
Sterkari saman – sameiningin skiptir máli
Eyjólfur Ingvi Bjarnason
Þessa dagana stendur yfir atkvæðagreiðsla um sameiningu sveitarfélaganna Dalabyggðar og Húnaþings vestra. Undirritaður hefur setið í sveitarstjórn Dalabyggðar frá árinu 2018 og var oddviti til ársins 2024. Fyrir þann tíma var ég varamaður í sveitarstjórn og þekki því ágætlega til reksturs og áskorana sveitarfélagsins síðasta áratuginn.
Sú umræða sem ég heyri helst úti í samfélaginu varðandi þá kosningu sem nú stendur yfir er helst á þann veg hvort okkur sé alvara með þessu og/eða af hverju eiga þessi tvö sveitarfélög í sameiningarviðræðum? Svarið við fyrri spurningunni er já – því formlegar viðræður um sameiningu sveitarfélaga er ekkert sem maður gerir af því bara. Á það skal minnt að sveitarstjórnir beggja sveitarfélaga samþykktu með öllu greiddum atkvæðum í fyrri og seinni umræðu um málið að hefja formlega viðræður.
Af hverju Húnaþing vestra og Dalabyggð?
En af hverju er Dalabyggð að ræða við Húnaþing vestra? Innan Dalabyggðar hefur verið talsverð umræða um sameiningu sveitarfélaga síðustu ár og í kjölfar stefnumótandi áætlunar um lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga vorið 2020 hóf Dalabyggð vinnu við að skoða mismunandi sviðsmyndir til sameiningar sveitarfélagsins. Niðurstaða þeirrar vinnu var að bjóða annars vegar sveitarstjórnum Helgafellssveitar og Stykkishólms til samtals og sveitarstjórn Húnaþings vestra en þeir valkostir þóttu fýsilegastir í kjölfar þessarar vinnu. Sveitarstjórn Dalabyggðar fundaði með sveitarstjórnum þessara sveitarfélaga síðla árs 2021 um hvort hefja ætti forlegar sameiningar viðræður sem ekki urðu á þeim tíma.
Í kjölfarið ákvað sveitarstjórn Dalabyggðar að láta fara fram skoðanakönnun um sameiningu sveitarfélaga samhliða sveitarstjórnarkosningum vorið 2022 þar sem þessir tveir valkostir voru tilgreindir ásamt valkostinum „Annað“. Mikill meirihluti þeirra sem tók þátt í skoðanakönnuninni vildi að Dalabyggð myndi hefja sameiningarviðræður en ekki skýrt af niðurstöðum í hvaða átt ætti að horfa.
Í framhaldi af þessu ákvað sveitarstjórn Dalabyggðar að „flýta sér hægt“ og ekkert samtal um sameiningu átti sér stað í upphafi núverandi kjörtímabils. Í nóvember 2023 áttu sveitarstjórnir Dalabyggðar, Reykhólahrepps, Strandabyggðar, Kaldrananeshrepps og Árneshrepps gott samtal á sameiginlegum fundi á Hólmavík þar sem sameiningarmál voru rædd ásamt fleiri atriðum. Niðurstaða þess fundar var að eiga áfram í góðu samstarfi en ekki láta reyna á formlegar sameiningarviðræður.
Í framhaldi af þeim fundi tók Dalabyggð þátt í samtali við sveitarfélögin á Snæfellsnesi um hvort hefja ætti óformlegar viðræður. Dalabyggð hætti í því samtali í júní 2024 enda var það mat sveitarfélaganna sem þar tóku þátt að gera þetta í smærri skrefum en fara strax í stóra sameiningu sveitarfélaga á svæðinu.
Í desember 2024 var svo ákveðið að hefja óformlegar sameiningarviðræður við Húnaþing vestra sem leiddu það af sér að fara í formlegar viðræður um mitt ár 2025. En samkvæmt sveitarstjórnarlögum enda formlegar viðræður alltaf með því að íbúar sveitarfélaganna greiða atkvæði og eiga síðasta orðið.
Hver er ávinningurinn?
