Stiklur um menningarstarf á Vesturlandi í sumar
Elísabet Haraldsdóttir
Á Vesturlandi er ótalmargt á döfinni sem tengist menningu og listum í sumar. Öflugt vel menntað fólk kemur með nýja sýn og áherslur í menningarlíf Vesturlands sem státar af einstökum menningararfi. Þá er einnig gaman að fá tækifæri til þess að hlusta á okkar fólk, sem alla jafnan býr erlendis við störf og nám.
Guðrún Ingimarsdóttir og Elmar Gilbertsson koma á heimaslóðir með píanóleikaranum Önnu Guðnýju Guðmundsdóttur. Þá eru einnig ungir listamenn sem eru að ljúka framhaldsnámi í tónlist erlendis sem halda tónleika á heimaslóðum. Reynir Hauksson gítarleikari hefur nýlokið tónleikaröð á Vesturlandi, Sigrún Björk Sævarsdóttir óperusöngkona mun halda tónleika í Stykkishólmskirkju í haust og Unnsteinssons Quartet sem Örn Ingi Unnsteinsson leiðir heldur tónleika í Grundarfirði og víða á Snæfellsnesi.
Það hefur verið áhugavert að fylgjast með Snorrastofu í Reykholti í gegnum árin, staður sögulegrar menningar og framundan er verið að skipuleggja mikil hátíðarhöld. Reykholtskirkja gegnir miklu menningar hlutverki. Þar fara fram fjölbreyttir tónlistarviðburðir enda hljómburður hennar einstakur. Orgel kirkjunnar sögulegt og hljómfagurt. Þá eru steindir gluggar kirkjunnar einstök listaverk eftir Valgerði Bergsdóttur. Framundan í Reykholti eru tvær stórhátíðar í júlímánuði; Snorrahátíð 15. júlí og Reykholts tónlistarhátíðin 28.- 30. júlí.
Listasafn Páls Guðmundssonar á Húsafelli er sannarlega gaman að heimsækja, einstök list Páls sem tengist oft sveitungum hans og Húsafelli sterkum böndum. Uppbyggingin á Húsafelli og nágrenni er mjög mikil og ótal ævintýri í menningartengdri ferðaþjónustu að skapast þar.
Í Dalasýslu, hefur Minjavernd gert einstakt samkomulag við ríkissjóð um endurreisn bygginga og menningarlandslags í Ólafsdal við Gilsfjörð. Í Ólafsdal hefur Ólafsdalsfélagið haldið Ólafsdalshátíð á sumrin og rekið kaffihús. Mjög skemmtileg listsýning er í húsinu í sumar, Dalir og hólar 2017, þar sem allir þátttakendur sýna list sína, en einnig eru listsýningar vítt og breitt um „Dali og hóla“. Sýningarstjórar eru listamennirnir Þóra Sigurðardóttir (Nýp á Skarðsströnd) og Sólveig Aðalsteinsdóttir. Á Nýp er fræðasetur og aðstaða fyrir listamenn að vinna að skapandi störfum, hönnun og myndlist.
Í Stykkishólmi er ein fallegasta vinnustofa á landinu; Tang og Ris, en þar verður í sumar listsýningin Dirrindí, samstarfsverkefni eigandans Ingibjargar H. Ágústsdóttur og Sigríðar Erlu Gunnarsdóttur, sem einnig rekur vinnustofu og listsýningarsal í Stykkishólmi. Verkstæði hennar Leir-7 og verkstæði Láru Gunnarsdóttur sem heitir Smáfuglar, er sannarlega vert að heimsækja. Nýr listsýningarsalur hefur verið tekinn í notkun í Stykkishólmskirkju. Haraldur Jónsson listamaður er með listsýningu í listasal kirkjunnar, en hann er sonur Jóns Haraldssonar arkitekts kirkjunnar. Sýningin stendur yfir til 20. ágúst. Sýningar eru einnig í Norska Húsinu, Æðarsafninu og Eldfjallasafninu og í Vatnasafni eru listaverk Roni Horn.
Frystiklefann í Rifi í Snæfellsbæ þarf ekki að kynna, en þar hefur verið einstök uppbygging þar sem Kári Viðarsson hefur eflt menningarlíf allra aldurshópa á svæðinu. Árið 2015 fékk Frystiklefinn Eyrarrósina, en það er viðurkenning sem veitt er framúrskarandi menningarverkefni utan höfuðborgarsvæðisins. Þar er stöðug þróun menningarverkefna. Nú stendur yfir leiksýningin Journey to the center of the earth og er hún á ensku. Auk þess er fjöldi öflugra verkefna og viðburða á dagskra í Rifi í sumar; leiksýningar, gesta-leiksýningar og tónlistarhátíðin Rafmagnslaust.
Í Borgarnesi og nágrenni verður í sumar Plan B listsýning ungra listamanna af svæðinu sem skipuleggja listahátíð nú í annað sinn í samstarfi við listamenn víða að úr heiminum. Hátíðin verður haldin helgina 11.-13. ágúst á þremur stöðum í Borgarnesi en einnig rétt fyrir utan Borgarnes í Studio Mjólk í Einarsnesi. Tónlist, innsetningar, gjörningar og listsýningar fara þar fram.
Á Akranesi er fjölmennasta byggðin á Vesturlandi og þar er blómstrandi menning. Allt frá keltneskri sýningu á Safnasvæðinu, lifandi safnaverkefnum svo sem eldsmíði og brennslu í rakúofnum. Kvikmyndahátíðir er í Bíóhöllinni. Þá má nefna tónlistarviðburði svo sem tónleika Kalmansfélagsins, fiðlusveitarinnar Slitinna strengja og jasshátíðir. Auk þess metnaðarfulla viðburði í bókasafnsi bæjarins og allt til einstakra verkefna tónlistarskóla, skóla og leikskóla sem skapa framtíðar listamenn Vesturlands. Í haust verður á Akranesi barnamenningarhátíð í samstarfi við Hvalfjarðarsveit. En þar er ekki bara verið að vinna vel að listsköpun yngra fólksins, heldur er þar árlega valinn listamaður Akraness sem er virðingarvert. Til hamingju Kolbrún Kjarval listamaður Akraness 2017.
Elísabet Haraldsdóttir, menningarfulltrúi.
Ljósmyndir úr safni Skessuhorns.