Staða heilbrigðismála

Hafsteinn Sigurbjörnsson

Heilbrigðismál eru mikið í umræðunni um þessar mundir, sem er ekki undarlegt þar sem gott heilbrigðiskerfi er lykillinn að góðu samfélagi.

Á senni hluta síðustu aldar var heilbrigðiskerfið her á landi mjög gott. Þá var það algerlega rekið á vegum hins opinbera. Læknar, hjúkrunarfræðingar og annað starfsfólk heilbrigðisgeirans voru þá öll opinberir ríkisstarfsmenn og fengu þá laun greidd beint frá ríkinu (að undanlkildum tannlæknum).

Heilsugæslustöðvar voru í flestum byggðakjörnum landsins og í þeim stærri yfirleitt í tengslum við sjúkrahús. Þeir læknar sem þar störfuðu voru heimilislæknar þ.e. sinntu almennri heilsugæslu á ákveðnu svæði.  Þá var ekki óalgengt að læknar voru kvaddir í heimahús til að líta á sjúkling til ákvörðunar um framvindu aðgerða.

Þetta þótti sjálfsagt og urðu læknar þá oft heimilisvinir fólks og ráðgefendur um heilbrigða lífshætti.

Í dag er þetta gjörbreytt. Nú heyrir til undantekninga að læknir komi í hús til sjúklings.  Í dag verður sjúklingur sem þarf á lækni að halda að panta tíma og verður oft að bíða í vikur eða mánuði til að komast til hans.

Þessi þróun átti sér stað af tvenns konar orsökum. Annarsvegar af niðurskurði stjórnvalda á fjármagni til heilsugæslustöðva og hinsvegar af þróun menntunar lækna til sérhæfingar á ákveðnum sviðum lækninga.

Og nú er svo komið að sjúklingur verður sjálfur að ákveða til hverskonar sérfræðings hann á að leita.

Ef hann er með magakveisu til magasérfræðings, ef hann er með brjóstverki til hjartalæknis eða lungnasérfræðings og ef hann er með hausverk þá til heilasérfræðings. Og ef hann er bara slappur þá veit hann ekkert hvert hann á að fara.

Þessi endaleysa varð til vegna misviturra manna úr læknastétt og af stjórnvöldum og hefur gert heilbrigðisþjónustuna margfalt flóknari og dýrari.

Ég gat ekki annað en hlegið þegar ég heyrði að sérfræðilæknar vildu nú fara að starfa sem sjálfstæðir verktakar.

Almennt er sjálfstæður verktaki aðili sem býður í verk eða er beðinn að vinna verk sem hann hefur kunnáttu til. Sé um útboð að ræða skoðar hann verkefnið og býður svo ákveðna upphæð fyrir framkvæmd þess. Nú eru oftast fleiri en einn sem gera tilboð og verður þá oftast sá sem lægst býður verktakinn, þetta er algild regla sem sjálfstæðir verktakar verða að hlýta.

Nú eru sérfræðilæknar eingöngu að fást við mannsskrokkinn (nema dýralæknar) og verða því sem sjálstæðir verktakar að skoða verkefnið (þ.e. skrokkinn) og gera síðan tilboð í það sem hann vill fá fyrir verkið þ.e. að laga meinsemdina.

Sjúklingurinn skoðar síðan tilboðin og velur úr það sem hann telur hagstæðast fyrir sig. Verði kaupandi (sjúklingurinn) ósáttur við verktaka að verki loknu geta komið upp allskonar  vandamál eins og títt er meðal sjálfstæðra verktaka.

Að einkavæða heilbrigðiskerfið og setja það á markað eins og byggingaframkvæmdir er svoleiðis vitleysa að engu tali tekur.

 

Hafsteinn Sigurbjörnsson