Stígum skrefið saman

Ragnar Sæmundsson

Með meiri vitund og áhuga á umhverfismálum er fólk í auknu mæli að átta sig á mikilvægi sorpflokkunar og endurvinnslu.

Hagsæld síðustu ára hefur fylgt aukinn úrgangur. Samkvæmt samantekt Sorpu skilur hver íbúi á Íslandi eftir sig um 220 kg af úrgangi á hverju ári. Þrátt fyrir mikla aukningu í endurvinnslu er mikilvægt að setja skýr markmið til þess að draga megi frekar úr urðun úrgangs. Þar þurfa sveitarfélögin að koma til og skapa íbúm það umhverfi sem þarf til þess að flokkun sorps sé ekki íþyngjandi, heldur geti orðið sjálfsagður hluti af daglegu lífi, umhverfinu til hagsbóta.

Þó nokkur sveitafélög hafa sett sér verðug markmið hvað umhverfisvernd varðar og ætti Akraneskaupstaður alls ekki að láta sitt eftir liggja. Við eigum að setja okkur háleit markmið og taka næstu skref. Verum leiðandi samfélag í umhverfisvernd.

Allt sorp sem ekki er flokkað áður en það fer í tunnuna hjá okkur endar á einn eða annan hátt úti í náttúrunni þar sem það brotnar niður á löngum tíma á urðunarstað. Akraneskaupstaður er hluti af Sorpsamlagi Vesturlands sem á jörðina Fíflholt á Mýrum. Þangað fer nær allt sorp af Vesturlandi sem ekki er endurnýtt eða endurunnið á annan hátt. Í Fíflholt fer ekki aðeins sorp af Vesturlandi heldur fer þangað einnig stór hluti heimilissorps frá Vestfjörðum eftir að sorpbrennslan á Ísafirði lokaði. Þar er því urðað gífurlegt magn sorps.

Núgildandi starfsleyfi í Fíflholti gildir til ársins 2028, þó að svæðið sé í dag langt frá því að vera fullnýtt þá kemur að þeirri stund að leita þarf annað með tilheyrandi kostnaði. Þrátt fyrir að starfsemin í Fíflholti virðist hafa gengið vel, má líklega fullyrða að fáir séu áfjáðir í það að gera sína sveit að urðunarstað. Bæjarfélagið okkar hefur því augljósa hagsmuni af því draga úr magni af sorpi sem fer til urðunar til lengri tíma litið. Fyrir utan umhverfissjónarmið og mikilvægi þess að takmarka þau óæskilegu áhrif sem urðun getur haft á umhverfið vega einnig þungt hagræn sjónarmið sem ráðamenn sveitarfélaga þurfa jú ávalt að hafa í huga.

Næstu skref í flokkun þyrftu ekki að vera flókin. Til að mynda mætti koma upp grenndarstöðvum og einnig flokka lífrænan úrgang frá öðru sorpi. Með moltugerð væri hægt að draga úr gífulegu magni sem urðað er og íbúar gætu svo nýtt moltuna í garða og beð og þannig fullkomnað endurvinnsluhringinn.

Við getum verið stolt af því hér á Akranesi að í flestum leik- og grunnskólum er unnið gott starf í þessum málum og vinna flestir skólarnir, ef ekki allir, eftir einhverskonar umhverfisstefnu, þá flagga bæði Akrasel og Brekkubæjarskóli nú grænfánanum. Með meiri fræðslu má gera ráð fyrir aukinni umhverfisvitund næstu kynslóða, sem er frábært!

Sem samfélag getum við gert betur, tökum næstu skref saman, nú er rétti tíminn.

 

Ragnar Sæmundsson

Höf. skipar 2. sæti á lista Framsóknar og frjálsra á Akranesi

Fleiri aðsendar greinar