Stærsta smjörklípa Íslandssögunnar

Stefán Skafti Steinólfsson

Í aðdraganda alþingiskosninga er vert að benda á þá stóru villu sem er í meðferð auðlinda okkar. Auðlinda sem skópu okkar velferð sem um langan tíma setti okkur í efstu sæti hvað varðar kjör þegnanna. Einnig hvað varðaði litla sem enga spillingu, hvar við nú hröpum niður listann. Til að réttlæta ranglátt kvótakerfi í sjávarútvegi var sett á svokallað veiðigjald. Í stað þess að skifta um fiskveiðistjórn og viðurkenna mistök þeirrar stjórnunar sem hefur skilað okkur helmingi minni afla, auk stórkostlegar byggðaröskunar, var veiðigjaldið sett á til að slá ryki í augu almennings.

Smjörklípan gekk upp!

Árangurinn var líka góður; kjörnir fulltrúar bitu á agnið. Rifrildi hefur staðið síðan hvort veiðigjöld séu of há eða lág, í stað þess að taka á rót vandans. Segja má að Oligarkar hafi orðið til með þessu „Sovétkerfi“.

Þurftum hvorugt þegar samfélagið var byggt upp

Staðreyndin er sú að forsendur fyrir ofveiði (svarta skýrsla Hafró) var röng. Það hefur verið sannað með gögnum og rökum. Kjörnir fulltrúar verða að hafa kjark til að viðurkenna mistök. Þeir flokkar sem innleiddu kvótakerfið og framhaldið bera mikla ábyrgð. Þeir hafa æ síðan varið það af hörku og undarlegt til þess að vita að flokkur sem kennir sig við frelsi einstaklinga, ver það með kjafti og klóm.

Enginn munur er á stefnu Framsóknar og Vinstri hreyfingarinnar grænu framboði. Þar er allt fallið í eina sæng með að verja kvótakerfið. Hvað varð um slagorðin „stétt með stétt“ og „Báknið burt“?  Flokkur Samfylkingarinnar virðist fastur í veiðigjaldaumræðunni sem og Viðreisn. Smjörklipan virkar því miður.

Góðir lesendur! Við gerum þá kröfu til þeirra frambærilegu frambjóðenda til Alþingis að þeir kynni sér vel smörklípuna veiðigjald og misheppnaða fiskveiðistjórnun sem nefnist kvótakerfi. Við þurftum hvorugt þegar samfélagið var byggt upp.

 

Stefán Skafti Steinólfsson

Höf. er áhugamaður um fiskveiðar og vinnslu.