Stjórnarskrár umræðan

Hafsteinn Sigurbjörnsson

Nú hefur forsætisráðherrann kvatt til umræðu um endurskoðun á Stjórnarskrá Íslands. Það er virðingarvert og langar mig til að leggja mínar hugmyndir fram að framtíðar Stjórnarskrá fyrir þjóðina.

Eins og allir vita er svonefnt fulltrúalýðræði gengið sér til húðar hér sem og víða annarsstaðar. Það sást best hér á síðasta þingi þegar þingmenn, eftir drykkju á bjórkrá í vinnutíma sínum, voru reknir úr sínum flokki, en sátu áfram á þingi, ekki sem utanþingsmenn, heldur fóru þeir í annan stjórnmálaflokk og sviku þannig kjósendur sína. Þetta komust þeir upp með í skjóli þess að þingmenn eru friðhelgir á milli alþingiskosninga.

Svo til allar þjóðir Evrópu kenna stjórnskipun sína við lýðræði með því að þjóðin kjósi fulltrúa til valdastofnana. Yfirleitt er aðeins kosið til tveggja helstu valdastofnana þ.e. löggjafarvaldsins og forsetavaldsins. Allar þessar Evrópuþjóðir að undaskyldum Bretum hafa Stjórnarskrá, sem byggist fyrst og fremst á hinu þrískipta valdi landsstjórna (löggjafarvaldi, framkvæmdavaldi og dómsvaldi) sem til varð eftir frönsku stjórarbyltingunni árið 1789.

En þar sem þjóðin kýs aðeins til tveggja valdastofnana hér á landi þá verður annað hvort forsetinn eða löggjafarvaldið að skipa aðila í dómsvaldið og framkvæmdavaldið. Hér á landi er það löggjafarvaldið (Alþingi), sem skipar í framkvæmdavaldið, þ.e. ráðherra í ríkisstjórn landsins. Þegar tveir til þrír flokkar eða fleiri hafa náð samkomulagi um stjórnarsáttmála hjá meirihluti fulltrúa Alþingis þá skipa þeir oftast úr sínum röðum forystumenn þeirra flokka sem að sáttmálanum stóðu í framkvæmdavaldið, það er ráðherra í ríkisstjórn landsins. Ekki nóg með það því framkvæmdavaldið þ.e. einhver ráðherranna skipar svo í dómsvaldið þ.e. alla dómara landsins. Hér er því ekki um þrískipt sjálfstætt valdsvið að ræða heldur einveldi framkvæmdavaldsins, þ.e. ráðherraræði.

Í komandi stjórnarskrá þarf því eftirfarandi að vera til staðar:

Í fyrsta lagi. Að þjóðin kjósi sérstaklega, til löggjafarvalds (Alþingis), framkvæmdavalds (ríkisstjórnar) og dómsvaldsins (í alla dómstóla landsins). Þá þarf skýrt að koma fram að sérkver kjörinn fulltrúi í þessar valdastofanir megi aðeins starfa í einni þeirra.

Í öðru lagi. Um eignarrétt Stjórnarskrárinnar þurfa að vera skýr og glögg ákvæði sem eru; að öll mannanna verk eru séreign einstaklings, samtaka eða annarra manna sem skópu þau. T.d. í listum, byggingum og öðru sem hugur og hönd hafa skapað. Þau ganga kaupum og sölum eins og lög leyfa. En allar náttúruauðlindir landsins eru sameign þjóðarinnar.  Allt vatn, kyrrstætt, rennandi, hreint eða óhreint og kalt eða heitt. Allt land frá stórstraumsfjöru til hæstu fjallatoppa og allar auðlindir sjávar á og í botni hans í 200 sjómílna lögsögu þjóðarinnar.

Í þriðja lagi. Að þjóðin fái að kjósa um málefni er varða almenning hvenær sem er ef 2% eða fleiri kosningabærra kjósenda óska þess.

Í næstu grein minni ætla ég að rökstyðja og skýra frekar þessar hugmyndir og nefna fleiri, til dæmis öldungaráð.

Hafsteinn Sigurbjörnsson.

Fleiri aðsendar greinar