Stofnun og starfsfólk ársins

Helga K Haug Jónsdóttir

Ég tilnefni Heilbrigðisstofnun Vesturlands, ásamt fólkinu sem þar vinnur, stofnun ársins! Alltof mikið hefur heilbrigðiskerfið verið talað niður í fréttum síðasta árið, sem er sorglegt. Auðvitað má finna frávik þar sem mannleg mistök verða og ekki eru allir alltaf ánægðir, ekki síst þar sem niðurskurður hefur átt sér stað. En þrátt fyrir allt er fólk í flestum tilfellum ánægt. Við einblínum oft of mikið á það sem illa fer og gleymum þessu góða.

Nú í haust fæddi ég barn á fæðingadeildinni hér á Akranesi og get ég ekki annað en hrósað þeim fæðingalæknum, ljósmæðrum og sjúkraliðum sem ég og maðurinn minn höfum haft samskipti við, bæði á meðgöngu og í fæðingu barns okkar. Þar á eftir kom heimaþjónustan sem var ómetanleg, síðan ungbarnaeftirlitið þar sem barninu er fylgt eftir undir eftirliti þangað til það verður stálpað.

Í samskiptum mínum við starfsfólk upplifði ég yndislega framkomu fólks sem er fagfólk fram í fingurgóma. Það var svo natið og alltaf passað vel upp á allt. Við fengum þjónustu sem var óaðfinnanleg í alla staði og aðstaðan var til fyrirmyndar. Kjararáð ætti að semja um laun fyrir þetta fólk því það vinnur svo sannarlega fyrir kaupinu sínu og gefur mikið af sér. Er slíkt oft vanþakkað.

Ekki er furða að konur flykkist á Skagann til að fæða börn sín og komast færri að en vilja. Að fá þessa þjónustu er ómetanlegt og það tel ég til vitnis um að ég búi í velferðarþjóðfélagi, því víða í heiminum er svona þjónusta einfaldlega ekki til staðar.

Auðvitað er sorglegt að skorið hafi verið niður víða á landsbyggðinni og á mörgum stöðum svo gott sem búið að leggja niður fæðingaþjónustu. Ég vona að ráðin verði bót í máli, en á Akranesi er þessi þjónusta til staðar og gott betur en það. Því vil ég segja að þar sé veitt toppþjónusta. Um leið vil ég þakka fyrir mig og mína.

 

Helga K Haug Jónsdóttir.

Fleiri aðsendar greinar