Staðfesta borgar sig

Ólafur Adolfsson

Ég vil í upphafi þessarar greinar leyfa mér að setja fram eftirfarandi fullyrðingu og skýra hana síðan:

„Staðfesta bæjarfulltrúa á Akranesi ásamt djúpri þekkingu starfsmanna Akraneskaupstaðar á lífeyrismálum og mikilli vinnu, hefur skilað Akurnesingum nær hálfum milljarði króna betri niðurstöðu í uppgjöri á lífeyrisskuldbindingum hjúkrunarheimilisins Höfða á Akranesi og slegið varnagla gagnvart frekari útgjöldum vegna lífeyrisskuldbindinga Höfða.“

Gamalt ágreiningsmál

Lífeyriskuldbindingar hjúkrunarheimila hafa verið þrætuepli milli ríkisvaldsins og rekstaraðila hjúkrunarheimila í meira en áratug. Rekstur hjúkrunarheimila hefur verið mjög erfiður og viðvarandi hallarekstur á starfseminni og þá einkum vegna lífeyrisskuldbindinga. Ríkisvaldið hefur haldið því fram að fjárframlag ríkisins til reksturs hjúkrunarheimila eigi að ná yfir allan rekstur og þar með talið lífeyrisskuldbindingar en hefur hins vegar aldrei getað útskýrt þá augljósu þversögn hvers vegna daggjöldin eru þá þau sömu fyrir öll hjúkrunarheimili óháð stærð og umfangi lífeyrisskuldbindinga viðkomandi heimila.

Í apríl 2014 náðist langþráð samkomulag milli fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu um að ríkið yfirtaki og greiði 97% af skuldbindingum hjúkrunarheimila vegna Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga. Samkvæmt samkomulaginu samtímagreiða hjúkrunarheimilin nú iðgjald í B deildir lífeyrissjóða til að koma í veg fyrir að nýjar skuldbindingar myndist. Samkomulag þetta náði því miður ekki til hjúkrunarheimila sem voru stofnuð af eða eru rekin á ábyrgð sveitarfélaga en skapaði hins vegar mikilvægt fordæmi fyrir komandi samningaviðræður við ríkisvaldið.

Skipan starfshóps um skiptingu lífeyrisskuldbindinga

Það var eitt fyrsta verk mitt sem formanns bæjarráðs eftir kosningar 2014 að taka upp málefni hjúkrunarheimilisins Höfða við heilbrigðisráðherra, fjármálaráðherra, framkvæmdastjóra Sambands íslenkra sveitarfélaga og alla þingmenn kjördæmisins til að þrýsta á um aðgerðir til að bæta stöðu Höfða og annarra hjúkrunarheimila sem rekin voru á ábyrgð sveitarfélaga.  Ástæðan var ærin því uppsafnaður rekstrarhalli Höfða frá 2011-2015 stefndi í að verða nær 600 milljónir.

Í samræmi við tillögu samstarfsnefndar ríkis og sveitarfélaga frá 29. október 2014 ákvað fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga sem hafði það hlutverk að greina og meta lífeyrisskuldbindingar sem stofnast hafa vegna samrekstrar eða sameiginlegra viðfangsefna ríkis og sveitarfélaga, skilgreina ábyrgð aðila á skuldbindingunum og gera tillögur að fjárhagslegu uppgjöri í samræmi við það.  Starfshópurinn var skipaður þann 11. febrúar 2016 og skyldi ljúka störfum fyrir árslok 2016.  Í þennan hóp voru skipaðir þrír fulltrúar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar á meðal Regína Ásvaldsdóttir þáverandi bæjarstjóri á Akranesi og þrír fulltrúar frá fjármálaráðuneytinu ásamt formanni starfshópsins. Það var okkur á Akranesi mikið kappsmál, sökum alvarlegrar stöðu hjúkrunarheimilisins Höfða, að málefni hjúkrunarheimila færu í forgang í þessari vinnu og var orðið við þeirri beiðni.

Mikil vinna beið starfshópsins í að greina umfang lífeyrisskuldbindinga hjúkrunarheimila með sveitarfélagaábyrgð og var unnin viðamikil samantekt og greining um málið af Jóhanni Þórðarsyni endurskoðanda, starfsmönnum stjórnsýslu- og fjármálasviðs og framkvæmdastjóra Höfða, sem reyndist síðan lykilgagn í vinnu starfshópsins.

Enn þrefað

Eftir að búið var að ná utan um umfang lífeyrisskuldbindinga hjúkrunarheimila hófust samningaviðræður um skiptingu þeirra milli ríkis og sveitarfélaga. Fulltrúar sveitarfélaga stóðu staðfastlega á því að horfa skyldi til samningsins frá 11. apríl 2014, við hjúkrunarheimili innan vébanda Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, að öðrum kosti væri verið að mismuna rekstraraðilum hjúkrunarheimila. Þessu mótmæltu fulltrúar ríkisins, hart var tekist á og öllum samningatæknibrögðum beitt. Svo hart gekk málið að það var ekki laust við að kjörnum fulltrúum sem fylgdust með af hliðarlínunni þættu sumir samningamenn ríkisins taka málið full persónulega. Eftir langt og tilgangslítið þref var samningamönnum ljóst að ekki yrði lengra komist við þetta samningaborð og málið því fært að nýju í hendur kjörinna fulltrúa.

