Stefna til framtíðar

Signý Gunnarsdóttir

Nú styttist í kosningar sem þýðir að tími er kominn til að skrifa kosningagrein. Koma á framfæri öllu því sem maður stendur fyrir í stuttri, hnitmiðaðri og helst ekki leiðinlegri grein. Ég byrjaði á að grafa upp fjögurra ára gömlu kosningagreinina mína, Sækjum fram – byggjum upp, og ég verð að segja að hún á eiginlega bara ennþá við. Við þurfum ennþá að byggja upp og sækja fram, nema bara af miklu meiri krafti. Í þessu fallega litla sjávarþorpi, umlukið stórbrotnum fjöllum og fagurri náttúru, er gott að búa. Hér býr duglegt fólk, hér er rólegt en samt alltaf fullt að gera. Félagsstarf er í blóma og ýmis konar tómstundir standa börnum og fullorðnu fólki til boða.

Grundarfjörður er gott samfélag að búa í. En góð samfélög verða ekki til úr engu. Þau eru afsprengi íbúa, bæjaryfirvalda og fyrirtækja staðarins. Þetta er þrenna sem verður að virka saman og hver hluti er mikilvægur og styður við hina. Fyrirtækin verða að hafa skilyrði til að dafna, íbúarnir verða að vera virkir í samfélaginu og bæjaryfirvöld verða að stýra bátnum, ja eða bænum, í örugga höfn. Fyrir samfélag eins og okkar er mikilvægt að bærinn hafi stefnu, og þá meina ég til lengri tíma ekki bara næstu 1-2 árin. Stefnu í framkvæmdum bæjarins og stefnu í uppbyggingu samfélagsins. Við eigum að setja okkur markmið og vinna svo markvisst að því að ná settum markmiðum. Margt hefur unnist á seinustu fjórum árum, fyrirtæki á staðnum hafa farið í framkvæmdir og fjárfest, einstaklingar hafa farið út í fjárfestingar og nokkrir hafið byggingu á íbúðarhúsum. Síðustu tvö ár hafa reynst krefjandi vegna heimsfaraldurs en Grundarfjörður virðist hafa komist ágætlega út úr því ástandi. En nú blásum við í lúðra á ný.

Sumarið er á næsta leiti, allir flokkar lofa góðu veðri í sumar og heyrst hefur að Góð stund verði haldin á ný. Sel ekkert af þessu dýrar en ég „fékk það lánað.“ En áður en við æðum út í sumarið þá langar mig til að impra á verkefnum næsta kjörtímabils. Það styttist í sameiningu sveitarfélaga á Snæfellsnesi og þegar það gerist þá verða Grundfirðingar að vera tilbúnir. Við verðum að fjölga atvinnutækifærum hérna í bænum og laða að fyrirtæki sem vilja koma og byggja upp í Grundarfirði. En við verðum líka að styðja við þau fyrirtæki sem eru hér nú þegar. Nú í vor hefur verið mikill skortur á starfsfólki og húsnæði en húsnæðisskorturinn fer að verða viðvarandi og hann hefur heftandi áhrif á að fólk nái að flytja hingað. Við viljum fá fleira fólk í bæinn en til þess þurfum við störf og við þurfum húsnæði. Því þurfum við að skipuleggja ný hverfi og vera tilbúin með lóðir fyrir fólk og verktaka sem vilja byggja íbúðarhúsnæði. Atvinnulóðir ásamt innviðum, út á iðnaðarsvæði og í kringum höfnina, þurfa líka að vera tilbúnar fyrir þau sem vilja flytja starfsemi sína hingað eða stofna ný fyrirtæki. Þetta tvennt helst í hendur. Öll uppbygging sem verður á næstu árum verður að miðast við að okkur fjölgi, ekki að okkur fækki eða íbúatalan standi í stað. Aðalskipulag Grundarfjarðar 2019-2039 er tilbúið og mikilvægt er að fara að vinna úr því og nýta þá möguleika sem það býður upp á. Þar þarf Grundarfjarðarbær að vera leiðandi og hefja framkvæmdir. Má þar meðal annars nefna nýtt anddyri að íþróttahúsinu, klára viðhald á eignum bæjarins og leggja göngu- og hjólastíg út úr bænum. Til þess að við getum unnið vel úr þeim fjölbreyttu möguleikum sem Grundarfjörður býr yfir þurfum við að ráða atvinnu- og markaðsfulltrúa. Þetta er staða sem við þurfum og hefur vantað í mörg ár. Þessi staða veitir okkur þá yfirsýn sem við þurfum til að ýta stórum verkefnum úr vör á næstu árum og byggja markvisst upp ímynd Grundarfjarðar í samvinnu við bæinn, fyrirtækin og íbúana. Ef við ætlum að hafa rödd á næstu áratugum þá þurfum við að vera sýnilegri, sterkari og áræðnari. Ég vona að L-listinn fái brautargengi ykkar í kosningunum eftir tvær vikur, vona líka að við vinnum Eurovision, en mest af öllu þá vil ég gott sumar.

 

Signý Gunnarsdóttir

Höfundur skipar 2. sæti L-lista Bæjarmálafélagsins Samstöðu í Grundarfirði