Stefna Heimastjórnarflokksins hefur strax áhrif!

Eiríkur Þór Theodórsson

Sveitarstjórn Borgarbyggðar hefur tekið upp stefnumál Heimastjórnarflokksins um uppbyggingu íbúðahverfis í Ölduhryggnum vestan við Borg á Mýrum. Einnig er búið að setja ótímabæra friðun Borgarvogsins á ís. En meðlimir Heimastjórnarflokksins höfðu ítrekað varað við því að friðun Borgarvogsins, eins og hún var boðuð, gæti hamlað eðlilegri uppbyggingu, jafnt í Borgarnesi sem og í Ölduhryggnum.

Augljóst er að meirihlutinn stekkur á hugmynd Heimastjórnarflokksins og að um kúvendingu er að ræða, því stuttu áður var allt annað upp á teningnum, sveitarstjórnin var nýbúin að bjóða Skotfélagi Vesturlands Ölduhrygginn til afnota sem útiskotsvæði. Vonandi sér meirihlutinn í Borgarbyggð að sér í fleiri málum og fer eftir nýrri hugsun og sýn Heimastjórnarflokksins í fleiri stórmálum er varða íbúa Borgarbyggðar.

Til að lesendur geti metið sjálfir hversu augljóst sé að meirihlutinn hafi stokkið á hugmyndir Heimastjórnarflokksins er hér birtur hluti greinar eftir undirritaðan sem birtist í Skessuhorni þann 8. desember 2021 er fjallar um málið.

„Þróun byggðar

Af nógu er að taka þegar byrjað er að ræða um framtíðarmöguleika uppbyggingar í Borgarbyggðinni. En líta verður til lengri tíma en gert hefur verið til þessa. Í Borgarnesi verður að taka ákvörðun um hvort að þétta eigi byggðina eða láta hana þróast „upp í sveit“, jafnvel allt að Einarsnesi. Ölduhryggurinn, svæðið vestan við Borg á Mýrum er í eigu Borgarbyggðar og það hefur oft komið til greina sem íbúðabyggð. Rétt fyrir hrun var verktaki í viðræðum við Borgarbyggð um að reisa þar nokkurs konar sjálfbært þorp, íbúðarbyggð með verslun og leikskóla. Í dag er Borgarbyggð búin að gæla við friðun Borgarvogs sem girða myndi fyrir möguleika á að byggja í Ölduhryggnum.“

Hugmyndir Heimastjórnarflokksins koma eins og ferskur andblær inn í staðnaða og andlausa flokkspólitík gömlu flokkanna í Borgarbyggð. Við viljum vekja athygli fólks á heimasíðu flokksins og Facebok-síðu, þar sem áhugasamir geta kynnt sér stefnuna betur og jafnvel skráð sig í flokkinn.

Á stjórnarfundi Heimastjórnarflokksins í sl. viku var samþykkt að stjórn flokksins skipi fólki á framboðslistann. Stjórnina vantar tilnefningar um fólk á lista flokksins. Fólk sem þorir að hugsa út fyrir boxið og hefur skoðanir og trú á framtíðaruppbyggingu Borgarbyggðar. Nú þegar er ljóst að Heimastjórnarflokkurinn kemur til með að hafa mikil áhrif á gang mála í Borgarbyggð í framtíðinni.

Varðandi önnur mál Heimastjórnarflokksins má meðal annars nefna heitustu kartöfluna í skipulagsmálum Borgnesinga til áratuga sem er hvort að þjóðvegurinn eigi að liggja í gegnum bæinn til allrar framtíðar með tilheyrandi slysahættu og síauknum umferðartöfum. Aðrir möguleikar eru að þjóðvegurinn verði lagður upp með landinu eða að gerð verið vegleg mislæg gatnamót inni í bænum svo að akandi, hjólandi og gangandi umferð geti farið örugglega um í bænum án þess að þvera sívaxandi þjóðvegarumferðina.

Heimastjórnarflokkurinn vill leysa klúður meirihlutans í Brákareyjarmálinu í samvinnu við félagasamtökin sem rekin voru út úr gamla Sláturhúsinu. Okkur er sama hvaðan góðar hugmyndir koma og tökum því undir með ritstjóra Skessuhorns um að stofnuð verði hagsmunasamtök eða eitt sameinað félag þeirra sem í húsinu voru, sem verði samningsaðili við sveitarstjórnina. Ein hugmyndin er sú að sveitarfélagið gefi því félagi hluta hússins (burstirnar þrjár) til enduruppbyggingar og láti rífa það sem er ónýtt af öðrum húsum.  Einnig kæmi til greina að fela slíku félagi að rífa ónýtu húsin í stað þess að bjóða það út.

 

Eiríkur Þór Theodórsson

Höf. er formaður Heimastjórnarflokksins í Borgarbyggð