
Staldrað við í Brothættri byggð
Stefán Skafti Steinólfsson
Góðir lesendur!
Ég vil beina orðum mínum til kjörinna fulltrúa í Dalabyggð að staldra við áður en skrifað er undir samninga um að skuldsetja sveitarfélagið um 1,2 milljarða. Eitt þúsund og tvö hundruð milljónir er u.þ.b. 2 milljónir á hvert mannsbarn í Dalabyggð og vafalaust helmingi hærra á hvern útsvarsgreiðanda. Þetta er mikil fjárfesting í brothættri byggð og í núverandi vaxtaumhverfi og hækkunum er von á enn frekari kostnaði. Kæmi ekki á óvart þó húsið endaði í 1,5 milljarði. Hægt er að staldra við og byggja hægar eða ódýrar. Íþróttakennslu er hægt að sinna á svo margan hátt og hægt að byggja yfir og lengja núverandi laug í Búðardal ódýrar. Þess má geta að tveir íþróttamenn / sundmenn Akraness æfðu og kepptu í 12 metra laug og voru valdir íþróttamenn ársins.
Ég verð seint talinn úrtölumaður en þessi kostnaður er gríðarlegur. Ég hefði kosið að eyða einhverju af þessu fé til atvinnuuppbyggingar, t.d. var síðasta mjólkurbúið að hætta í Saurbæ. Hver hefði trúað því fyrir áratug eða svo?
Þar sem dýrtíðin var fundin upp á Skarðsströndinni, kýrin hét Dýrtíð og gekk aftur við Austurvöll og í Seðlabankanum, er mikil hætta að dýrtíðin leggist á hið brothætta samfélag sem Dalabyggð er nú.
Virðingarfyllst,
Stefán Skafti Steinólfsson
Ytri Fagradal