Starfsemin í Brákarey er samfélagsvæn

Jón G Guðbjörnsson

Aðkoman að Samgönguminjasafninu í Brákarey

Undirritaður getur ekki látið óátalin vinnubrögð sveitarstjóra og sveitarstjórnar og eftirlitsaðila og ekki sízt vegna þess hvernig fréttaflutningur um húsnæðið í Brákarey og lokun þess, var í kjölfarið. Áréttað skal að þegar ég tala hér um sveitarstjóra og sveitarstjórn og eftirlitsaðila er átt við stofnanir sveitarfélagins og embætti en ekki einstaklingana sem þar skipa sæti enda mér ókunnugt um hlut hvers og eins í einstökum atriðum þótt sumt sé augljósara en annað. Sveitarstjóri starfar í umboði sveitarstjórnar og því set ég þá aðila undir einn hatt í minni umfjöllun hér. Eftirlitsaðilar, þ.e. byggingarfulltrúi og eldvarnarfulltrúi, starfa svo á vegum sveitarfélagsins. Stjórn Fornbílafjelags Borgarfjarðar (FBF) mótmælti bréflega fyrir byggðarráðsfundinn 18.2. síðastliðnum hinni „óvæntu, harkalegu og fyrirvaralausu aðför að leigutökum í gamla sláturhúsinu í Brákarey…“ Ályktun stjórnarinnar var ekki birt með fundargerð byggðarráðs eins og önnur gögn málsins og hefur ekki birzt ennþá, þegar þetta er ritað, þrátt fyrir ábendingu, og hefur því ekki komið fyrir almenningssjónir. Það sem hér verður skrifað er hins vegar á ábyrgð undirritaðs, eins og sér, þótt hann sé jafnframt stjórnarmaður í félaginu. Tilefnið, eins og nefnt er hér að ofan, er hin fyrirvaralausa allsherjarlokun, fréttaflutningurinn og myndefnið sem hefur gert það að verkum að við „íbúarnir“ (hér í óeiginlegri merkingu sagt og notað) lítum frekar illa út að ósekju, í það minnsta í huga þeirra sem ekki þekkja til. Þess hef ég orðið var. Tekið skal fram að Skessuhorn hefur látið ógert í sinni umfjöllun að sækja í myndefni það sem er að finna á vef Borgarbyggðar og gefur mjög skekkta sýn á heildarmyndina. Það skal þakkað hér og nú.

Nú er rétt að halda því til haga að undirritaður hefur ekkert við það að athuga að eftirlitsaðilar sinni sínum störfum á þann veg sem þeim ber að gera. Eitt af því er að sinna reglulegu eftirliti hefði ég haldið. Ég hef ekki rekizt á né haft spurnir af neinum slíkum í þess háttar erindagjörðum í húsum sveitarfélagsins í Brákarey undanfarin tíu ár, a.m.k. ekki hjá Fornbílafjelaginu. Varðandi ábendingar eftirlitsaðila vil ég segja það að öll starfsemi og athafnir í umræddu húsnæði fara fram fyrir opnum tjöldum. Því hefði verið auðvelt skjótast út í eyju og kíkja eftir hvort enn sé verið að slátra í húsinu eða aðhafast eitthvað annað. Eftirlit rís ekki undir nafni ef það felst bara í því bíða eftir tilkynningum. Ég lít a.m.k. þannig á að eftirlitsaðilar eigi að vera leiðbeinandi í sínum störfum og það áður en farið er að beita þvingunarúræðum skv. laganúmerum og greinum en gæta meðalhófs komi til slíkra úrræða. Eldvarnaeftirlitsfulltrúi Borgarbyggðar hafnar því að meðalhófs hafi ekki verið gætt en undirritaður er því ósammála í ljósi þess að eftirlitið hefur verið vanrækt svo lengi sem raun er á. En svo brestur þetta á með þeim hætti að kalla má aðför. Sú framganga einkenndist ekki af mjög mikilli yfirvegun. Í fyrstu tilkynningu sveitarstjóra um lokun húsnæðisins er vísað til þá fyrirhugaðs fundar byggðarráðs og segir orðrétt:

Jafnframt má búast við því að tekin verði ákvörðun um hvort tekin verði ákvörðun um að segja upp öllum leigusamningum á eða í kjölfar fundar byggðarráðs“.