Á vefsíðunni www.dalhun.is er hægt að nálgast niðurstöður úr vinnu samstarfsnefndar sveitarfélaganna en eins voru haldnir vel sóttir íbúafundir í Búðardal og á Hvammstanga í aðdraganda yfirstandandi kosningar. Tilgangur þessara sameiningar er í mínum huga að styrkja tvö öflug samfélög til að verða enn sterkari liðsheild á komandi árum.
Það liggur fyrir að sameiningin er ekki ætluð til þess að fækka starfsfólki heldur frekar til að bæta þjónustu og auka skilvirkni því það eru sömu verkefnin sem þarf að sinna í litlum jafnt sem stórum sveitarfélögum. Á tíma mínum sem kjörinn fulltrúi síðustu ára bætist frekar á verkefnin sem sveitarfélögin eiga að sinna – yfirleitt án þess að nægjanlegar greiningar liggi fyrir frá Alþingi hvort sveitarfélögin hafi fjárhagslegt bolmagn og getu til að sinna umræddum verkefnum. Stundum dettur mér í hug hvort ekki ætti að lögfesta eftirlitsnefnd með fjármálum ríkissjóðs, því ef sveitarfélag stendur sig ekki er eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga umsvifalaust mætt á staðinn.
Samgöngur og innviðir
Í vinnu samstarfsnefndarinnar var áhersla lögð á að sameining myndi leiða til jákvæðari breytinga á innviðum og samgöngum á svæðinu og áhersla lögð á það við innviðaráðherra og þingmenn kjördæmis. Í því sambandi má nefna Skógarstrandarveg, Vatnsnesveg og síðasta áfanga á framkvæmdum yfir Laxárdalsheiði. Þverun Hrútafjarðar hefur einnig komið til umræðu, sem myndi stytta leiðina milli Hvammstanga og Búðardals um 20 kílómetra. Slík framkvæmd er framtíðarmál en yrði framfaraskrefa fyrir sameinað sveitarfélag.
Rekstrarlegar forsendur tala sínu máli
Sameining Dalabyggðar og Húnaþings vestra byggir á sterkum rekstrarlegum rökum. Framlög vegna sameiningar munu skv. fyrirliggjandi áætlun nema um 700 milljónum sem greiðast út á sjö árum. Þá verða árleg framlög úr jöfnunarsjóði um 80 milljónum hærri en sveitarfélögin fá nú sitt í hvoru lagi. Þetta þýðir að fyrstu sjö árin bætast allt að 180 milljónir króna árlega við rekstrargrunn hins sameinaða sveitarfélags.
Þessir fjármunir munu skapa svigrúm til að bæta þjónustu, fjárfesta í innviðum eða jafnvel lækka álögur á íbúa, auk þess sem minni lántökuþörf styrkir fjárhag til framtíðar. Með öðrum orðum myndi sameiningin styrkja rekstur sveitarfélagsins og stjórnsýsluna verulega án þess að skerða þjónustu til hins almenna íbúa.
Upplýst ákvörðun
Ég hvet íbúa sveitarfélaganna til að kynna sér vel þær greiningar og forsendur sem nú liggja fyrir. Það er mikilvægt að niðurstaða kosninga byggi á staðreyndum og skýrri framtíðarsýn fremur en tilfinningum og sagnahæfileikum „Gróu á Leiti“.
Einnig vek ég athygli á því að atkvæði allra íbúa skipta máli því kosning um sameiningu er bindandi og án lágmarksþátttöku. Því er mikilvægt að góð kosningaþátttaka sé í báðum sveitarfélögum þannig að vilji meirihluta sé skýr, í hvora áttina sem er.
Ég er fylgjandi sameiningu og tel hana vera rekstrarlega skynsamlega, stjórnsýslulega eflandi og til hagsbóta fyrir íbúa í báðum sveitarfélögum. Ég skil vel að skiptar skoðanir séu um málið en það væri ekki góð niðurstaða ef tækifærið rynni samfélögunum tveimur úr greipum.
Frá mínum bæjardyrum séð snýst sameining Dalabyggðar og Húnaþings vestra ekki um að missa eitthvað – hún snýst um að styrkja og efla til framtíðar.
Eyjólfur Ingvi Bjarnason
Höfundur er sveitarstjórnarmaður í Dalabyggð