Starfsheiður og að greina rétt frá

Ragnar Frank Kristjánsson

Í Fréttablaðinu 19. mars var greint frá að sveitarstjórnarráðuneytið hefði ákveðið að skoða stjórnsýslu Borgarbyggðar nánar m.a. vegna hönnunarvinnu við skólalóðina í Borgarnesi og leikskólalóðina á Kleppjárnsreykjum. Oddviti framsóknarmanna í Borgarbyggð leikur þar lykilhlutverk að gagnrýna meirihluta sveitarstjórnar og fyrrverandi sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs Borgarbyggðar. Þann 18. mars fól byggðaráð sveitarstjóra að greina ráðuneytinu frá hvernig stjórnsýslan vann að málum.

Guðveig Eyglóardóttir oddviti framsóknarmanna heldur því fram að sviðsstjóri hafi falið stóru ráðgjafafyrirtæki, sem maki hans vinnur hjá, að hanna skólalóðina í Borgarnesi.  Eins og oddvita er kunnugt um þá ákvað byggðarráð árið 2017 og 2018 að skipa byggingarnefndir fyrir GB og Kleppjárnsreyki. Byggingarnefndirnar eru skipaðar fulltrúum stjórnamálaflokkanna í Borgarbyggð. Framsóknarflokkurinn á tvo af fimm fulltrúum í hvorri nefnd. Það eru byggingarnefndir sem samþykkja öll verkkaup, hönnuði og verktaka. Það ætti því öllum að vera ljóst að sviðsstjóri kemur ekki að ákvörðunartöku um hver hannar eða framkvæmir verkin. Fundargerðir byggingarnefnda eru lagðar fyrir byggðarráð. Sviðsstjóri fól umsjónarmanni eignasjóðs Borgarbyggðar að sitja fundi byggingarnefndar Grunnskóla Borgarness, þar hafði viðkomandi málfrelsi, auk þess sat viðkomandi alla verkfundi með verktaka og eftirlitsmanni Borgarbyggðar. Sviðsstjóri sat fundi byggingarnefndar Kleppjárnsreykja og ritaði fundargerðir.

Útboð á hönnunarverkefnum

Að jafnaði þá eru minniháttar verkefni hjá sveitarfélögum ekki boðin út, hvorki hönnun, eftirlit eða framkvæmdir. Það er sjaldgæft að ráðgjafafyrirtæki bjóði í lítil hönnunarverkefni. Leitað er til ráðgjafa sem hafa þekkingu og getu til að leysa verkefnin. Á mínum tíma sem sviðsstjóri hjá Borgarbyggð þá unnu um tíu ráðgjafastofur fyrir sveitarfélagið m.a. stofur sem hafa starfsemi í sveitarfélaginu svo sem Landlínur, Verkís og Efla. Hagur þess að leita til margra ráðgjafafyrirtækja, er sá að þá er hægt að bera saman gæði, verð og tímaskil. Fyrir sveitarfélög á landsbyggðinni þá er það mikill fengur að ráðgjafafyrirtæki starfi á svæðinu og er Borgarbyggð vel sett í þeim efnum.

Starfsheiður er öllum mikilvægur. Það ætti ekki að vera neinum til framdráttar að greina ranglega frá. Mér finnst það miður að oddviti framsóknarmanna leyfi sér að blanda fyrrverandi sviðsstjóra hjá Borgarbyggð og maka hans inn í stjórnmálaátök.

Ég vænti þess að sveitarstjóri Borgarbyggðar greini sveitarstjórnarráðneytinu rétt og skilmerkilega frá málavöxtum.

Virðingarfyllst,

Ragnar Frank Kristjánsson.

Höf. er fyrrverandi sviðsstjóri hjá Borgarbyggð.