla hófst í Fjölbraut í dag eins og í langflestum framhaldsskólum landsins. Það er fimmta önnin sem skólastarf er í kófi. Nýr menntamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason (sem eitt sinn var nemandi í FVA) var ómyrkur í máli þegar hann tilkynnti skólameisturum á fundi fyrir áramót að það væri skýr stefna að hefja staðnám skv. skóladagatali í framhaldsskólum landsins þrátt fyrir að smit væru í sögulegu hámarki. Það er heilladrýgra að mati ráðherra, og skynsamlegt að mati skólameistara FVA, að halda rútínu, mæta á staðinn, hitta skólasystkini og stunda skólann að öllum sóttvörnum uppfylltum; mun betri kostur en að vera heima í fjarnámi þegar horft er til þeirrar þjónustu sem menntastofnunum er skylt að veita, velferðar nemenda, andlegrar líðunar þeirra og geðheilsu. Um leið er ítrekað að huga einnig vel að kennurum sem hafa haldið uppi kennslu við krefjandi aðstæður síðastliðin tvö ár.

Skiljanlegt er að nemendur og kennarar hafi áhyggjur af útbreiðslu veirunnar og hugnist kannski best að halda sig heima eins og gert var áður. En munurinn núna er sá, að 90% landsmanna 12 ára og eldri eru tví- og þríbólusett sem dregur úr hættunni og þörf fyrir fjarkennslu sem úrræði. Vissulega er smithætta enn mikil og fólk veikist en það er mikilvægast eins og alltaf að fylgja sóttvarnareglum í hvívetna og taka ábyrgð á sjálfum sér. Enn er það úrræði að snara yfir í fjarkennslu til í verkfærakistunni en vonandi þarf ekki að beita því oftar. Óvissan er mikil en þó er fyrirséð að sóttkví fyrir bólusetta mun styttast. Sífellt fleiri verða ónæmir fyrir veirunni eftir því sem tíminn líður og á endanum deyr hún út, það er bara spurning um tíma og bjartsýni.

Ráðherra hvetur til þess að auðvelda nemendum, sem þurfa að fara í sóttkví eða einangrun vegna veirunnar en eru þokkalega frískir, að nálgast námsefni og skila verkefnum þótt þeir séu fjarverandi og er það haft til hliðsjónar við gerð kennsluáætlana vorannar í FVA. Ekki er gerð krafa um að kennslustundum í staðnámi sé streymt.

Öryggi, heilsa og velferð nemenda og starfsmanna skólans skipta öllu máli. Starfsemi skóla er sannarlega viðkvæm eins og staðan er. Skólahald getur raskast á komandi vikum, bæði hjá nemendum og kennurum, vegna útbreiðslu veirunnar í samfélaginu. Það er ljóst að veiran er ekki á förum alveg á næstunni, við verðum að lifa með henni og nú sækjum við fram en förum ekki í vörn fyrr en í fulla hnefana. Enn hefur ekkert smit komið upp í FVA og skólinn er ágætlega öruggur staður með öllum smitvörnum. Enginn er óhultur og allt getur gerst á tímum kófsins. Óttinn getur læðst að og lamað okkur, smit og veikindi geta komið upp, sóttkví þrengt að okkur tímabundið og við upplifað vanmátt og varnarleysi. Þá er mikilvægt að leita sér hjálpar, t.d. hjá öflugri stoðþjónustu FVA.

Forseti Íslands hvatti landsmenn í nýársávarpi sínu til að sinna sál og líkama eftir bestu getu og tala við vini, ættingja og aðra ef kvíði eða önnur angist sækti á. Það er gott ráð.

Við skulum öll hjálpast að og standa meðan stætt er.

 

Steinunn Inga Óttarsdóttir

Höf. er skólameistari Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi.

Fleiri aðsendar greinar