Formaður bæjarráðs átti fundi með fjármála- og efnahagsráðherra ásamt Haraldi Benediktssyni fyrsta þingmanni kjördæmisins þar sem þess var freistað að höggva á hnútinn sem upp var kominn og leita leiða til að ljúka málinu fyrir alþingiskosningarnar 29. október 2016.

Mikilvægur áfangi næst

Þann 6. september 2016 náðist samkomulag um gerð rammasamnings milli Sjúkratrygginga Íslands og hjúkrunarheimila vegna þjónustu í hjúkrunar- og dvalarrýmum hjúkrunarheimila. Í þessu samkomulagi var svokölluð bókun 3, sem varðaði lífeyrisskuldbindingar hjúkrunarheimila. Þar er eftirfarandi setning:

„Ríki og sveitarfélög eru sammála um að ríkið yfirtaki lífeyrisskuldbindingar hjúkrunarheimila sem rekin eru á ábyrgð sveitarfélaga með sambærilegum hætti og ríkið hefur yfirtekið skuldbindingar annarra hjúkrunarheimila.“

Þar eru einnig ákvæði um að ljúka samkomulaginu um uppgjör lífeyrisskuldbindinga hjúkrunarheimilanna fyrir árslok 2016 sem hluta af heildarsamkomulag um skiptingu lífeyrisskuldbindinga milli ríkisins og sveitarfélaga. Rammasamningurinn var síðan undirritaður 21. október 2016.

Þann 28. október 2016, eða daginn fyrir alþingiskosningarnar, var undirritað langþráð samkomulag um tilhögun uppgjörs lífeyrisskuldbindinga B-deilda lífeyrissjóða milli ríkis og sveitarfélaga. Yfirtaka lífeyrisskuldbindinga er m.a. skilyrt því, að sveitarfélög ábyrgist rekstur hjúkrunarheimila til 31. desember 2018 hið minnsta, að gerður verði sérstakur samningur um uppgjör við hvert og eitt sveitarfélag og að samningum verði lokið fyrir 31. desember 2016. Í samkomulaginu kemur einnig fram að ríkið taki yfir 97% skuldbindingarinnar og sveitarfélögin 3% en einnig hvernig farið skuli með uppgjör annarra lífeyrisskuldbindinga og hvernig fjárhagslegu uppgjöri skuli háttað.

Ekki náðist að klára samningagerð við fjármála- og efnahagsráðuneytið fyrir áramót í eftirhreytum kosninga en Benedikt Jóhannesson, nýr fjármála og efnahagsráðherra, undirritaði samning ríkisins og Akraneskaupstaðar um fullnaðaruppgjör lífeyrisskuldbindinga hjúkrunarheimilisins Höfða þann 13. janúar 2017. Héldum við bæjarfulltrúar að þar með væri málið í höfn en það var fjarri sanni.

Fjárhagslegt uppgjör

Þegar Akraneskaupstað berast upplýsingar um hvernig ríkið vilji standa að uppgjöri lífeyrisskuldbindinga Höfða er augljóst að ekki stendur til að efna samkomulag frá 28. október 2016 og frá 13. janúar 2017. Ríkið ætlaði einungis að greiða 97% af áföllnum lífeyrisskuldbindingum eins og þær stóðu 31. desember 2015 og vera þar með laust allra mála varðandi lífeyrisskuldbindingar hjúkrunarheimila. Akraneskaupstaður benti á hið augljósa, að það væri ekki í samræmi við áðurnefnt samkomulagi milli ríkis og sveitarfélaga. Samkvæmt því ætti ríkið að yfirtaka skuldbindinguna eða bera ábyrgð á greiðslu hennar til framtíðar eins og í fyrri samningi við hjúkrunarheimili sem rekin eru af sjálfseignastofnunum, því kæmi þessi tillaga að uppgjöri ekki til álita af hálfu Akraneskaupstaðar.

Ráðuneytið sendi nýtt tilboð um uppgjör, eftir nokkurt þref, þar sem boðið var upp á að hækka framlag ríkisins um 11,266% sem var í raun að færa uppgjörsdagsetninguna til 31. desember 2016 og hefði skilað Akraneskaupstað um 107 milljón krónu betri niðurstöðu en áður hafði boðist. Þessu tilboði var hafnað á sömu forsendum og áður. Akraneskaupstaður gerði ríkinu gagntilboð þar sem fallist var á hækkun á framlagi ríkisins en ekki yrði vikið frá ákvæðum um yfirtöku ríkisins á lífeyrisskuldbindingum Höfða. Jafnframt var boðað að fulltrúar Akraneskaupstaðar myndu mæta til undirritunar uppgjörssamninga þann 31. mars 2017.