Í kjallara gamla sláturhússins er FBF með sýningarsal sinn og félagsaðstöðu. Það rými er sjálfstætt brunahólf.

Þetta voru ansi skýr skilaboð um í hvaða farveg til stóð að stefna málinu, þótt flækjustigið við ákvarðanir virðist all nokkurt. Von að fólki bregði í brún. Flestir „íbúar“ hússins eiga mikið undir því að geta haldið áfram sinni starfsemi eftir allt sem þeir hafa lagt af mörkum til uppbyggingar í því skyni. Starfsemin þjónar almennri félagsþörf í samfélaginu með einhverjum hætti og er jafnvel mikilvægur þáttur í heilsueflingu eldri borgara. T.d. eru einmitt vikurnar fram til vors þeim sem stunda golf mjög mikilvægar til að geta haldið út í vorið í góðu formi. Sjálfsprottin starfsemi af slíkum toga sparar auk þess sveitarfélaginu útgjöld og fyrirhöfn. En hvað um það. Á byggðarráðsfundinum var aðeins breytt um kúrs og eftirfarandi bókað:

„Leigjendur húsnæðisins hafa verið upplýstir og þeim sagt að fara að kröfu byggingarfulltrúa og eldvarnareftirlits og hætta starfsemi í húsnæðinu. Jafnframt felur byggðarráð sveitarstjóra að fá tilboð í úttekt á gamla sláturhúsinu og leggja fyrir næsta fund byggðarráðs, með það fyrir augun að kostnaðarmeta þær aðgerðir sem nauðsynlegt er að fara í til þess að tryggja öryggi og mögulegt sé að heimila starfsemi að nýju í húsnæðinu. Í kjölfar úttektar verði haldinn fundur með öllum leigjendum ásamt byggðarráði þar sem rædd verði málefni hvers leigjanda fyrir sig“.

Sem sagt; byggðarráð staðfestir ákvarðanir sveitarstjóra í takti við kröfur eftirlitsaðila um lokun; ákveður að láta kostnaðarmeta nauðsynlegar aðgerðir og tala svo við „íbúana“. Hvernig hefði nú verið að byrja á því að tala við „íbúana“ og forvitnast um það hvað þeir væru tilbúnir að leggja af mörkum við lagfæringar til að tryggja öryggi í samráði við eftirlitsaðila og leyfa áfram notkun hússins samtímis? Það er eiginlega sorglegt að sú leið hafi ekki verið farin. Og ég vil bara biðja yfirvöld í Borgarbyggð að hugleiða hverjir það eru sem lagt hafa mest og bezt af mörkum til að betrumbæta og verja gamla sláturhúsið gegn örlögum frystihússins. Það eru tvímælalaust „íbúarnir“ / notendurnir sem eru beztu vörzlumenn húsnæðisins. Fyrri sveitarstjórnir mátu það svo og voru mjög hlinntar því frumkvæði og þeirri starfsemi sem þar hefur fest rætur og talið að það væri beggja hagur að hafa líf í húsinu og samfélaginu til góða. Sú hefur verið raunin en nú er öllu snúið á hvolf og settur gæzlumaður með „íbúunum“.

Úr snyrtilegri aðstöðu Skotfélags Vesturlands.

