Stjórnleysi í framkvæmdum

Davíð Sigurðsson

Í síðustu grein minni fjallaði ég um óhóflegar framúrkeyrslur vegna hönnunar á lóðum sem fóru langt fram úr öllum þekktum framúrkeyrslu stærðum í hinu fræga Braggamáli í Reykjavík. Eftir að hafa fengið ábendingar um það þá finn ég mig knúinn til þess að leiðrétta þá rangfærslu hjá mér í þeirri grein að á Kleppjárnsreykjum var um að ræða hönnun lóðar fyrir bæði leik- og grunnskólann, en ekki eingöngu leikskólann, eins og ég skrifaði. Þetta kemur fram í minnisblaði um kostnað við hönnun lóða sem lagt var fram á 540. fundi byggðarráðs. Ég biðst forláts á þessu.

Nú er hins vegar komið svo að ekki verður lengur setið hjá án þess að reifa annað mál sem er ennþá stærra í upphæðum. Er þetta mál enn frekari staðfesting þess efnis að meirihlutinn í Borgarbyggð ræður engan veginn við verkefni sitt. Framúrkeyrslur á framúrkeyrslur ofan allt á kostnað íbúa sveitarfélagsins. Grundvallaratriðið er það að meirihlutann skortir yfirsýn yfir þau verkefni sem hann er að framkvæma.

Hærra og hærra og hærra

Málið sem farið verður ofan í hér á eftir snýr að óhóflegum framúrkeyrslum við viðbyggingu og endurbætur við Grunnskólann í Borgarnesi. Tekið skal fram að það var fyrir löngu síðan orðið nauðsynlegt að fara í þær framkvæmdir sem farið var í við Grunnskólann í Borgarnesi. Gagnrýnin snýr ekki að verkefninu sjálfu heldur að stjórnun meirihlutans. Til þess að rekja málið örlítið, þá fór verkefnið af stað árið 2014, en það var síðan samþykkt á fjárhagsáætlun haustið 2017 að fara af stað í að byggja við skólann og gera endurbætur á eldra húsnæði eftir að kostnaðaráætlun vegna verkefnisins lá fyrir. Í framkvæmdaáætlun sem samþykkt var fyrir árið 2018 kom fram að fjárframlög til verkefnisins væru samtals 560.000.000 kr. á árabilinu 2018-2021. Inni í þessu var viðbygging, endurbætur og hönnun. Tekið skal fram að þessar tölur liggja fyrir eftir að kostnaðarmat verkefnisins var unnið af fagaðilum. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þetta var samþykkt og er staðan nú sú að kostnaðurinn er 1.242.676.193 kr.

Munurinn á þeim tölum sem lagt var af stað með eru litlar 682.676.193 kr. Þetta segir okkur að kostnaðurinn sem er kominn umfram upphaflegt kostnaðarmat er hærri heldur en upphaflega áætlunin. Ef skoðað væri prósentuhlutfall frá upphaflegri áætlun er um að ræða 222% hærri upphæð en í upphaflegri áætlun. Til samanburðar þá má geta þess að heildar fasteignagjöld greidd til Borgarbyggðar árið 2019 voru 521.931.000.

Þegar verkið hafði verið boðið út var verktakakostnaður 754.431.023 kr. Sú tala er komin í 920.051.502 kr. Þar af eru rúmar 40 milljónir tilkomnar vegna meiri rakaskemmda en gert var ráð fyrir. Síðan þá hefur bæst við verkið 107.590.605 kr. í auka- og viðbótarverk sem tengjast þá ekki rakaskemmdunum og 163.523.351 kr. í hönnun, eftirlit og annan kostnað. Alls eins og áður hefur komið fram er verkið komið í 1.242.676.193 kr. með verðbótum samkvæmt upplýsingum frá byggingarnefnd grunnskólans. Þetta er fyrir utan allan kostnað við lóðaframkvæmdir. Sem verður betur farið í síðar.

Mölbrotið verklag

Ekki hefur farið mikið fyrir þessum kostnaðarhækkunum í umræðunni enda gerist þetta hægt og hljótt með viðaukum og hækkunum á kostnaðaráætlunum sem lítið fer fyrir en fíllinn í herberginu er verklagið og utan um haldið sem er ekki fullnægjandi. Þegar kostnaður hækkar svona þarf meirihlutinn að axla ábyrgð í málinu. Eftir alla viðaukana og allar hækkanirnar sem gerðar hafa verið jafnt og þétt í gegnum ferlið, vegna þess að enginn verkþáttur stóðst áætlun átti heildarkostnaður að viðbættum verðbótum að vera 1.073.470.540 kr. en endaði í 1.242.676.193 kr. Sem eftir alla viðaukana og hækkanirnar er framúrkeyrsla upp á 169.205.653 kr.

Hvað kostar þetta bíó þína fjölskyldu?

Þegar þessi framúrkeyrslu kostnaður er skoðaður á íbúa kemur margt áhugavert fram. Ef miðað er við íbúafjölda 1. janúar 2020 þá hefur framúrkeyrslan frá upphaflegri fjárhagsáætlun ársins 2018 kostað hvern íbúa 177.226 kr. og ef skoðað er hvað framúrkeyrslan frá síðustu uppreiknuðu áætlun verksins, eftir alla viðaukana og hækkanir áætlana, þá kostar hún hvern íbúa 43.927 kr. Þetta hefur semsagt kostað mína fjölskyldu sem telur fimm manns 886.132 kr. miðað við fyrstu áætlun en 219.634 kr. miðað við seinustu áætlun. Þetta eru dýrir bitar. Sérstaklega ef við bætum við 35.045 kr. sem lóðahönnunarbíóið sem ég fjallaði um í síðustu grein minni hefur kostað fjölskyldu mína. Þessar tölur er til marks um það að meirihlutinn í Borgarbyggð er ekki fær um að framkvæma og væri best að þau myndi láta vera að fara í fleiri framkvæmdir svo íbúarnir muni ekki lenda í skattaánauð næstu áratugina. Þetta er falleinkun fyrir stjórnun Borgarbyggðar og það sem er dapurlegt er að þetta er ekki fyrsta falleinkunin sem meirihlutinn fær en ekkert breytist. Enginn tekur ábyrgð á málum og enginn kjörinn fulltrúi virðist ætla að axla ábyrgð á klúðrinu.

 

Davíð Sigurðsson

Höf. er sveitarstjórnarfulltrúi Framsóknarflokksins í Borgarbyggð.

Fleiri aðsendar greinar