Starfslok á Borg á Mýrum
Einar Óskarsson
Ágæti lesandi!
Ég hef nú verið í sóknarnefnd að Borg á Mýrum í nær tvo áratugi og ætla að láta af þeim starfa nú í vor komandi. Reyndar er alls óvíst hvernig framhald á sóknarstarfi eða rekstri mun verða en það verður að koma í ljós. Í tilefni af þessum tímamótum vil ég benda á nokkur atriði sem mér finnst að verði að fara að taka á ef ekki eigi að hljótast vandræði af.
Aðallega er hér um að ræða fækkun fólks í sóknum og þar að auki lækkun framlags í sóknirnar pr/haus þannig að í dag er það útilokað að reka sóknir á sama hátt og áður var gert. Á sama tíma er æ erfiðara að fá fólk til að gera nokkurn hlut án fullrar greiðslu fyrir. Ég get svosem alveg skilið það þó mitt uppeldi hafi kannski verið á annan veg enda forn orðinn. Að auki við þennan erfiða rekstur sóknanna kemur sú staðreynd að margar sóknir eru með á sínu framfæri fornar friðaðar kirkjur sem er bæði erfitt að viðhalda og umfram allt afar dýrt. Ég hef raunar bent á þetta nokkrum sinnum og m.a. reynt að fá í gegn sameiningu á Borgarsókn og Borgarnessókn en það leysir í raun ekki þennan vanda nema að litlu leyti.
Rekstur Borgarnessóknar er alls ekki auðveldur heldur þó margfalt fleiri standi að þeirri sókn. Með fleiri hausum koma aukin útgjöld og stór kirkjubygging kostar líka mikið í rekstri. Í Borgarprestakalli eru fimm sóknir með æ fækkandi sálum í sókn en fjórar af kirkjunum eru friðaðar byggingar sem eru reyndar að ég held allar meira eða minna uppgerðar. Ég man eftir því að þegar farið var í uppgerð Akra og Álftaneskirkna var komin fram hugmynd um að byggja frekar kapellu eða altarisrými við félagsheimilið á Lyngbrekku svo nýta mætti það hús betur en sleppa við dýrar framkvæmdir við húsbyggingar sem komnar voru að fótum fram ef svo má segja um hús. Þessi ágæta hugmynd fékk ekki brautargengi og var allsendis slegin af en hefði sennilega eftirá að hyggja verið snilldarlausn. En eftir stendur að örfáar sálir sitja uppi með dýrar byggingar sem nýtast alls ekki vel.
Þessar ágætu friðuðu kirkjur eru svo líka það litlar að þær hreinlega ná ekki að hýsa stærri athafnir svosem jarðarfarir og jafnvel giftingar. Fermingar eru kannski ekki lengur vandamál enda svo fáir orðnir í sóknunum að börn á fermingaraldri eru varla til en jarðarfarir því mun oftar. Og skírnir einnig afar sjaldan og þá iðulega með örfáa sem að þeim koma. En þá dugar þó kirkjan.
Síðan er svo annar handleggur með kirkjugarðana. Þar sækir í sama horfið að rekstrarfé er afar naumt og umhirða því alls ekki sæmandi á sumum stöðum. Mér tókst með allskonar snapi og sníkjum og reyndar góðra manna hjálp að fá stækkun á kirkjugarðinum að Borg en þá ber svo við að aðsókn utanaðkomandi er miklum mun meiri en þeirra sóknarmanna sem þó er ætlaður hvílustaður að Borg. Og svo er það annað sem er ekki síður umhugsunarvert og það er hvað verður um annarrar trúar fólk sem deyr eins og við hin? Tæplega trúi ég því að við ætlum að husla það fólk utan garðs líkt og gert var við glæpamenn áður fyrr? Ég sem allsendis ótrúaður maður ætti náttúrulega ekki að fetta fingur útí neitt af þessu, en eftir afskipti mín af þessum málum kirkju og garðs í eins og áður sagði nær tvo áratugi finnst mér ég alveg hafa til þess kjaftinn að tala um þetta. Það er mér því all ofarlega í sinni að halda að kirkjan eða öllu heldur kirkjunnar þjónar ættu frekar að slíðra þau sverð sem sjást nú jafnoft á lofti og sverð Don Kíkóta og vinna frekar í að lagfæra gallana en rífast um þá. Ef til eru fjármunir í eilíf málaferli og lögfræðinga sem greiðast af kirkjunnar sjóðum þá ætti nú aldeilis að vera til rekstrarfé í þessar grátlega illa stöddu sóknir. En mér er nú nær að halda að Kölski muni verða kominn með snjóbræðslukerfi í stéttina hjá sér áður sá tími kemur, því miður.
Með bestu kveðjum,
Einar Óskarsson