Ég hef sagt og segi enn að gamla sláturhúsið er ekkert að hruni komið en þarfnast vissulega aðhlynningar. Það væri fráleitt að telja það bara til nðurrifs og þakleki er ekki tilefni til að brjóta hús til grunna. Helztu ábendingar eftirlitsaðila snúa að flóttaleiðum og rafmagnstöflum; atriði sem ætti að vera auðvelt að bæta úr án lokunar fyrir alla starfsemi. Hins vegar get ég vel skilið að lýsingar eftirlitsaðila og myndefni hafi valdið nokkrum taugatitringi í röðum sveitarstjórnarfólks, sérstaklega sé það ókunnugt þessum húsakynnum. Því hefði það verið ágætis byrjun að fara í vettvangsferð. Myndefnið sem fylgdi skýrslugerð eftirlitsaðila sýnir að mestu allt það versta sem er að finna í húsnæðinu og ekki sízt úr þeim hluta þess sem er gjörónýtur (frystihúsinu) og ætti að fjarlægja sem fyrst. Þar er eðlilegt að loka fyrir allan umgang strax.

Í kjallara gamla sláturhússins er FBF með sýningarsal sinn og félagsaðstöðu. Það rými er sjálfstætt brunahólf og í skýrslu eldvarnarfulltrúa segir orðrétt: „Aðstaðan góð með viðunandi brunaviðvörunarkerfi. Flóttaleiðir þurfa að vera betur merktar og bæta þarf aðgengi[?]. Vöntun er á loftræsingu/reykræsingu í rýminu“ [sem er raunar ekki rétt]. En svo mörg voru þau orð. Flóttaleið um suðurdyr úr kjallaranum hefur verið teppt af alls konar sem tilheyrir áhaldahúsi sveitarfélagins og það þarf að fjarlægja. Í ljósi þessa er óskiljanlegt að lokað sé á aðgengi okkar að félagsaðstöðunni og kjallarnum yfirleitt.

Starfsemin í húsinu þjónar almennri félagsþörf í samfélaginu með einhverjum hætti og er jafnvel mikilvægur þáttur í heilsueflingu. Hér er auglýsing frá Golfklúbbi Borgarness um púttæfingasvæðið.

Varðandi aðstöðu FBF í fjárréttinni er það að segja að tvisvar sinnum á síðastliðnu ári hefur verið óskað eftir viðræðum við sveitarfélagið um framtíð þess húsnæðis og nauðsynlegar endurbætur. Þar höfum við þegar bætt úr þakleka, styrkt burð þaksins eftir föngum og lágmarkað hættu af þakfoki. Þær aðgerðir eru þó ekki nægjanlegar en lengra komumst við ekki með lagfæringar  án samráðs við sveitarfélagið (eigandann). Það samtal hefur ekki fengizt. Við erum alveg meðvituð um veikleika hússins en það er ekkert að alveg að hrynja. Eigi að síður verður fyrr en seinna að bæta þar um og koma upp brunavarnarvegg í fyrsta lagi. Það mál leysist ekki með því að loka okkur úti. Það hefði verið skynsamlegt og farsælla að gefa sér tíma í eina eða tvær vikur og ræða við þá aðila sem hlut eiga að máli í stað þess að stefna málinu í þann óheppilega farveg sem raun varð á.

Ef maður dregur þetta saman í lokin þá er starfsemin í Brákarey samfélagsvæn sem kostað hefur mikla vinnu og fjárútlát að gera að veruleika. Mannvirkin í heild sinni hafa verið vanrækt í viðhaldi, jafnvel áratugum saman, sem spillir ásýndinni og elsti hluti þeirra frystihúsið er ónýtt. Úr ýmsu þarf að bæta að öðru leyti og aðkoma sveitarfélagsins er óhjákvæmileg við þær aðgerðir, en fyrst þarf samtal. Það er slys hvernig staðið var að ákvörðun um fyrirvaralausa lokun án samtals við „íbúana“ sem eru tilbúnir til samtalsins. Hins vegar er hætt við að langvarandi lokun hafi mjög neikvæð áhrif á þau félög sem þarna hafa haslað sér völl.

 

Jón G. Guðbjörnsson

„Það hefði verið skynsamlegt og farsælla að gefa sér tíma í eina eða tvær vikur og ræða við þá aðila sem hlut eiga að máli í stað þess að stefna málinu í þann óheppilega farveg sem raun varð á.“ Gamla sláturhúsið, ný og glæsileg bygging, í árdaga undir lok sjöunda áratugarins.