Sprenging í ferðaþjónustu á Vesturlandi

Sturla Rafn Guðmundsson

Ferðamenn flæða til landsins aldrei sem fyrr. Árið 2015 komu 1,3 mill. ferðamanna til Íslands og í ár er áætlað að þeir verði um 1,7 milj. Þetta er gríðarleg aukning. Álagið hefur verið mest í Reykjavík og á Suðurlandi, sem getur tæplega tekið við fleiri ferðamönnum, og því mun ferðamannastraumurinn færast til Vesturlands, það er óhjákvæmilegt. Þetta vita Vestlendingar sem eru þegar byrjaðir að byggja ný hótel og mikil áform um stækkun eldri hótela.

Fáir staðir á Íslandi bjóða upp á meiri náttúrufegurð en Borgarfjörður, Snæfellsnes, Breiðafjörður og Dalirnir. Ferðamenn og ferðaþjónustuaðilar hafa uppgötvað þetta og beina nú augunum vestur. Frá Reykjavík eru þrjár vegtengingar við Vesturland: Þjóðvegur 1 um Hvalfjarðargöng, vegurinn um Hvalfjörð og Dragháls og vegurinn frá Þingvöllum um Uxahryggi og Kaldadal. Einungis þjóðvegur 1 er heilsársvegur. Stórbæta þarf veginn frá Þingvöllum til að fá greiða leið niður í Lundareykjadal og að Húsafelli allt árið um kring. Þarna myndast skemmtilegar hringleiðir, minni og stærri, um Vesturland sumar sem vetur.

Ferðamannastraumurinn vestur á Snæfellsnes er orðinn mikill enda miklar náttúruperlur á nesinu. Umferð flutningabíla er afar þung og mikil hætta á ferð í umferðinni á þessum mjóu vegum. Þarna verður að gera bragarbót sem fyrst. Vaxandi umferð er um Skógarströnd á milli Stykkishólms og Búðardals en þar er vegurinn ekki bara slæmur heldur jafnframt stórhættulegur eins og dæmin sanna. Einnig þarf að bæta veginn um Laxárdal til að fá heilsárstengingu við Strandir og Norðurland.

Eins og áður hefur komið fram eru margar náttúruperlur á Vesturlandi og stöðva ferðamenn bíla sína út í kanti eða jafnvel á miðjum veginum til að taka myndir. Það verður að byggja útskot og setja upp merkingar sem vísa á þau. Einnig þarf að koma upp alvörubílastæðum þar sem mesta aðsóknin að náttúrperlum er og má þá hugsa sér að innheimta bílastæðisgjald á slíkum stöðum. Koma þarf upp upplýsinga- og þjónustumiðstöðvum í samvinnu við einkaðila eða sveitarfélög á mest sóttu svæðunum. Það er forgangsatriði að koma upp bráðabirgða salernisaðstöðu þar sem þörfin er mest það gengur ekki að ferðaþjónustuaðilar verði að sneiða hjá stórum svæðum þar sem engin salernisaðstaða er fyrir hendi.

Viðreisn hefur skýra stefnu þegar kemur að uppbyggingu ferðaþjónustu í landinu. Náttúran er ein af auðlindum landsins og ber að umgangast hana sem slíka. Nýta þarf tækifæri sem skapast og hámarka arðsemi í ferðaþjónustu til að byggja upp innviði þannig að hægt sé að taka á móti ferðamönnum með sóma.

 

Sturla Rafn Guðmundsson.

Höf. skipar þriðja sæti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi.