Stjórn FEBAN á villugötum

Jóhannes Ingibjartsson

Í Skessuhorninu hinn 8. febrúar síðastliðinn birtist grein undir fyrirsögninni; „Fjölnota frístundamiðstöð á teikniborðinu.“ Þar er frá því sagt að golfkúbburinn Leynir hyggist byggja félagsmiðstöð við golfvöllinn og að uppi séu hugmyndir um samstarf við FEBAN, félag eldri borgara, um afnot af sal heimilisins. Ekki er annað að skilja en þessari hugmynd hafi verið vel tekið af stjórn FEBAN og gefur fyrirsögnin a.m.k. kosti til kynna að um slíkt geti tekist gott samstarf þessara tveggja félagssamtaka.

Í Skessuhorninu er jafnframt vísað í fréttabréf FEBAN þar sem haft er eftir formanni félagsins að svo langt sé í að draumurinn um þá félagsaðstöðu sem lofað var að Dalbraut 6 verði að veruleika, að hann „verði að bíta i það súra epli“ og sætta sig við að slíkt verði „ekki í náinni framtíð“. Ekki er annað að skilja af orðum formannsins en að bréflegt tilboð golfklúbbsins um afnot af nokkru stærri sal, en FEBAN hefur nú við Kirkjubraut, sé sú lausn sem félagið muni stökkva á.

Undirritaður sem setið hefur í samstarfshópi FEBAN við Akraneskaupstað í átta undanfarin ár getur ekki látið hjá líða að stinga niður penna, þegar slíkar fregnir berast, og það frá stjórn félagsins.  Fyrir um það bil fjórum árum sátum við tveir fulltrúar FEBAN í vinnuhópi með þáverandi forsvarsmönnum allra sitjandi flokka í bæjarstjórn og leituðum leiða til þess að leysa húsnæðisvanda FEBAN og þess félagsstarfs sem Akraneskaupstaður stendur fyrir fyrir aldraða og öryrkja. Þá knúðu fulltrúar golfklúbbsins dyra og kynntu fyrir okkur sams konar hugmynd og nú virðist vera uppi á borðinu. Þeirri hugmynd var þegar hafnað af bæjarfulltrúunum þar sem hún fól ekki í sér neina lausn á þeim vanda sem takast þarf á við varðandi áðurnefndan hóp. Það virðist vera skoðun margra og af Skessuhorninu má ráða að það sé jafnvel skoðun formanns FEBAN að félagslegan húsnæðisvanda félagsins megi leysa með stærri salarkynnum, sem taka um 200 manns, eins og segir í greininni að golfklúbburinn sé að bjóða upp á þarna við ystu bæjarmörk. Ekkert er fjær sanni.

Það hefur verið samhljóða skoðun bæjarstjórnar Akraness og FEBAN um langt árabil að uppbygging félagsheimilis fyrir aldraða og öryrkja skuli fylgjast að. Að því hníga mörg rök. Það er öllum ljóst hversu félagsleg virkni þessarra tveggja hópa er mikilvæg. Hún stuðlar að bættri heilsu, ánægjulegra lífi, rýfur félagslega einangrun o.s.fv. Hitt er einnig jafnljóst að það er alls ekki auðvelt að virkja þessa hópa. Í könnun á vegum Reykjavíkurborgar sem birt var nú í fyrstu viku febrúar sl. kemur fram að um þriðjungur aldraðra lýsir yfir einmanaleika og einangrun.

Með sameigninlegri félagsmiðstöð fyrir aldraða og öryrkja hefur verið stefnt að því að stjórn félags- og heimaþjónustu kaupstaðarins hefði þar aðsetur og unnið væri markvisst að því sameiginlega átaki bæjarins og FEBAN að virkja sem flesta í þessum vaxandi hópi til margs konar félagsstarfa og er þá ekki aðeins um að ræða þá afmörkuðu þætti sem núverandi húsnæði gefur færi á, heldur einnig myndun ýmiss konar áhugahópa, heilsueflingu og fræðslunámskeið hvers konar. Með öðrum orðum hvað sem verða má til þess að auka félagsvirkni viðkomandi. Þá hefur einnig verið bent á mikilvægi þess að félagsheimilið verði miðsvæðis þannig að menn geti droppað inn, til blaðalesturs, til að fá sér kaffisopa og spjalla, grípa í snóker eða tafl, o.s.fv. Með öðrum orðum að þar yrði mynduð ein aðlaðandi heild þar sem allir þræðir félagsþjónustunnar koma saman.

