Spilum út trompunum – sækjum fram

Sigurður Guðmundsson

Borgarbyggð er einstakt sveitarfélag sem hefur alla burði til að verða eitt af eftirsóknarverðustu sveitarfélögum landsins. Tækifærin eru óþrjótandi og við höfum nú þegar fjöldamörg tromp á hendi.  Grunnstoðir sveitarfélagsins eru sterkar, hér eru reknir skólar á öllum skólastigum, mannlífið og menningarlífið er fjölbreytt og skemmtilegt, skilyrði til arðbærs rekstrar fyrirtækja eru hagfelld, náttúran er gullfalleg, ferðaþjónustan vekur athygli um heim allan, búsetukostir eru fjölbreyttir, fasteignaverð er tiltölulega lágt, stutt er til höfuðborgarinnar og áfram mætti lengi telja.

Mér er því hulin ráðgáta hvers vegna fólksfjölgun í Borgarbyggð hefur ekki verið í takti við þróunina í öðrum sambærilegum sveitarfélögum. Vitanlega er ekki sjálfgefið að menn viti hvaða tromp Borgarbyggð hefur á hendi og hvað hingað er að sækja. Ljóst er að ef við viljum snúa þessari þróun við er nauðsynlegt að veita mikilvægi markaðssetningar á sveitarfélaginu aukna athygli.

Sjálfstæðismenn í Borgarbyggð ætla að beita sér fyrir stóraukinni markaðssetningu á sveitarfélaginu í því augnamiði að laða til okkur íbúa og fyrirtæki. Forsenda þess að markaðssetningin skili árangri er að sækja markvisst fram og spila út þeim trompum sem við höfum á hendi. Þá er eigi síður mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því hverju við viljum bæta við svo fjölgun íbúa og fyrirtækja verði líklegri en ella. ,,Í upphafi skyldi endinn skoða,“ – mikilvægast af öllu er að vita fyrir hvað við viljum að Borgarbyggð standi – að vita hver draumasýnin er. Þegar þeirri spurningu hefur verið svarað verður öllum ljóst hvaða ávinningur hlýst af því að búa, starfa eða reka fyrirtæki hér. Við ætlum að vanda til verka og leita álits íbúa, atvinnurekenda og fagaðila um dýrmæt ráð í stefnumörkun og markaðssókn.

Markaðssetningin lýtur að því að kynna sveitarfélagið út á við og draga fram þá kosti sem einkenna samfélagið okkar. Þó má ekki gleyma því að markaðssetning inn á við er ekki síður mikilvæg og eru ánægðir íbúar dýrmætasta auðlindin í því samhengi.  Hvert og eitt okkar getur lagt hönd á plóg í þeirri vegferð. Til að mynda skiptir miklu máli að tala á jákvæðan hátt um kosti Borgarbyggðar og það sem vel er gert. Fögnum velgengni íbúa og fyrirtækja, því velgengni á einum stað er um leið velgengni fyrir okkur öll. Tökum líka vel á móti nýju fólki og fyrirtækjum og sýnum þeim þakklæti sem hafa trú á Borgarbyggð – að í Borgarbyggð sé gott að búa, starfa og/eða stunda atvinnurekstur. Sýnum þeim að þau völdu rétt sveitarfélag! Við berum öll ábyrgð á því að byggja upp jákvæðan staðaranda svo fólki líði vel hérna, geti blómstrað og sjái ekki þann kost vænstan að flytja héðan. Sveitarfélög Borgarbyggðar sameinuðust fyrir rúmum áratug á pappírunum og nú höfum við tækifæri til að sameinast einnig að öllu leyti í hug og hjarta – að vera sem ein heild inn á við og út á við.

Markviss markaðssetning felur ekki í sér kostnað heldur fjárfestingu sem skilar góðum ,,arði“ strax og til lengri tíma litið. Markaðssetning er lykillinn að því að ,,stækka kökuna“, þ.e. að auka tekjur sveitarfélagsins og bæta um leið afkomu þess með því að fjölga íbúum, fyrirtækjum og tækifærum.  Aukin afkoma gerir okkur kleift að veita enn betri þjónustu og að sinna jafnframt nauðsynlegum og tímabærum fjárfestingum í mannvirkjum, gatnagerð og innviðum stofnana sveitarfélagsins svo eitthvað sé nefnt. Okkur hættir oft til að falla í ,,sparnaðargryfjuna“ svokölluðu – þar sem álitlegast er talið að skera niður kostnað til þess að bæta afkomuna. Það er alltaf nauðsynlegt að halda vel á spilunum og fara gaumgæfilega yfir sérhver fjárútlát sveitarfélagsins. En höfum það ávallt hugfast að það eru tvær hliðar á peningnum. Það má einnig bæta afkomuna með því að snúa vörn í sókn og grípa til markaðsaðgerða sem miða að því að auka tekjur sveitarfélagsins og þar með möguleika þess á að verða enn eftirsóknarverðara í hugum fólks og atvinnurekenda.

Við sjálfstæðismenn ætlum að kortleggja þessi tækifæri og koma þeim á framfæri með skýrum hætti. Við munum móta heildstæða stefnu sem lýtur að því að kynna sveitarfélagið sem eftirsóknarverðan búsetukost þar sem boðið er upp á góða þjónustu fyrir íbúa gegn hóflegu gjaldi, fjölbreyttan búsetukost og spennandi atvinnutækifæri. Staðið verður fyrir sérstöku, tímabundnu átaki þar sem ofangreindir áhersluþættir verða í forgrunni.

Ræturnar til Borgarbyggðar eru sterkar og mér þykir afar vænt um að búa hérna. Ég vil leggja mitt af mörkum við að byggja upp samfélagið okkar með því að glæða enn frekar atvinnulífið og mannlífið – hér á alltaf að vera gott og gaman að búa. Höfum gaman saman og sameinumst um að byggja upp  sveitarfélagið okkar á jákvæðan, skemmtilegan og árangursríkan hátt – öllum núverandi og verðandi íbúum til hagsbóta.

 

Gerum lífið betra.

Sigurður Guðmundsson

Höf. skipar 3. sæti á lista Sjálfstæðismanna í Borgarbyggð.