Sterkur listi – skýr sýn

Katrín Jakobsdóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir

Kosningarnar 29. október eru tækifæri fyrir Íslendinga til að velja breytta stefnu og betra samfélag. Við í VG göngum bjartsýn til kosninga enda bjóðum við upp á skýra framtíðarsýn sem byggir á réttlæti, umhverfisvernd og efnahagsstefnu fyrir almenning.
Sterkur listi

Framboðslista VG í Norðvesturkjördæmi skipar öflugt baráttufólk sem býr yfir víðtækri reynslu og þekkir þau mál sem helst brenna á íbúum kjördæmisins. Oddviti listans er Lilja Rafney sem hefur verið einn ötulasti talsmaður kjördæmisins á Alþingi undanfarin ár og í öðru sæti er Bjarni Jónsson, þaulreyndur sveitarstjórnarmaður úr Skagafirði sem veit hvar skórinn kreppir á landsbyggðinni. Dagný Rósa Úlfarsdóttir, kennari og bóndi á Skagaströnd, er í þriðja sæti og fjórða sætið skipar yngsti frambjóðandinn í kjördæminu, Rúnar Gíslason úr Borgarnesi. Í fimmta sæti er Þóra Geirlaug Bjartmarsdóttir frá Kleppjárnsreykjum, kennari og baráttukona fyrir bættu skólastarfi í hinum dreifðu byggðum.
Tryggjum raunverulega byggðafestu

Hér í Norðvesturkjördæmi verða atvinnumálin ofarlega á baugi. Við þurfum að halda áfram baráttunni fyrir betra og sanngjarnara fiskveiðikerfi og þar gildir að láta verkin tala. VG er sá flokkur sem hefur náð mestum árangri við endurskoðun kvótakerfisins, meðal annars með því að koma á strandveiðum og veiðigjöldum á stórútgerðina svo dæmi séu nefnd. En betur má ef duga skal. Við þurfum að tryggja raunverulega byggðafestu aflaheimilda, við þurfum að tryggja umhverfisvænar fiskveiðar, stuðla að fjölbreyttu útgerðarformi og sjá til þess að arðurinn af auðlindinni skili sér í auknum mæli til almennings, þar á meðal sjávarbyggðanna.

Við í VG munum halda áfram að styðja við íslenskan landbúnað eins og við höfum alltaf gert og sækja fram í umhverfisvænni ferðaþjónustu, nýsköpun og stuðningi við lítil og meðalstór fyrirtæki. Uppgangur ferðaþjónustunnar á undanförnum árum staðfestir að náttúruvernd er ekki aðeins mikilvæg í sjálfri sér heldur getur hún skapað okkur gríðarlegar tekjur og fjölda starfa.
Byggjum upp innviðina

Það þýðir þó lítið að blása til sóknar í atvinnumálum ef innviðir samfélagsins eru ekki í lagi. Þess vegna er forgangsverkefni númer eitt, tvö og þrjú að hætta að vanrækja innviðina og byrja að byggja þá upp. Heilbrigðis- og menntastofnanir eru fjársveltar og brýnar samgönguframkvæmdir í kjördæminu hafa setið á hakanum. Við þurfum að auka framlög til þessara málaflokka til að tryggja jöfn búsetuskilyrði. Við munum berjast fyrir raunverulegri byggðastefnu, standa vörð um menntastofnanir í kjördæminu og ráðast í átak til að tryggja afhendingaröryggi rafmagns, lægra orkuverð og aðgang allra að góðum háhraðatengingum.

Íbúar í Norðvesturkjördæmi hafa fengið sig fullsadda af niðurskurðarstefnu fráfarandi ríkisstjórnar. Okkur er treystandi til að snúa vörn í sókn og byggja upp innviðina enda hvikum við hvergi frá þeirri stefnu að tryggja velferð og tækifæri fyrir alla, óháð búsetu. Það verður ekki gert með harða hægristefnu að leiðarljósi.

 

Stóru málin

Stærsta kosningamálið á landsvísu er að endurreisa heilbrigðiskerfið sem hefur verið fjársvelt í 25 ár. Ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafa markvisst grafið undan heilbrigðisþjónustu hins opinbera og aukið einkarekstur í kerfinu. Við munum snúa þessari þróun við og gera það sem þarf til að endurreisa heilbrigðiskerfið með stórauknum framlögum sem við munum forgangsraða í þágu sjúkrahúsa, heilbrigðisstofnana um land allt og heilsugæslunnar. Við munum lækka greiðslubyrði sjúklinga og eyða óvissunni um nýjan Landspítala.

En hver á að borga? Þarf ekki að hækka skatta á almenning og fyrirtæki til að standa undir þessari stefnu? Nei, svörum við. VG mun ekki hækka skatta á almenning, heldur hefjast handa við að taka á skattaskjólum og skattaundanskotum, tryggja að alþjóðleg stórfyrirtæki borgi skatta á Íslandi eins og önnur fyrirtæki og sjá til þess að þeir sem nýta auðlindir þjóðarinnar greiði eðlilegt gjald.

Við þurfum nýja ríkisstjórn sem hverfur af braut þeirrar hörðu hægristefnu sem fráfarandi ríkisstjórn hefur rekið og nýtir sóknarfærin sem við höfum til að byggja upp samfélagið og efla grunnstoðirnar um land allt. Kosningarnar 29. október snúast ekki um það hver getur lofað mestu á lokasprettinum því kjósendur sjá í gegnum slíkt. Þessar kosningar snúast um traust og trúverðugleika. Hverjum treystir þú?

 

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.
Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþingismaður og oddviti Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi.

Fleiri aðsendar greinar