 

Nú virðist golfklúbburinn enn á ný hafa reynt að ríða sínum Trójuhesti inn í herbúðir FEBAN til að lokka þá til fylgis við sig. Það liðkar áreiðanlega fyrir klúbbnum í baráttu sinni við  að fá bæjarstjórn til þess að leggja fé í reisulegan golfskála (sem þeir hafa sannarlega þörf fyrir). Vel má vera að einhverjum bæjarfulltrúum finnist þetta snjöll hugmynd. Það gefur þeim a.m.k. tækifæri til að réttlæta það, að ekki sé ráðist í framkvæmdir við sameiginlega félagsaðstöðu við Dalbraut að sinni. Hitt sýnist mér öllu verra, að af fréttabréfi FEBAN virðist ljóst, að stjórn félagsins hyggst kasta algjörlega fyrir róða þeirri stefnu, sem lýst er hér að framan um samtvinnun þessara tvegga starfseininga, sem er grundvöllur þess að hægt sé að tala um alhliða félagsheimili. Þess í stað lætur stjórnin líta út fyrir, þegar fréttabréfið er lesið, að hún sé að gera þetta af þóknun við bæjarstjórn. Vel má vera að svo sé. Hún telur sig a.m.k. geta sett bæjarstjórn kosti varðandi það að öðrum þáttum félagsstarfsins en stórum sal verði komið fyrir einhvers staðar á víð og dreif í bænum. Skítt með samstarfið við félagsstarf kaupstaðarins og öll þau rök sem styðja þá samtvinnun. Enda gefi bæjarstjórn líka út yfirlýsingu þess efnis að ekki verði fallið frá hugmynd um einhvers konar félagsheimili við Dalbrautina einhvern tímann síðar. Það plagg yrði álíka skuldbindandi og núverandi bæjarstjórn álítur kaupin á Dalbraut vera. Einskis virði er á reyndi. Á kynningarfundi í Grundarskóla í síðustu viku taldi hönnuður skipulags Dalbrautarreitsins, Árni Ólafsson arkitekt, hugsanlegt að uppbygging reitsins tæki 15 – 20 ár. Hún er langlynd og metnaðarfull stjórn FEBAN.

 

Svona vinna menn ekki. Hér er er verið að vinna skemmdarverk sem seint verður leiðrétt eða bætt. Ákvörðun sem stjórn félagsins getur alls ekki tekið  nema með samþykki almenns félagsfundar. Stjórnin var kosin til þess að fylgja þeirri að mestu fullmótuðu stefnu, hvað sem á dyndi, uns því máli væri komið í höfn, að byggja upp heildstæða og mannsæmandi félagsaðstöðu við Dalbraut 6 (eða á öðrum jafngóðum stað). Hafi þau ekki getu eða vilja til þess og vilji heldur varpa vinnu undanfarinna ára fyrir róða, fullyrði ég, að það sé þvert á hagsmuni félagsins. Því tel ég stjórnina ekki hafa neitt  umboð til þess að gjörbreyta um stefnu í þessum málum. Slíkt er ekkert annað en ofbeldi gagnvart félagsmönnum.

Það hefur einnig vakið verulega athygli, að eftir að ljóst var að bæjarstjórn hugðist ekki setja eina krónu næstu fimm árin í byggingu félagsheimilis aldraðra og öryrkja, hefur hvorki heyrst hósti né stuna frá stjórn FEBAN  til þess að andmæla þeirri gjörð. Það er eins og stungið hafi verið upp í forsvarsmenn félagsins. Hvað veldur?

 

Hið súra epli, sem formaður FEBAN telur sig verða að bíta í er augljóslega það, að hann situr uppi með bæjarstjórn sem hefur, andstætt þeirri sem sat á síðasta kjörtímabili og afhenti FEBAN formlega húsið að Dalbraut 6 til eignar, engan áhuga á að fylgja eftir þeirri stefnu sem mörkuð var með kaupum á húsinu. Strax við upphaf  kjörtímabilsins lýstu forsvarsmenn bæjarstjórnarinnar yfir megnustu óánægju með gjörðir og fyrirheit fyrri bæjarstjórnar. Af gerðum þeirra nú má öllum vera ljóst að ekkert þeirra hefur kjark eða vilja til þess að standast áhlaup íþróttahreyfingarinnar um fé til framkvæmda, þótt það kosti það að aðrir sitji eftir. En bæjarstjórn Akraness skal vita og gera sér fullljóst að hún var ekki kosin til þess að mismuna fólki eftir aldurshópum. Henni ber full skylda til þess að sinna áhugamálum okkar sem eldri erum jafnt sem hinna. Og það ætti svo sannarlega að vera forgangsmál hennar að halda okkur virkum svo lengi sem kostur er. Við sættum okkur ekki lengur við sæti „hornkerlingar“. Okkar tími er löngu kominn. Og stjórn FEBAN , sem virðist skelfingu lostin yfir stöðunni, má minnast þess, að sameinuð getum við þvert á flokka veitt okkar pólitísku fulltrúum fullt aðhald og bundið endi á þetta óréttlæti. Það eru kosningar á næsta ári. Og þótt formaðurinn „bíti í“ súrt eplið, þarf hann ekki að kyngja þeim bita, það er hægt að skyrpa honum út úr sér og segja: „Nei takk, ágæta bæjarstjórn.“

 

Jóhannes Ingibjartsson

Fleiri aðsendar greinar