Fýluferð í fjármála- og efnahagsráðuneytið

Þann 31. mars mætti Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri ásamt formanni bæjarráðs Akraneskaupstaðar  og bæjarstjóra Akureyrar í fjármála- og efnahagsráðuneytið til undirritunar uppgjörssamninga milli ríkisins og nefndra bæjarfélaga. Samningarnir voru samhljóða fyrri tillögu ríkisins og því neituðu bæjarstjórarnir að undirrita samningana. Fundi var þá þegar slitið án frekari orðaskipta.

Síðla í apríl barst erindi frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu þar sem upplýst var að ef fulltrúar Akraneskaupstaðar staðfesti ekki fyrirliggjandi uppgjörstillögur ríkisins á lífeyrisskuldbindingum Höfða fyrir lok apríl muni samkomulagið frá 13. janúar 2017 falla úr gildi og Akranes bera fulla ábyrgð á öllum lífeyrisskuldbindingum sem myndast hafa hjá hjúkrunarheimilinu Höfða.

Frumkvæði tekið

Í kjölfar erindis fjármála- og efnahagsráðuneytisins var ákveðið að Akraneskaupstaður tæki frumkvæði í málinu. Ljóst var að ríkið ætlaði að skjóta sér undan samkomulagi um ábyrgð á lífeyrisskuldbindingunni og því mikilvægt að ákvarða uppgreiðsluálag sem myndi tryggja skaðleysi Akraneskaupstaðar vegna áforma ríkisins. Fengið var mat tryggingastærðfræðings á því hvert fyrirhugað uppgreiðsluálag þyrfti að vera. Einnig var fengið lögfræðiálit um stöðu Akraneskaupstaðar ef til málaferla kæmi vegna samningsins.

Akraneskaupstaður sendi fjármála- og efnahagsráðherra bréf fyrir lok apríl þar sem túlkun ráðuneytisins á samkomulaginu frá 13. janúar 2017 var mótmælt og ítrekuð var sú afstaða Akraneskaupstaðar að ekkert komi í veg fyrir að samningurinn verði efndur samkvæmt efni sínu. Akraneskaupstaður lagði einnig til að ef ríkið kysi að gera upp sinn hluta í lífeyrisskuldbindingunni skyldi koma til viðbótar uppgreiðsluálag.

Í kjölfar þessara samskipta greiddi Akraneskaupstaður síðan sinn hluta lífeyrisskuldbindingar Höfða (3%) með útreiknuðu uppgreiðsluálagi. Formaður bæjarráðs hitti einnig fjármála- og efnahagsráðherra, forsætisráðherra og þingmenn kjördæmisins til að ræða alvarlega stöðu málsins og mögulegar úrlausnir.

Nýtt samkomulag verður til

Það var síðan í júní 2017 sem Benedikt Jóhannesson tók af skarið og setti fram tillögur um breytingu á forsendum fyrir uppgjör lífeyrisskuldbindinga milli ríkis og sveitarfélaga.

Ríkið yfirtekur 97% af lífeyrisskuldbindingum B deilda lífeyrissjóða sveitarfélaga vegna hjúkrunarheimila miðað við 31. maí 2017 í stað 31. desember 2015. Uppgjörið tekur nú mið af nýrri spá um lengri lífaldur og viðmið raunlaunabreytinga í útreikningum er hækkað.  Þessar breytingar skila Akraneskaupstað aukalega um 330 milljónum vegna lífeyrisskuldbindinga Höfða eða alls um 1.280 milljónum. Auk þess kemur mikilvægt bókun inn í samkomulagið sem setur inn ákveðinn varnagla ef þróun skuldbindingarinnar verður óhagstæð. Bókunin kveður á um að eftir 5 ár skuli fara fram sérstök greining á því hvort tryggingafræðilegar forsendur samkomulagsins hafi staðist. Ef frávik greinast skal meta áhrif þeirra í fjárhagslegu tilliti og gera ráðstafanir til að jafna þau áhrif sem af frávikunum leiða.

Hækkun skuldbindinga vegna A-deildar

Til viðbótar þessu hefur ríkið samþykkt eftir skammar viðræður að taka á sig 147 milljón krónu greiðslu vegna leiðréttingar á lífeyrisskuldbindingum A-deildar hjúkrunarheimilisins Höfða sem áttu að öðrum kosti að gjaldfærast árið 2017. Samtals nema þessar viðbótar upphæðir því um 470 milljónum króna og því óhætt að segja: „Já, staðfesta borgar sig.“

 

Ólafur Adolfsson.

Höf. er formaður bæjarráðs, en skipar fjórða sæti á lista Sjálfstæðisflokksins til bæjarstjórnarkosninga 2018.